5.10.2009 | 23:32
Hvers á þjóðin að gjalda?
Það var ekki hughreystandi að hlusta á fulltrúa stjórnarinnar í kvöld. Langlundargeð þjóðarinnar er senn á enda og brestirnir í stjórnarsamstarfinu eru flestum ljósir. Ræða forsætisráðherra var í senn innihaldslítil og kraftlaus. Aðspurð að lokinni umræðu á Alþingi svaraði forsætisráðherra fréttamanni að stjórnarandstaðan hefði ekkert haft til málanna að leggja. Getur verið að það hafi farið framhjá honum að umræðuefnið var stefnuræða hans og ríkisstjórnarinnar?
Hver er svo framtíðarsýn forsætisráðherra; jú, það er að ganga frá Icesave-málinu, svo ríkisstjórnin geti loks farið að koma sér að verki. Félagsmálaráðherra var á því að nú væri kominn tími til þess að framkvæma. Annars var ræða hans ruglingsleg og uppfull af mótsögnum, sem blasa við landsmönnum öllum nema alhörðustu fylgjendum ríkisstjórnarinnar. Ráðstafanir til þess að takast á við skuldavandann á nú m.a. að styrkja með stórauknum skattaálögum. Hvernig þetta tvennt á að fara saman fæ ég engan botn í. Annað hvort er félagsmálaráðherra að tala gegn eigin samvisku eða að maðurinn er ekki nógu vel gefinn. Við skulum vona, hans vegna, að skerpuna vanti.
Ofan á þann vandræðagang að hvorki Ögmundur né Guðfríður Lilja fluttu ræður í kvöld, sem eitt og sér sýnir að ríkisstjórnin stendur á brauðfótum, þá er ljóst að samhljómur í boðskap fulltrúa stjórnvalda var lítill. Það eina sem stóð upp úr er sannfæring samfylkingarinnar um að Icesave-samningarnir muni koma þjóðinni til bjargar en það hefur reyndar legið fyrir lengi. Ætli félagsmálaráðherra geti nú loks farið að koma hlutum í framkvæmd, nú þegar hann sér fram á endalok þess máls eða á enn að bíða um stund?
Það er sorglegt til þess að vita að þessi stjórn geti ekki leitt af sér fleira gott en raun ber vitni. Langt út fyrir raðir stuðningsmanna stjórnarflokkanna bíður fólk þess að hendur verði látnar standa fram úr ermum. Að stjórnvöld taki á sig rögg og blási í glæður framfaravona. Almenningur er þess meðvitaður er erfiðleikarnir eru ekki að baki en til þess að hann sætti sig við ástandið þarf að sjá til lands. Skipstjórinn í brúnni rúinn trausti, eina stefna er til Brussel að færa valdsherrunum þar fjöregg þjóðarinnar. Og verðmiðinn er Icesave-samningurinn - 30 siflurpeningar sem næstu kynslóð er gert að greiða.
Hétu öll stuðningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.10.2009 kl. 01:27 | Facebook
Athugasemdir
Ég er ekki sammála þér. Mér fannst ræða Jóhönnu fín, hún sagði okkur bara sannleikann. En Katrín Jakobs stóð algerlega uppúr af öllum sem þarna töluðu.
Ína (IP-tala skráð) 6.10.2009 kl. 10:28
Hver var framtíðarsýn forsætisráðherra? Hvernig ætlar hann að fá þjóðina í lið með sér á vegferð komandi mánaða og jafnvel ára? Þess utan fannst mér Jóhanna breiða yfir vandræðin á stjórnarheimilinu með upptalningum og innihaldslitlum fyrirheitum - auk þess, sem ég vék að að saka síðan stjórnarandstöðuna - eftir umræðurnar - um að bjóða ekki upp á lausnir. Hvað er konan eiginlega að fara með slíkum yfirlýsingum?
Menntamálaráðherra flutti prýðilega menntaskólaræðu en boðskapurinn var ekki annar en að læra eigi af mistökum. Gott og vel. Eftir stendur þá lærdómurinn - og hver er hann? Hvað hefur Katrín lært af mistökum fortíðarinnar? Hvaða framtíðarsýn ætlar hún að bjóða landsmönnum upp á í menntamálum, að ekki sé nú talað um í stjórn efnahagsmála?
Hvað ætla þessir ráðamenn að gera annað en að vera ósammála í stóru málunum?
Ólafur Als, 6.10.2009 kl. 16:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.