Íslensk fyrirtæki í helgreipum norska seðlabankastjórans

Norski seðlabankastjórinn heldur því blákalt fram að fara verði varlega í vaxtalækkanir vegna þess að ella geti farið illa, að hér verði að forðast þenslu. Gefum okkur það að hann hafi að nokkru rétt fyrir sér, að hraðari lækkun vaxta geti mögulega valdið þenslu. Það er vitað mál að við slíkar aðstæður skapast m.a. þrýstingur á verðbólgu en það viljum við forðast við núverandi aðstæður, ekki er á það bætandi að seðlabankinn stuðli að frekari vísitöluhækkunum en orðið er og hækkunum fasteignalána við aðstæður þar sem fasteignaverð hríðlækkar.

Berum svo saman möguleg slæm þensluáhrif við þann afarkost sem fyrirtæki landsins og heimili búa við í vaxtamálum. Það er hverjum manni ljóst að íslensk fyrirtæki eru að sligast undan háum fjármagnskostnaði, einungis stjórnvöld virðast ekki gera sér grein fyrir því hve alvarleg staðan er orðin hjá hundruðum, líklegast þúsundum fyrirtækja. Ef svo fer fram sem horfir munu þúsundir Íslendinga missa vinnuna til viðbótar þeim sem þegar eru í atvinnuleit, einungis vegna hárra stýrivaxta. Er það miðað við þessa slæmu stöðu sem stjórn seðlabankans ber saman sínar vaxtaákvarðanir og segir að ekki megi fara of geyst í lækkun stýrivaxta?

Það liggur fyrir að hefðbundnir þensluvakar í íslensku atvinnulífi eru fyrir margt löngu uppurnir. Gengið er í raun sá þensluvaki sem eftir stendur, auk sjálfra vaxtanna. Hinum háa fjármagnskostnaði verða fyrirtækin með einum eða öðrum hætti að velta út í verðlagið og neytendur borga brúsann - sem felur jú í sér að hinir háu stýrivextir viðhalda að nokkru sjálfum sér. Hinir háu stýrivextir eru því í reynd innbyggður þensluvaki.

Sem sagt, við núverandi aðstæður stuðla hinir háu stýrivextir að tvennu: Annars vegar að fjölga fyrirtækjum á leið í þrot og hins vegar að hærra verðlagi í gegnum aukinn fjármagnskostnað fyrirtækja. Þennan veruleika metur seðlabankinn sem svo að sé ásættanlegri niðurstaða en að hætta á að þensla skapist á ný á Íslandi. Ekki einast átta ég mig ekki á orðum eða sýn seðlabankastjórans, maður hlýtur að setja stórt spurningamerki við hæfi mannsins og þeirra sem með honum starfa.

Hinn erlendi sérfræðingur í Svörtuloftum er hér á vegum ríkisstjórnarinnar. Það er því á ábyrgð hennar að hér er viðhaldið vaxtastigi sem er að sliga íslenskt atvinnulíf og tefla í tvísýnu störfum þúsunda Íslendinga. Endurreisn íslensks atvinnulífs getur ekki orðið nema hér verði rekin trúverðug og endurbætt peningamálastefna. Íslensk fyrirtæki eru í hengingaról allt of hárra stýrivaxta. Þjóðin getur m.a. þakkað það Jóhönnu og Steingrími, sem fengu til landsins erlendan sérfræðing, sem telur að hröð lækkun stýrivaxta geti valdið hér þenslu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Finnur Bárðarson

Hefur hrunið alveg farið fram hjá þér ? Við erum stödd í brunarústum. Þjóðin á ekki eina krónu með gati. Á að reisa hagkerfi úr brunarústum sem sjálfstæðisflokkurinn var valdur að með einhverjum töfrasprota ?

Finnur Bárðarson, 18.4.2009 kl. 20:55

2 Smámynd: Ólafur Als

Finnur, hvað er það við núverandi peningamálastefnu sem þú ert sáttur við? Hér duga engar smjörklípur eða tilvísanir í hverjum um er að kenna. Það hlýtur að mega ætlast til þess að menn læri af mistökum fortíðarinnar, horfi til þess uppbyggingarstarfs sem framundan er í stað þess að brenna fleiri hús með því að viðhalda hávaxtastefnunni.

Ólafur Als, 18.4.2009 kl. 21:05

3 Smámynd: Finnur Bárðarson

Auðvitað er ég sammála þér í hjartanu Ólafur. Ég er sannarlega ekki sáttur við þetta eins og það er. Ég er bara svo svartsýnn á framhaldið. Held að fátt muni geta komið okkur á rétta braut. Ég held að við stefnum í þjóðargjaldþrot. Þetta er að vísu tilfinning en hagfræði hefur aldrei verið mín sterka hlið svo ég vona að ég hafi ekki rétt fyrir mér með þessa dómsdagsspá.

Kveðja

Finnur Bárðarson, 19.4.2009 kl. 10:53

4 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Háir vextir voru fyrst og fremst í boði síðustu selabankastjórnar. Þeirrar sem þurfti að setja af með sérlögum!

Nú er það AGS sem ræður og norski seðlabankastjórinn verður að túlka þeirra sjónarmið frekar en sín eigin. AGS ræður því að hér verður ekki hraðar farið. Ekki veit ég hvað þeir telja svona sniðugt við það.

Það sem hinsvegar ætti núna að vera ljóst öllum að tími reddingastjórnmála í efnahagsmálum er liðinn. Einhliða þetta og hitt. Verðtryggingar og vísitölur andskotans.

Fyrirgreiðsla um ódyrt lánsfé. Taka upp dollar eða evru einhliða. Þetta er í raun ekki lengur fyrir hendi.

Ég öfunda enga sem eiga að stjórna hér eftirleiðis. Þetta verður helvíti erfitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ákveðið að halda áfram að gera ekki neitt. Geir hefði alveg mátt vera áfram leiðtogi. Þar á bæ gerist ekkert að viti. Bjarni Ben er búinn að vera áður en hann hefur almenninlega tekið við. Sorglegt.

Gísli Ingvarsson, 19.4.2009 kl. 11:08

5 Smámynd: Ólafur Als

Gísli, hlustaðirðu ekki á ræðu norska sérfræðingsins? Ef þetta eru ekki hans eigin orð, einungis þægilega smíðaður texti utanum skipanir AGS, þá hlýtur maður að spyrja sig til hvers öllu var komið hér á hvolf á pólitíska sviðinu, til þess eins að ráða til stjórnar einstakling sem litlu ræður?

Reyndar var hávaxtastefnan í boði tveggja síðustu seðlabankastjórna, en það er nú önnur saga og nú blasir við hrun hjá mörgum fyrirtækjum, sem hinn nýi sérfræðingur hefur ekki sömu tilfinningu fyrir og ef hann væri í betri tengslum við íslenskan veruleika eða með íslenskt hjarta.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur lokst gert sér grein fyrir þessu en stjórnarflokkarnir halda áfram að makka með AGS í stað þess að segja landsmönnum sannleikann. Framsókn hefur og skilning á þessu, einnig Frjálslyndir. Þetta er sorgleur pólitískur veruleiki, að stjórnvöld þrýsti ekki betur á að seðlabankinn hafi frjálsari hendur gagnvart AGS, ef það er það sem aftrar seðalbankanum að lækkar vexti hraðar. 

Ólafur Als, 19.4.2009 kl. 11:24

6 Smámynd: Róbert Tómasson

Núverandi Seðlabankastjóri hefur lækkað stýrivextina um 2,5 - 3% ólíkt forvera sínum sem hafði engin önnur úrræði en að hækka téða vexti.  Vissulega skref í rétta átt mættu þó gjarnan vera stærri.

kveðja

Róbert Tómasson, 19.4.2009 kl. 13:35

7 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Hvaða hrepparígur er nú þetta? "Norski seðlabankastjórinn"?

Ég meina hvað kemur það málinu við hvers lenskur maðurinn er?

Ég veit ekki betur en að flestir íslendingar geti rakið ættir sínar beint til Þóru Magnúsdóttur berfætta Ólafssonar kyrra.

Lifi fjalldrapinn!

Ásgeir Rúnar Helgason, 19.4.2009 kl. 13:47

8 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Finnur var ekki Samfylkingin líka í stjórn þegar bankarnir hrundu mig minnir að þeir ættu 6.ráðherra í þeirri stjórn. Voru þeir kannski svo uppteknir að máta ráðherrastólanna að annað komst ekki að.

Ragnar Gunnlaugsson, 19.4.2009 kl. 17:32

9 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Já ég er sammála Ásgeiri við eigum að tala um Seðlabankastjóra Íslands enda er þetta embætti en ekki persóna. Bloggari kaus þó að kalla hann norskan sennilega til að setja orð hans í vafasamt umhverfi landráðanna. Ef svo var ekki bið ég bloggara afsökunar á þessum dylgjum. Að öðru leyti skildi ég ekki hvað var fréttnæmt við það að hér séu háir vextir ennþá. Það að einstakur maður ráði því er heldur ekki rétt því hér er starfandi myntráð. ASG er einnig verulega stýrandi í þessu sambandi. Ég held með fullri virðingu fyrir hæni seðlabankastjóra að hann sé frekar túlkandi en gerandi einsog sakir standa.

Gísli Ingvarsson, 19.4.2009 kl. 18:17

10 Smámynd: Ólafur Als

Gísli, eigum við ekki að ganga út frá því að um kaldhæðni sé að ræða?!

Hinn erlendi sérfræðingur er áhrifaaðili í myntráðsferlinu enda er hann fenginn til þess að skýra ákvarðanir um vexti. AGS hefur og áhrif, um það verður ekki villst. En rökin eru þessa manns, það var hann sem færði rök fyrir því að ekki mætti færa vexti hér niður hraðar en orðið er. Hans er því ábyrgðin all nokkur en hin pólitíska ábyrgð hvílir á Jóhönnu og Steingrími.

Svo því sé nú haldið til haga þá vildi síðasta bankastjórn lækka stýrivexti niður í 15% en vegna þrýstings frá AGS var hætt við þá lækkun (ég hef áður fjallað um hve arfavitlaus hávaxtastefna var, m.a. í Morgunblaðsgrein í byrjun október). Hins vegar voru refsivextir færðir skömmu síðar niður um 50 punkta.

Ólafur Als, 19.4.2009 kl. 23:08

11 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Erlendir eigendur innlána og skuldabréfa hér á landi eru í senn forviða en ánægðir með þá gríðarlegu vexti sem hinn norski seðlabankastjóri skammtar þeim. Núverandi vaxtastefna er ekkert annað en landráð, samsæri gegn íslenskri þjóð.

Skora á menn hér að lesa eftirfarandi greinar:

http://stiklur.blogspot.com/2009/04/service-debt.html

http://stiklur.blogspot.com/2009/04/ein-besta-leiin-gegn-atvinnuleysi.html

Arnar Sigurðsson, 20.4.2009 kl. 07:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband