Kosningarnar eru rétt handan hornsins

Kosningarnar sem framundan eru verða þær sérstökustu í manna minnum. Það er í raun sama hvar drepið er niður fæti, þjóðlífið allt hefur tekið stakkaskiptum. Í heimi stjórnmálanna hafa markalínurnar skerpst mikið frá fyrri tíð og ef að líkum lætur færst frá hægri til vinstri. Í ljósi bankahrunsins og þrenginga í efnahag hér heima og í heiminum öllum hafa gamlar hugsjónir fengið vængi, sem dauði milljóna manna undir járnhæl kommúnismans, fékk ekki grandað. Róttæknin blómstrar svo minnir á gamla tíð.

Það er ef til vill vel að helsta vígi borgaralegra afla á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, sé laskað. Eftir langa og samfellda valdasetu hefur hann sumpart orðið fórnarlamb varnaðarorða frjálshyggjunnar um að vald spillir. Fjölmargir í framvarðasveit flokksins urðu veisluglaumnum og velgengninni að bráð. Reyndar hafði flokkurinn ávallt velmeinandi fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum með sér í ráðum, sem sumt hvert kannast nú ekki við sín fyrri verk. En það er jú þannig sem stjórnmálin verða stundum.

Hvort sem menn vilja læra af mistökum sínum, eður ei, verður ekki framhjá því litið að stundum er hægt að spila á lýðinn og fjölmiðlana. Á það treysta stjórnmálaflokkar stundum og í því sambandi vert að vísa í kosningabaráttu Samfylkingarinnar að þessu sinni. Fyrir kosningarnar árið 2007 gagnaðist það Sjálfstæðisflokknum og nýjum formanni að spila á lýðinn með hjálp auglýsinga- og markaðsfræðinga, þó svo að Samfylkingin hafi allan líftíma sinn treyst flokka mest og best á slík fræði. Vinstri græn munu spila vel úr sínum spilum í ímyndunarfræðunum enda er flokkurinn óðum að þroskast.

Framsókn býður upp á afar hreinskipta og allt að því barnalega aðferðafræði í nálgun sinni við kjósendur að þessu sinni - með því að segja þeim nánast sannleikann. Það kann sjaldnast góðir lukku að stýra, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn fékk að reyna í kosningunum árið 1978, þegar þeir vildu takast á við verðbólguna með leiftursókn. Kjósendur þurfa að nokkru að gera upp á milli auglýsingastofa flokkanna en þó ætla ég að t.d. Sjálfstæðisflokkurinn verði óvenjulega lítillátur að þessu sinni. Ætli það muni ekki gagnast honum best.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Það er afar ánægjulegt að lesa pistil sjálfstæðismanns um hið pólitíska gerningaveður, sem ritaður er af vitrænum hætti og án ofstækis. Aðstæður í þjóðfélaginu eru afar sérstakar og margir sem bera ábyrgð á þeim. Samfylkingin er þar ekki undanskilin. Það sjá allir nema forystumenn hennar. Þeir hafa farið létt með að gleyma kosningaloforðunum að kosningum loknum. Fagra Ísland sannar það best. Ég vona að ný stjórnvöld geri sitt besta. Taki upp ný gildi. Heiðarleika í stað græðgi og gefi gamla máltækinu, um að orð skuli standa líf, á nýjan leik.

Sigurður Sveinsson, 16.4.2009 kl. 07:46

2 Smámynd: Ólafur Als

Sæll Sigurður, ætli við vonum ekki öll að stjórnvöld geri sitt besta - hins vegar hræðist ég að "sitt besta" feli í sér rauðan löðrung á kinn okkar landsmanna og er ef til vill vel að impra á slíku, eftir umræðu um bláa hönd um allmörg misseri. Þessi rauði kinnhestur mun því miður tryggja að lífskjör batni ekki á ný í bráð en hver veit nema óþekkt okkar verðskuldi slíka refsingu - hvað heiðarleika og orðheldni varðar er gott að hafa í huga að slíkt elur maður hjá sjálfum sér - og stundum afkvæmum sínum - en ekki nágrannanum.

Ólafur Als, 16.4.2009 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband