24.2.2009 | 10:02
Hver er hættan?
Grunnvextirnir haldast óbreyttir, eða 18%. Hin lítillega lækkun á óverðtryggðum lánum og skaðabótarvöxtum kann að vísa til þess að hjá Seðlabankanum sé hafið lækkunarferli vaxta. Á meðan þessum vöxtum er ætlaður líftími til loka marsmánaðar munu því 18% prósent vextir verða innheimtir af almennum lánum, nokkuð sem fáir kunna að skýra. Er eitthvað sem Seðlabankinn veit en ekki almenningur í þessu landi? Hvers vegna kalla stjórnvöld ekki eftir svörum og leyfir yfirstjórn bankans að svara fyrir þessa háu vexti? Var viðskiptanefnd ófær um að falast eftir slíkum upplýsingum? Getur forsætisráðherra, yfirmaður bankastjóranna, óskað eftir slíku?
Vitanlegu eru mennirnir við stjórnvölinn í Seðlabankanum ekki illa meinandi og þeir hafa her manna til þess að aðstoða sig við vaxtaákvarðanir. Þeim ber skylda til þess að upplýsa stjórnvöld og almenning um ástæðurnar að baki því að hafa hér vexti sem eru í óða önn að rústa fyrirtækjunum í landinu. Það voru gefin út þau boð þegar vextirnir voru hækkaðir í 18%, að tillögu AGS, að þeir vextir ættu að koma í veg fyrir fjármagnsflutninga úr landi. Síðan, og ekki löngu síðar, voru sett á gjaldeyrishöft sem hafa komið í veg fyrir slíkt.
Ef menn héldu að eitthvað verðbólgueldsneyti væri eftir í hagkerfinu, nema vegna falls krónunnar, hljóta menn nú að hafa sannfærst um að það sé allt uppurið. Seðlabankinn stjórnar að mestu genginu og því þarf ekki að vernda það umfram sjálf gjaldeyrishöftin. Á þetta hefur verið ítrekað bent á. Hvaða önnur vá Seðlabankinn er að vernda okkur frá, sem er stærri og hættulegri en að fyrirtækin fari á hausinn, er orðið tímabært að hann upplýsi okkur um.
Vextir óverðtryggðra lána lækka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.