1.1.2011 | 01:00
Áramótaskaup í anda Berlusconis ...
Það verður að segjast eins og er að forsætisráðherra þjóðarinnar er ekki í takti við sumar þær raunir sem hrjá þjóðina. Hún virðist hanga á því valdaroðinu að stjórnmálastéttin í heild sinni sé vanhæf og því ekki hægt að treysta á að aðrir geti gert betur en núverandi stjórnarflokkar. All margir virðast taka undir þau sjónarmið. Þetta viðhorf var vel undirstrikað í annars fátæklegu áramótaskaupi, sýnt síðar á þessum síðasta degi ársins.
Ljóst er að forsetinn og þau öfl sem ýttu á hann að synja lögunum um Icesave urðu til þess að spara þjóðinni efnahagslegt þrot. Og svo leyfir hún sér, ásamt með fjármálaráðherra að ýja að því að betri samningur hafi staðið til boða í stað þess sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði. Skömm hennar og annarra ráðamanna er mikil í þessu máli öllu og ekki enn séð fyrir endann á þessu máli öllu saman. Var einhver að tala um Landsdóm?
Það er fyrir margt löngu runnið það skeið að taka verði tillit til aðstæðna þegar rýnt er í verk þessarar ríkisstjórnar. Hún stærir sig af verkum sem eru ekki á hennar borði. Hún telur upp atriði, sem eru ekki á hennar valdi, nema að litlu leyti. Það er vont mál. Verra er þó að Jóhanna og Steingrímur eru vernduð að nokkru af vanhæfum fjölmiðlum og fjölmennri sveit dindla sem varða hennar mistök fram í rauðan dauðann.
Áramótaskaupið, jafn húmorslaust og mér þótti það, var sem enn ein staðfesting þess að mistök stjórnvalda er hægt að klína á aðra en hana sjálfa og að lengi verður hægt að höggva í knérunn fortíðarsýnar tiltekinna viðhorfa. Þreyta af þessu tagi lýsir sér í því að ekki er hægt að gera almennilegt grín að valdhöfunum. Svo er klikkt út með þjóðernisvellu, í anda Berlusconis, sem, merkilegt nokk, hefur verið gert grín að úr þeirri átt, sem vill nú hefja til vegs samkennd og samstöðu. Er nema von að maður æli ...
Uppbygging og vöxtur framundan | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.11.2010 | 23:48
Vonbrigði ?
Við fyrstu sýn virðist hin dræma kosningaþátttaka vera vonbrigði, jafnvel vitnisburður um misheppnaða vegferð. Áhugaleysi stórs meirihluta þjóðarinnar um útkomu kosninganna á sér eflaust ýmsar ástæður aðrar en helbert áhugaleysi eða það hve sumum hafi þótt kosningin flókið ferli. Sumir hafa bent á að í flóru fjölmargra frambjóðenda hafi vantað fjölmargar hávaxnar bjarkir. Úrval karla og kvenna var þó vissulega til staðar en málflutningur allt, allt of margra var svo keimlíkur að nálgaðist síbylju. Inn á milli var þó að finna alvöru raddir, sem lýstu sér í skýrri framsetningu hugmynda þeirra.
Frambjóðendum voru settar afar þröngar skorður um kynningu á sjálfum sér og fjöldi þeirra slíkur að ekki var tilefni til umræðu um viðhorf þeirra með hefðbundnum hætti. Ég vona bara að í þeirri vinnu sem fram mun fara á næsta ári muni þeir sem valdir verða sjá, svo dæmi sé tekið, að umgengnin og nýtingin á náttúruauðlindum stendur almenningi næst, ekki bara eignarhald. Fleira mætti og nefna, sem ber vitni um óskýra framsögn margra en á þetta mun vissulega reyna og verða í höndum og valdi þeirra sem betur þekkja til að leiðbeina hinum.
Núverandi stjórnarskrá var ekki orsök hrunsins. Samt hafa sumir sett mál þannig fram að nú ætti að smíða nýtt Ísland og að þessi kosning væri veigamikið skref í þá átt. Þeir hinir sömu verða að endurskoða þá afstöðu sína að nokkru. Enn er þó ekki tilefni til þess að gera lítið úr kosningunni - endanlegra úrslita verður ekki að vænta fyrr en næsta vor, ætla ég ... vona ég.
Kosningaþátttaka líklega um 40% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.10.2010 | 08:40
Berlínarmúr velferðarstjórnarinnar.
Fjölmiðlar flytja nær endalausar fréttir af því að almennar niðurfærslur lána séu ekki mögulegar. Við, sem teljum slíka leið færa, tjáum okkur að vísu í bloggheimum og á mannamótum - en stjórnvöld, ríkisútvarpið og einkafjölmiðlarnir stærstu láta sér fátt finnast. Sú skjaldborg, sem slegin hefur verið um fjármagnseigendur - sem að hluta erum jú við öll í gegnum lífeyrissjóðina - virðist óyfirstíganleg og ofan á virkinu stendur forsætisráðherra í fullum herklæðum með sína klofnu tungu. Skjaldborgin er orðin að Berlínarmúr; í stað þess að vernda almenning frá hákörlum, kemur hún í veg fyrir að almenningur hafi nokkuð um hagi hákarlanna að segja.
Ég hef sagt að 18% almenn niðurfærsla kunni að vera of kröpp aðgerð. Hef lagt til að fara í ca. helming, t.d. 9-10%. Teldi það afar sanngjarnt út frá alls kyns sjónarmiðum, m.a. til þess að skapa sátt, ryðja veginn fyrir samningum í vetur, hægt en sígandi auka eftirspurn eftir vöru og þjónustu og þar með ýta undir nokkur hjól atvinnulífs og skapa störf. Að hve miklu leyti þetta myndi vega upp á móti kostnaði með auknum skatttekjum og auknum greiðslum í lífeyrissjóði er óvíst. Það virðist enginn hafa haft fyrir því að setja upp reiknistokkinn á slíka leið og komast að vitrænni niðurstöðu, í stað þess velja stjórnvöld að hlusta á úrtöluraddirnar en ekki á hróp almennings.
Fjármálastofnanir hafa í raun þegar lagt til hliðar fé til þess að mæta verstu skuldatilfellunum. Það gefur augaleið, að veðsetning sumra eigna er með þeim hætti að afskriftir verða verulegar. Síðan þarf að leysa húsnæðisvanda þeirra sem missa alfarið eignir sínar. Í það munu fara einhverjir fjármunir, taldir í milljörðum. Blanda þessa og hinnar almennu niðurfærsla er lausn sem tekur tillit til flestra, nema menn líti svo á að fjármagnseigendur eigi ekki að bera nokkurn skaða af hruninu. Það kynni einhver að segja að væri ekki nýlunda en hugsunin er eftir sem áður frek og í andstöðu við almenna hagsmunagæslu.
Stjórnvöldum ber að dreifa byrðinni eftir bestu getu. Augljóst er að henni er að mistakast í þeim efnum. Mistök núverandi yfirvaldi í efnahagsstjórninni og allri almennri hagsmunagæslu hefur náð áður óþekktum hæðum. Innsti kjarni stuðningsmanna reyna þó enn að benda á Dabba og Halldór, pólitísku frasarnir eru á hraðbergi um nýfrjálshyggju og hvaðeina - flestir vita reyndar ekki hvað í orðinu frjálshyggja felst; vita t.d. ekki að sú stjórnmálastefna var megin hvatinn að baki stjórnarbyltingunum vestan og austan hafs, sem reynda að kasta af sér oki aðals og konunga og leggja drög að stjórnarskrám Vesturlanda.
Einhver kynni að segja að við Íslendingar ættum ekki annað skilið en þá stjórnmálamenn, sem við höfum kosið yfir okkur. Í Reykjavík var hinum hefðbundnu stjórnmálaöflum refsað dyggilega en í staðinn fengum við Reykvíkingar trúð við stjórnvölinn, sem tjáir sig einna helst um erfiðleika í starfi en minnist vart á erfiðleikana sem snúa að borgurunum. Við Reykvíkingar hljótum að eiga slíkt skilið, góður þriðjungur kjósenda gaf Besta flokknum atkvæði sitt og þar með lyklana að stjórn borgarinnar. Ég hef hins vegar engann áhuga á stjórnmálaleiðtogum sem eru í fíflaskap og persónulegu óöryggi. Ég vil að þeir taki af alvöru á þeim vanda sem að þeim snýr og ef það gerir þá eilítið leiðinlega, fyrirgef ég þeim það; þeir eru jú að vinna að hag mínum en ekki að skemmta mér eða sinna sérhagsmunagæslu.
Niðurfærsla talin bótaskyld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2010 | 18:00
Hin týnda skjaldborg
Þó verður að segjast eins og er, að það er skiljanlegt að lögregluyfirvöld vilji forða Alþingishúsi frá spjöllum og tryggja vinnufrið þar innandyra. Það er vonandi að mótmælin í kvöld verði hávær en jafnframt án ofbeldis.
Girðing um Alþingishúsið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.8.2010 | 00:51
Kínverski risinn að vakna til lífsins á heimssviðinu
Á öldum áður stóð efnahagur Kína fyrir um fjórðungi allra efnahagslegra umsvifa heims. Ekki einasta vegna stærðar sinnar, heldur einnig menntunar, tækni, stjórnarfars, landgæða og annarra þátta sem stuðluðu að efnahagslegri velferð þeirra tíma. Þetta breyttist á 19. öld þegar nýlenduveldi Evrópu, aðallega Bretland, seildust til áhrifa og síðar einnig Japans, sem tóku völdin að mestu í þessu stóra landi en innri átök höfðu einnig nokkuð að segja um fallandi veldi ríkisins. Ekki fyrr en nú stefnir Kína hraðbyri að því að ná fyrri stöðu, sem enn á eftir að vaxa og slá út efnahagslegu veldi Bandaríkjanna áður en langt um líður.
Áhrifa Kína gætir í vaxandi mæli á heimssviðinu; þeir láta æ meira til sín taka í efnahagsmálum og pólitík heimsins og forystu Bandaríkjanna á þessu sviði verða menn þar á bæ í auknum mæli deila með kínverskum stjórnvöldum. Þegar líður á þessa öld munu því áhrif Evrópu minnka - svo nokkuð sé talið - sem nemur auknum áhrifum Kína á efnahag og stjórnmál heimsins. Sá tími sem kenndur hefur verið við "Pax Americana" mun því innan ekki mjög langs tíma heyra fortíðinni til og ægivald Vesturveldanna að baki. Hvað tekur við er óvíst en eitt er víst að það mun fela í sér átök á milli stórveldanna tveggja; Bandaríkjanna og Kína. Þess sér m.a. þegar stað í SA-Asíu en Bandaríkjunum hefur verið nokkuð í mun að efla góð samskipti við m.a. Víetnam á þeim slóðum. Nú síðast heimsóttu bandarísk herskip hafnir og strendur Víetnam, m.a. flugmóðurskipið Georg Washington.
Stjórnvöldum í Kína er ekki að skapi að Bandaríkin reyni að viðhalda áhrifum sínum um of á þessum slóðum en segja má að nágrannaríki Kína í austri og suðri sé í mun að halda Kínverjum nokkuð til hlés. Þau vilja vinsamleg samskipti við hið rísandi stórveldi en stendur nokkur uggur af þeim, sem m.a. má sjá af varfærnislegum orðum ráðamanna þessara ríkja. Í sögulegum skilningi hafa t.d. Víetnamar þó litla ást á nágrönnum sínum í norðri - Kínverjar gerðu m.a. misheppnaða innrás í Víetnam fáum árum eftir að Víetnamar höfðu sameinast í eitt ríki en þeirri veiku árás var hnekkt auðveldlega og stóðu Kínverjar eftir með nokkra skömm.
Hernaðarleg nærvera Bandaríkjanna er sterk, rétt við strendur Kína. Þar veldur mestu staðan á Kóreuskaganum - sem óþarft er að rekja hér - en einnig loforð Bandaríkjanna um að vernda Taívan frá árás frá meginlandinu samfara því að viðhalda herstöðvum í Japan - en kínversk stjórnvöld vilja innlima gömlu Formósu í stórríkið, með góðu eða illu að því er virðist. Þeir munu þó ekki hætta á stórátök á meðan Bandaríkin búa yfir sínum sterka hernaðarmætti og nærveru á svæðinu.
Nú standa nokkur átök um að hve miklu leyti Kínverjar geti gert sterkt tilkall til S-Kínahafs, sem þrátt fyrir allt er alþjóðlegt hafsvæði, en Bandaríkjamenn hafa um langan aldur farið um með herskip sín. Kínverjar óska sér þess að "áhrifasvæði" þeirra nái til þessa hafsvæðis, sem m.a. fæli í sér að Bandaríkin teldu sér ekki fært að sýna hernaðarmátt sinn þar. Um þessar mundir standa yfir nokkrar deilur um það hvernig samskipti Kínverja við nágranna sína eigi að þróast og hvað af þeim megi búast. Einn ásteytingarsteinninn er möguleg aðkoma Bandaríkjanna að þessari þróun en Kínverjar vilja halda þeim þar fyrir utan. Þeir eru því m.a. uggandi yfir bættum tengslum Víetnama og Bandaríkjanna.
Bandaríkin segjast ekki ætla að skipta sér af málum, sbr. yfirlýsingar frú Clinton og talsmanna utanríkisráðuneytisins en hvað sem því líður er ljóst að Bandaríkin munu vilja getað togað í einhverja strengi er varða þróun mála í SA-Asíu. Yfirlýsingar þeirra snúast m.a. um að Bandaríkin muni halda uppi vörnum fyrir opnum samskiptum og siglingaleiðum (m.a. fyrir herskip sín) og frjálsri verslun. Hver veit nema þetta sé forsmekkurinn af því sem koma skal mun víðar; flugmóðurskipafloti Bandaríkjanna tryggir þeim áhrifavald um heim allan og hver veit nema Kínverjar telji sig knúna til þess að efla herskipaflota sinn á komandi árum - en þess þykjast sumir sjá merki um að muni gerast.
Það verður forvitnilega að fylgjast með því hvernig Kína vill haga samskiptum sínum við nágranna sína í SA-Asíu og hvaða áhrif þeir sækjast eftir og hvað í þeim muni felast.
Kína næst-stærsta hagkerfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.8.2010 | 11:32
Forheimskun vinstri manna
Skynsamt fólk veit sem er að skattahækkanir hafa ekki alltaf tilætluð áhrif. Eitt skýrasta dæmið um þetta eru álöguhækkanir á áfengi og tóbak. Tekjur ríkissjóðs hafa ekki aukist en að sama skapi hafa verðlagsáhrif þessara hækkana aukið á húsnæðisskuldir, hækkað afborganir af sömu skuldum, fækkað krónum á milli handa fólks, aukið á svartsýni og almennt minnkað umsvif efnahagskerfisins (var einhver að tala um skjaldborgir?).
Fjármagnstekjuskattur af vaxtagreiðslum er sérkennilegur og bitnar stundum á þeim sem verst skyldi. Í núverandi árferði bjóða bankar lægri innlánsvexti en sem nemur verðbólgu. Jafnvel á allra hagstæðustu innlánsreikningum rýrnar því fé fólks. Samt eru vaxtatekjur af þessu fé skattlagt. Þessi vitleysa viðgengst einnig víða annars staðar. Hví dettur engum í hug að skattleggja fjármagnstekjur, sem nemur annarri skattlagningu, s.s á launatekjur, að leiðréttum verðlagsbreytingum? Hvernig væri að taka þá umræðu?
Ríkisstjórn er vandi á höndum. Það þarf að afla aukins fjár í ríkisstjóð til þeirra verkefna sem breið samstaða er um. Vinstri menn virðast álíta að skattahækkanir séu leiðin til þess. Við hin vitum sem er að möguleikarnir til fjáröflunar eru miklu fleiri og höfum um nokkurt skeið vonast til þess að yfirvöld myndu stuðla að atvinnuuppbyggingu (en ekki bara atvinnubótavinnu) á ýmsum sviðum, s.s. í orkugeiranum og afleiddri orkufrekri starfsemi, jafnvel stóriðju.
Þegar þessi tæra vinstri stjórn tók við völdum töluðu sumir gamlir sósíalistar um að nú væri komið að þeim að leiðrétta mistök kapítalistanna og allra vondu hægri mannanna. Orð þeirra voru sannfærandi í ljósi aðstæðna en einnig ef menn vildu kaupa skýringar þeirra á hruninu en líta framhjá sumum öðrum. Hinir hörðu vinstri menn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa unnið hörðum höndum að því að afsanna þessi orð og færa heim sönnur um gömul varnaðarorð hægri manna, að vinstri mönnum er tamast að skattleggja.
Ríkisstjórninni hefur mistekist að vinna að hag fólksins í landinu þannig að sómi væri að.
Auk skattahækkana virðist þeim lagnast að hanga á valdaroðinu.
Ætla að hækka skatta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.8.2010 | 11:33
Drepfyndinn stækkunarstjóri - húmorslausir landar
Pierre Lellouche lýsir því hátíðlega yfir að Íslendingar verði ekki þvingaðir til neins. Hvernig á að bregðast við yfirlýsingu af þessu taginu? Á maður að þakka fyrir sig ... eða, fyrir hönd þess fjórðungs þjóðarinnar, sem vill inn í Evrópuréttina, skæla? Að vísu munar Evrópusambandinu ekki um að hóta Íslendingum alls kyns þvingunum og ofbeldi þegar færi gefst, sbr. Icesave og veiðar á flökkustofnum sem leita inn á Íslandsmið.
Stækkunarstjóri ESB, Stefan Füle, virðist fara með gamanmál þegar hann segir skorta hlutlausar upplýsingar um ESB og stjórnmál þess - væntanlega á Íslandi. Vitanlega er það svo að fjölmargir eru ánægðir með störf ESB víða um lönd; Danir t.d. eru yfir sig ánægðir með dvöl sína þar inni, svona til staðfestingar á að þeir tilheyri kjarna Evrópu. Þeir horfa framhjá göllum stjórnsýslunnar innan sambandsins, fá reyndar fáar upplýsingar þar að lútandi frá afar ESB-hollri fjölmiðlun þar í landi og víðar í Evrópu.
Evrópusambandið heldur uppi öflugri PR-deild sem sér til þess að fjölmiðlar birti ekki of margar neikvæðar fréttir af málum þar inni. Það er ekki fjallað um ofurlaunin og fríðindin sem fylgir því að sitja á þingi ESB né að vera á meðal háttsettra embættismanna. Þau fara ekki hátt öll mistökin í stjórnsýslunni, við stjórn efnahagsmála, framleiðslu í landbúnaði og stjórnun fiskveiða, svo nokkuð sé talið. Hækkun launa þeirra og fríðinda um síðustu áramót í miðri kreppu, hvar embættismenn aðildarríkjanna tóku víða á sig launalækkanir, var lítið í umræðunni enda var hún samþykkt möglunarlaust.
Evrópusambandið hefur um nokkurt skeið kostað áróður hér á landi en fyrir dyrum stendur að auka þá starfsemi. Þeir kalla það eflaust, líkt og stækkunarstjórinn, að miðla hlutlausum skoðunum. Og svo er til fólk sem segja að embættismenn kunni ekki að fara með gamanmál. Verst er þó að til er hópur fólks hér á landi sem telur þetta grín embættismanna ESB vera alvörumál. Hvað á að segja um slíkan hóp annars vel hugsandi manna; karla og kvenna? Að þeir þjáist af skorti á húmor?
Gætu tekið Noreg á þetta" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2010 | 16:22
Bjargráð ráðherrans á örlagastundu
Félagsmálaráðherra vill með þessum gjörningi bjarga starfi sínu. Líklega mun honum takast það, enda hafa kratar sérstakt lag á því að sjá í gegnum fingur sér á eigin mistökum. Hann mun því njóta stuðnings flokks síns og samráðherra úr samfylkingunni.
Vg mun ekki gera veður útaf þessu máli, nema hætta á frekari stirðleika í stjórnarsamstarfinu. Með ráðningu á konu slær ráðherra jafnréttismála að nokkru vopn úr höndum gagnrýnenda sinna en eftir sem áður situr hann uppi með skömmina að baki fyrstu ráðningunni. Það mun ekki velkjast fyrir honum.
Ástu boðið starfið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.6.2010 | 16:20
Enn á eftir að sannfæra mig.
Það verður vart sagt að kosning formanns hafi verið sterk eða afgerandi. Mótframboð Péturs þótti mér óvænt en e.t.v. þarft. Forysta flokksins verður að átta sig á breyttum tímum - eflaust gerir hún það en e.t.v. hefur hún ekki rýnt nægilega í eigin barm. Þær hugsjónir, sem lifa með flokknum njóta enn fylgis á meðal þjóðarinnar en margir vantreysta forystunni og ýmsum þingmönnum. Rætt er um að uppgjör hafi ekki enn átt sér stað, alla vega ekki í þeim mæli að almenningur geti á ný horft með trausti til þessa fyrrum hryggjarstykkis íslenskra stjórnmála.
Það er vond og mannskemmandi umræðu sem einkennir stjórnmálaumræðuna og margir víla ekki fyrir sér að níða skóinn af náunganum, ata stjórnmálamenn auri, bera á þá ósannaðar ávirðingar - taktík sem sækir hefð til isma-stjórnmála síðustu aldar, sbr. áróður kommúnista og fasista þess tíma. Sumir íslenskir róttæklingar sóttu m.a. í smiðju áróðursdeilda Sovétsins ýmsan fróðleik, lærðu þar ekki einasta að halda uppi falsskoðunum, heldur ýmsa aðferðafræði sem hefur dugað þeim vel á Íslandi síðan þá.
Þó verður ekki sagt að róttæklingar hafi einkarétt á óhróðrinum þessa dagana. Hann sér víða merki enda virðist sem núverandi ástand hafi kallað fram sumt það versta í fari okkar mannanna. Hjarðmennskuhegðunin er áberandi og mannorðsmorðin daglegt brauð. Og sumir kunna ekki að skammast sín.
Ekki veit ég hvort Sjálfstæðisflokkurinn sé þess umkominn að sækja nýtt umboð til þjóðarinnar. Hugsjónirnar og gildin standa fyrir sínu en það á eftir að koma í ljós hvort þjóðin treysti núverandi forystu að vinna að hag þjóðarinnar í anda sjálfstæðisstefnunnar. Enn á eftir að sannfæra mig.
Bjarni kjörinn formaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.6.2010 | 10:32
Von ?
Ég hef ekki minnstu hugmynd um hve raunhæft framboð Péturs er, það sem ég veit þó er að pólitíkin, sem Pétur hefur staðið fyrir hefur verið að mínu skapi. Oftast nær, alla vega. Embætti formanns snýst þó um fleira en góða pólitík. Til dæmis leiðtogahæfileika. Það sem ég hef heyrt til mannsins, þá tel ég hann í grunninn heiðursmann.
Nú um stundir eru góð ráð dýr, sótt er að fólki í stjórnmálum frá öllum hliðum, auri kastað í framámenn og stjórnmálamenn af óvönduðum samborgurum okkar - orðræðan lituð vantrú og hýenur mannlífs vaða uppi með sínum bitru viðhorfum og eiturmæli. Þetta umhverfi hefur vond áhrif á mannlífið og hina pólitísku umræðu.
Ég hef ekki áhuga á til langframa að vera hluti af svo eitraðri tilveru, sem virðist hafa tekið sér bólfestu í landinu mínu. Eitrið og illmælgin, sem veður nú uppi hefur, að því er virðist, kallað fram það versta í fari margra. Stjórnmálin þurfa að ganga í gegnum siðbót og e.t.v er Pétur betur til þess fallinn að leiða Stjálfstæðisflokkinn fram um þann veg, fremur en núverandi formaður.
Skorast ekki undan ábyrgð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |