Frakkar eru bestir - hvað tekur við?

Frakkar hafa innan sinna raða nokkra afar hæfa íþróttamenn, sem með styrk sínum og leikni mynda saman sterkasta landslið heims um þessar mundir - maður þakkar fyrir að þeir hafi ekki sterka vinstri handar skyttu. Það er í raun ótrúlegt að sjá hve sumir leikmanna þeirra eru liprir og fljótir, sé haft í huga að þeir eru margir hverjir hátt í tvo metra á hæð. Ekki ósvipað og á við um marga bestu körfuboltamenn heims, eins og þeir birtast okkur í NBA deildinni, vestur í Ameríku.

Þrátt fyrir að Króatar séu með afar gott lið dugði þeirra áttundi liðsmaður, öflugur heimavöllur, þeim ekki í dag. Áhorfendur voru vel með á nótunum en afar góð vörn og markvarsla skóp sanngjarnan sigur Frakka. Reyndar spila Króatar einnig sterkan varnarleik en sókn þeirra sá ekki við Frökkum að þessu sinni. Reyndar hafa miklar framfarir átt sér stað í varnarleiknum undanfarin misseri. Fyrir fáum árum síðan tóku menn upp á því að keyra mjög upp hraðann í leikjum og afleiðingin var sú að iðulega voru skoruð mun fleiri mörk en áður hafði þekkst, jafnvel um áttatíu mörk í hverjum leik.

Enn er keyrt af fullum hraða hjá flestum liðum en samhliða hefur þjálfun leikmanna og samhæfing í varnarleik farið fram. Því er markaskor í leikjum nú nær því sem var áður en hinn hraði sóknarbolti komst í tísku. Framförum í sóknarleik hefur verið mætt með framförum í varnarleik. Niðurstaðan er fjörugur og kraftmikill handbolti sem aldrei hefur verið betri, enda hefur breiddin aldrei verið meiri. Hvernig Íslendingar mæta þessu á komandi árum verður forvitnilegt að sjá, en víst er að hjá handknattleiksforystunni stendur hugurinn til þess (og vonandi kunnáttan einnig) að hlúa að því starfi sem framkallar árangur.


mbl.is Frakkar heimsmeistarar í handknattleik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband