21.3.2008 | 13:15
Að elska náungann eins og sjálfan sig er stundum erfitt
Páskarnir eru helgasta hátið kristinna manna. Krossfesta og upprisa Jesú Krists eru kjarni kristinnar trúar, hún stendur og fellur með fórnardauða frelsarans á krossinum og sigri hans á dauðanum. Með blóði Jesú er skrifaður nýr sáttmáli á milli manna og skaparans, sem felur í sér að sonurinn tekur á sig syndir heimsins og gefur jafnframt von um eilíft líf hverjum sem vill taka á móti syninum. Einhvern veginn svona skil ég boðskap Nýja testamentisins. Án píslardauðans og upprisunnar er engin kristin trú, einungis óljóst framhald Gyðingatrúar.
Ef Jesús var ekki sonur Guðs er óhætt að segja að maðurinn hafi tæpast verið heill á geði. Hins vegar eru margir reiðubúnir til þess að fagna boðskap hans, eins og hann birtist okkur m.a. í Fjallræðunni, hvort sem þeir trúa á guðlega eiginleika hans eða ekki. Fjölmargir biðja til hans, og jafnvel skaparans, án þess að meðtaka upprisuna og hinn nýja blóðsáttmála. Enn aðrir gera sér að góðu boðskap Jesú um náungakærleikann, fyrirgefninguna og þau áhrif sem hann hefur haft á vestrænt siðferði og löggjöf. Að endingu eru þeir sem ulla framan í allt saman.
Einhverra hluta vegna hefur mér ávallt fundist sem Biblían boði aðskilnað á milli hins veraldlega og geistlega valds. Að vísu tók það kirkjur heimsins langan tíma að átta sig á þessu en um árhundruð hefur þessi aðskilnaður stuðlað að auknu pólitísku og félagslegu frelsi til handa borgurunum. Með því að taka út úr jöfnunni "vald fengið frá Guði" hefur almenningi tekist að brjótast undan oki valdsherra af alls kyns tagi. Að vísu hefur mönnum á köflum tekist að innleiða annars konar trúarbrögð inn í hið veraldlega vald, sbr. kommúnismann og fasismann, en með blóðugum fórnum hefur þeirri ógn verið útrýmt á Vesturlöndum og víðar, alla vega í bili.
Í hinum s.k. kristnu samfélögum eru fjölmargir sem trúa á bókstaf Biblíunnar án þess þó að sammælast um allt sem í þeirri bók stendur. Á Íslandi eru þúsundir einstaklinga sem hafa öðlast nýtt líf og nýja sýn með því að meðtaka Jesú Krist inn í sín líf. Þeir starfa í alls kyns söfnuðum, allt frá Veginum yfir í Krossinn, og tileinka líf sitt fagnaðarerindinu. All marga er einnig að finna í Þjóðkirkjunni og þeirri kaþólsku. Ég tek hatt minn ofan fyrir mörgum þessara einstaklinga og þykist vita að þeirra sannfæring er sönn og einlæg. Í tvö þúsund ár hafa milljónir einstaklinga borið fagnaðarerindinu vitni og það er út af fyrir sig sterkur vitnisburður, sem sæmilega þenkjandi menn ættu að hafa í huga.
Páskarnir eru hátið sem margir vilja nota til þess að vera með fjölskyldum sínum í friði og ró, minnast píslardauða frelsara síns, á meðan aðrir nota tímann til annars. Páskarnir eru alla vega kjörinn tími til innri hugleiðingar, ef aðstæður leyfa. Sum okkar eru svo viss um að hin helga bók sé full af kerlingasögum að þau fara nánast offari í viðleitni sinni til þess að sannfæra aðra um réttmæti skoðana sinna. Þeir ásaka gjarnan trúað kristið fólk um að stunda trúboð og yfirgang, ekki ósvipað og það sjálft er stundum sekt um. Hvað sem segja má um trúboð kristinna manna, tek ég undir þeirra orð um að menn skuli afneita syndinni en elska syndarann. Sannfærðir trúleysingjar virðast margir vera í nöp við bæði boðskap OG boðendur kristinnar trúar.
Gleðilega Páska.
Pílagrímar í píslargöngu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:54 | Facebook
Athugasemdir
Mér finnst það síður alvarlegt en t.d. sumt sem þú hefur látið eftir þér hafa. Eitt er víst, dagurinn í dag verður ekki helgaður riflildi við þig, né nokkurn annan. Hins vegar er fróðleg umræða á kurteisisnótum vel þegin, m.a. um innihald og boðskap Páskanna, hlutverk trúarbragða í samfélagi okkar og fleira í þeim dúr.
Ég held reyndar að allir átti sig á hvað Gunnar eigi við með þessum orðum; orðavalið er í sjálfu sér ekki vandamálið, heldur sú staðreynd að hann telji að tveir af sama kyni skuli ekki hafa mök saman - þannig hefur hann túlkað orð Biblíunnar. Eins eru orð rasistans ekki vandamálið, heldur sú tilhneiging að uppnefna annað fólk, eftir kynþætti eða trúarbrögðum. Ég veit ekki betur en að þú hafir verið duglegur í uppnefningum á fólk og málefni og vafalaust erum við öll sek á því sviði.
Ólafur Als, 21.3.2008 kl. 16:34
Gott svar hjá þér, Ólafur. – Greinin þín er góð. – Guð gefi þér og þínum gleðilega páska.
Jón Valur Jensson, 21.3.2008 kl. 16:48
Ein leið til þess að loka á Omega, Kristinn, er væntanlega að horfa ekki á stöðina. Reyndar væri ekki úr vegi að trúlausir stofnuðu sína eigin fjölmiðlastöð. Ekki sé ég hrottaskapinn í orðum Gunnars, þó svo að ég viðhafi önnur orð en hann um samkynhneigða. Ég held að uppnefningar eigi að forðast, nema þær þjóni sérstökum tilgangi og sé ekki beinlínis ætlað að særa fólk.
Án trúarbragða held ég að maðurinn hefði ekki náð jafn langt og raun ber vitni - ég held að þau geti gefið okkur litríkari og stundum betri heim en hafi of oft verið misnotuð af illum öflum sér til framdráttar. Eina ráðið, í afar, afar einfaldri mynd, er valddreifing í anda frjálshyggju, eins og við sjáum á Vesturlöndum. Hún er oft eina ráðið gegn því að vald safnist saman á fáar hendur og misnoti sér trúarbrögð eða einhverja isma völdum sínum til framdráttar.
Takk kærlega fyrir kveðjuna, Jón Valur, og gleðilega páska sömuleiðis.
Ólafur Als, 21.3.2008 kl. 21:52
Ég minnist þess ekki að hafa verið að "boða "fagnaðarerindi" [m]itt um afhommun í sjónvarpinu," það væri fróðlegt að sjá þau ummæli mín orðrétt eftir höfð! – Hins vegar er ég ekki í afneitun (eins og Kristinn Haukur) á þeirri staðreynd, að margir samkynhneigðir hafa sjálfviljugir farið í meðferð hjá sálfræðingum, geðlæknum og félagsráðgjöfum beinlínis í því skyni að reyna að snúa baki við þeirri kynhneigð – og tekizt það í u.þ.b. 27–28% tilvika, og þar til viðbótar voru "í framför" eftir hópmeðferð 31,7% þátttakenda. Þetta merkir ekki, að allir samkynhneigðir myndu ná slíkum árangri, því að hér var um menn að ræða sem leituðu eftir slíkri meðferð. Vonandi leyfðist þeim það! – En sjálf Kinsey-stofnunin staðfestir m.a.s., að samkynhneigðir eiga mjög háa tíðni í því að breytast í kynhneigð og það allt að fimm sinnum á lífsleiðinni.
Jón Valur Jensson, 22.3.2008 kl. 00:56
Kristinn, vitanlega áttirðu við valdboð. Hvað annað?
Dettur þér annars virkilega til hugar að ég þurfi að standa skil á viðhorfum mínum fyrir þér? Eins og gefur að skilja er þér heimilt að hafa þín viðhorf en ef lausnin felst í að banna kristnu fólki að tjá sig opinberlega lít ég svo á að þú sért hættulega elementið í jöfnunni. En mér dytti ekki í hug að banna þig.
Ég ælta ekki heldur að reyna að kenna þér að samviska okkar hvílir á einhverju sem kann að vera stærra en við sjálf eða að skynsemin fangar ekki alla hluti. Ég þykist þó viss um að við getum verið sammála um orð van Looms í þá veru að umburðarlyndið hafi verið rauði þráðurinn í átt að auknu frelsi - hann leit á sumar stofnanir kirkjunnar sem tálma í þeirri viðleitni en tileinkaði jafnframt inntaki kristninnar margt í sömu vegferð. Ég hneigist í átt að svipaðri niðurstöðu.
Ef þér þykir Repúblikanar jafn slæmir og raun ber vitni er allt eins líklegt að sú umræða þjóni engum tilgangi öðrum en að gefa þér færi á að opinbera þinn eigin rétttrúnað. Spjall af slíku tagi getur hvorki orðið skemmtilegt né fræðandi.
Eitt af því sem einkennir þína orðræðu, Kristinn, er alger vissa um nær allt sem þú tjáir þig um. Ekki ósvipað og í menntaskóladebatt. En stundum er gott að efast og spyrja sjálfan sig krefjandi spurninga samfara því að ætla öðru fólki sama vitsmunastig og jafn ríkan vilja til góðra verka og manni sjálfum. Ekki bara vaða yfir annað fólk, kalla fólk lygara, óska sumum dauða og svo boða bann ef það dugar ekki. Slíkt leggst ekki vel í gott fólk og ... skynsamt.
Jæja, þetta fer nú að verða gott í bili.
Ólafur Als, 22.3.2008 kl. 02:15
Kristinn, ég hef þegar ávítað þig fyrir óviðeigandi orðbragð hér og næsta sinn loka ég á þig hér á mínum síðum - þú getur einbeitt þér að því að tjá þig annars staðar. Mig varðar ekkert um réttlætingu fyrir orðbragðinu, hér eiga menn að ræða málin af yfirvegun og kurteisi - þitt er valið!
Ólafur Als, 22.3.2008 kl. 02:24
Ég varaði Kristinn við orðbragðinu og nú er þessu lokið, alla vega í bili.
Ólafur Als, 22.3.2008 kl. 03:44
Loksins thegar madurinn seigir eithvad ad viti tha lokar thu a hann !!!!!!!!!!!!!
Saemi (IP-tala skráð) 23.3.2008 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.