Bill og Bill og annað forvitnilegt úr kosningabaráttunni

Stundum fær maður á tilfinningunni að í Clinton herbúðunum gæti örvæntingar. Bill Clinton hefur ítrekað orðið uppvís að ummælum sem ekki hæfa honum, sem fyrrum forseta landsins. Eins og gefur að skilja er honum ljúft og skylt að vinna að framboði konu sinnar en þess er krafist af honum að hann sýni háttvísi, sem sæmi embættinu sem hann gegndi. Ummæli hans að þessu sinni eru sérkennileg því ekki voru þau sögð í fljótheitum.

Reyndar hefur verið skotið fast úr herbúðum beggja frambjóðenda Demókrataflokksins, Obama hefur ef eitthvað er hert á gagnrýni sinni gagnvart Clinton, en til þessa hafa menn ekki opinberlega gengið svo langt að saka andstæðinginn um skort á föðurlandsást, líkt og fyrrum forsetinn gaf í skyn með sínum ummælum. Eins og gefur að skilja mun þetta ekki verða konu hans til framdráttar .

Stuðningur ríkisstjórans í New Mexico, Richardson, við framboð Obama hefur vakið upp áleitnar spurningar. Richardson er góðvinur Clinton hjónanna, sérstaklega fyrrum forsetans, en sem dæmi fóru þeir nafnarnir saman á Super Bowl úrslitaleikinn í síðastliðnum mánuði. Sumir hafa að vísu bent á að hann komi seint inn í baráttuna, Obama hefði gjarnan viljað hafa hann við hlið sér í Texas, en eins og menn vita er Bill Richardson eini ríkisstjórinn af spænskum uppruna.

Stuðningur Richardson er fyrst og fremst táknrænn á þessu stigi en jafnframt mælikvarði á að hann trúi því ekki að Clinton muni vera fulltrúi þeirra breytinga sem bandaríska þjóðin kalli eftir. Það eitt er út af fyrir sig áfall fyrir hennar baráttu. Á móti mætti benda á að Richardson sé ekki jafn áhrifamikill og vænta mætti, honum gekk illa í sínu heimaríki þegar hann var enn á meðal þeirra sem sóttust eftir forsetatilnefningu Demókrata, en Clinton sigraði í New Mexico forvalinu.

Þar eð Richardson er á meðal super-fulltrúanna, og í ljósi þess að dregur nær flokksþinginu, beinist nú sjónin nokkuð að þessum fulltrúum og öðrum sem ekki hafa verið eyrnamerktir Clinton eða Obama. Hér er um dágóðan fjölda að ræða, allt að fjórðungi allra fulltrúa, og sumir hafa leitt að því líkum að Richardson geti unnið atkvæði fyrir Obama úr þeim hópi. Innan þess hóps eru m.a. fulltrúar sem á pappírnum tilheyra enn Edwards.

Í opnum forvölum geta einstaklingar sem skráðir er í tilteknum stjórnmálaflokki kosið í forvali fyrir "hinn" aðilann en þá fyrirgera þeir rétti sínum til þess að kjósa hjá eigin flokki. Nú horfir svo við í Michigan að fjöldi Demókrata kaus Mitt Romney hjá Repúblikönum og ef svo ólíklega vildi til að forvalið yrði þar endurtekið gætu þessir stuðningsmenn Demókrata ekki kosið í hinu endurtekna forvali. Að svo komnu máli er útlitið ekki gott fyrir endurtekningu í Michigan og nánast úr sögunn hvað varðar Florida.

Allt að 250.000 skráðir Repúblikanar hafa kosið í forvali Demókrata, sérstaklega var þetta áberandi í Texas. Sumir áhrifaríkir talsmenn Repúblikana, útvarpshaukar á borð við Limbaugh, hvöttu flokksmenn sína til þess að gefa Clinton atkvæði sitt í þeirri von að slá á framgang Obamas og tryggja að Demókratar berðust innbyrðis sem lengst. Repúblikanar telja margir að þeirra maður muni eiga betri möguleika á móti Clinton en Obama. Frúin svaraði þessu reyndar nokkuð vel, þegar hún beindi orðum sínum að Repúblikönum og sagði: Be careful what you wish for.


mbl.is Bill Clinton gagnrýndur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband