8.6.2010 | 19:02
Veruleikafyrring stjórnvalda
Tungutak stjórnmálamanna er stundum með þeim hætti að það lýsir óskýrri hugsun. Verra er þó þegar það er lýsandi fyrir djúpstæðan misskilning, jafnel meðvitaðar eða ómeðvitaðar blekkingar. Í svörum við gagnrýni á stjórnvöld um að þau hafi reynst veigalítil í bjargráðum fyrir heimili landsmanna tiltekur forsætisráðherra fimmtíu aðgerðir sem hafi átt að koma til móts við skuldavanda þeirra. Því til staðfestingar tiltekur hún að þessar aðgerðir samsvari 40-50 milljörðum. Það var og.
Séu þessir fjármunir skoðaðir nánar kemur í ljós að ríkissjóður hefur næsta lítið með þær að gera. Sem dæmi má nefna að skattauki af séreignasparnaði, sem þúsundir hafa norfært sér, vegur að mestu upp auknar húsaleigubætur. Aðrar aðgerðir varða ríkissjóð lítið sem ekkert. Hvers vegna forsætisráðherra tiltekur svo háar upphæðir, líkt og ríkissjóður hafi komið þar beint að málum, verður ekki skýrt með öðru en því að verkstjóri ríkisstjórnarinnar vill slá ryki í augu landsmanna.
Svo veikur málflutningur boðar ekki gott. Hann er merki um úrræðaleysi, sem margir vilja eigna stjórnvöldum nú. Forsætisráðherra er ekki sá eini sem hefur orðið uppvís að svo óskýrri hugsun, sem orðræðan á Alþingi leiddi í ljós, heldur eru aðrir forsvarsmenn stjórnvalda í svipaðri stöðu. Sérhver ábending stjórnarandstöðu, fjölmiðla, samtaka launafólks eða atvinnurekenda, alls kyns sérfræðinga og annarra um alvarlega stöðu þúsunda heimila er alla jafna mætt með undanslætti og hjáróma tali um fjölda aðgerða, sama hversu ómarkviss eða lítil þau kunna að hafa reynst.
Stjórnvöldum er vissulega vandi á höndum. Þetta hefur verið ítrekað um all langt skeið. Í mínum huga er það ljóst að draumurinn um vintri stjórn er að breytast í væga martröð. Samtakaleysi vinstri manna um hin stóru mál hafa ekki einasta eyðilagt drauminn um farsæla vinstri stjórn heldur beinlínis skaðað hagsmuni landsmanna. Lærdómurinn sem forsætisráðherra vildi draga af slæmu gengi síns fólks í sveitarstjórnarkosningunum átta að vera sá, að þétta fylkingarnar. Þétta þær um hvað?
Ekkert bendir til annars en að ófriðurinn og ósættið haldi áfram á stjórnarheimilinu. Að auki grunar mig að hinn "ópólitíski" ráðherra viðskipta- og efnahagsmála hafi misst tiltrú að undanförnu. Það hefur því fjarað undan þessari ríkisstjórn á fleiri sviðum en varðar hina pólitísku og snýr að flokkum hennar. Ætli dómsmálaráðherrann, e.t.v. ásamt með menntamálaráðherra, séu ekki einu fulltrúar yfirvalda sem nokkuð traust er á. Hvernig hægt er að byggja farsælt starf á slíku vantrausti er ofar mínum skilningi. Hvað sem segja má um önnur stjónmálaöfl en þau sem eru nú við völd, þá er ljóst að breytinga er þörf í stjórn landsmálanna.
Hafa komið til móts við skuldavandann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
7.6.2010 | 23:29
Pant vera í Samfylkingunni ...
Sú sérkennilega staða er komin upp í stóru sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu að Samfylkingin er við stjórn í þeim öllum. Sérkennileg, m.a. vegna þess að flokkurinn sá tapaði manni eða mönnum í þeim öllum þremur; Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Í þessum sveitarfélögum búa yfir 55% landsmanna og þó svo að Samfylkingunni hafi verið hafnað í öllum stóru sveitarfélögunum (Akureyri meðtalinni) hafa aðstæður verðlaunað þá ríkulega.
Í landsmálunum sitja þeir einnig við völd, nú í þriðju ríkisstjórninni í röð, ef allt er talið, og þó svo að ríkisstjórnin sé rúin trausti situr hún sem fastast. Niðurstaðan hlýtur því að vera sú, að það sé gott að vera Samfylkingarmaður.
Lúðvík áfram bæjarstjóri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.5.2010 | 07:29
Alvarlegt grín í höfuðborginni - einstaklingsmiðuð stjórnmál ?
Slæmt gengi Framsókanar í Reykjavík kom ekki á óvart. Efsti maður á lista þeirra var hvorki sannfærandi né bauð hann upp á nokkuð sem gat höfðað til kjósenda í Reykjavík út fyrir raðir gallharðra. Sjálfstæðisflokkurinn, þrátt fyrir afar slæma útkomu, má sæmilega við una en Samfylking og Vinstri græn fá rassskellingu af því tagi sem hlýtur að skekja landstjórnina.
Besti flokkurinn, hvað sem líður nafngiftinni, á nú, í kjölfar stórsigurs í borginni, eftir að sanna virði sitt að baki gríninu. Fjórflokkurinn fékk á baukinn í Reykjavík og á nokkrum öðrum stöðum, en Sjálfstæðisflokkurinn virðist mega sæmilega vel við una á stöku stað. Samfylkingin virðist gjalda, ásamt með Vinstri grænum, getuleysið í landsmálunum.
Þó svo að hugur margra sé fráhverfur hinum hefðbundnu flokkum er vandséð hvað taka á við í hinni pólitísku baráttu. Nema menn séu í raun reiðubúnir að hugsa hið stjórnmálalega landslag upp á nýtt. Ef fulltrúum Besta flokksins, sex talsins, tekst að sannfæra sjálfa sig og borgurum í Reykjavík að atkvæði þeim greidd sé eitthvað annað en stólpagrín kanna að skapast grunvöllur fyrir enn frekari uppstokkun hins hefðbundna flokkakerfis, hvar áherslan er lögð á einstaklinga umfram flokka og þeirra hagsmuni.
Sama hvað verður sagt um þá einstaklinga, sem Reykvíkingar kusu af lista Besta flokksins - og þó svo að fæstir þeirra hafi kynnt sér málefni borgarinnar í aðdraganda kosninganna, þá verður vel fylgst með málflutningi þeirra á næstunn. Stefnuleysi og vankunnátta fulltrúa Besta flokksins um hin fjölmörgu málefni Reykjavíkur mun reyna á, á næstu dögum og misserum. Það bíður þessa fólks að snúa gríni í affærasæla framvindu borgarmálefna.
Fjölmargir hugsa til þess að áherslan í pólitíkin verði meiri á einstaklinga en flokka í framtíðinni. Það kann að vekja ugg hjá ýmsum. Það er mögulegt að menn sjái fyrir sér að pólitík næstu missera snúist ekki lengur um þá ása stjórnmálanna sem hafa einkennt hið pólitíska landslag undangenginna áratuga - sérstaklega í ljósi þess að stjórnmálaöflin flest leita æ meira inn á miðjuna og treysta orðið á úrlausnir sérfræðinga um efnahagsmál og fleira - heldur hugsi menn í ríkari mæli til verðugra einstaklinga til þess að vinna að hag borgaranna.
Ísland er í sárum. Einna helst má líkja ástandinu við að flest, ef ekki allt, er betra en það sem hefur einkennt stjórnmálin um langan aldur. Landstjórnin í krafti tærrar vinstri stefnu hefur fyrir löngu misst tiltrú þeirra sem kusu bæði Samfylkingu og Vinstri græna (einnig sumra annnarra sem ljáðu þeim ekki atkvæði stt en voru reiðubúnir að láta á þessa stjórn reyna), einna helst að hún hangi á valdaroðinu, en þjóðinni blæðir út á meðan. Tugþúsundir heimila eru í nauð og allt eins víst að atvinnuleysi (ásamt með ráðaleysi) muni aukast þegar kemur fram á haustið. Reykjavíkurelíta vinstri manna er úr tengslum við atvinnulíf og hag fólks í landinu og þau öfl innan Samfylkingarinnar, sem kalla eftir skynsömu viti í efnahagsstjórninni, eru ofurseld m.a. hugmyndinni um að halda Sjálfstæðisflokknum frá völdum.
Fyrrum hryggjarstykki stjórnmálanna á Íslandi, mið-hægriflokkur Sjálfstæðismanna, er í sárum. Ef að líkum lætur mun svo enn verða. Sé horft til stefnumála flokksins er ljóst að hans er þörf við stjórn landsmálanna. Það sem m.a. kemur í veg fyrir að svo megi verða er skortur á endanlegu uppgjöri þar á bæ. Ekki svo að skilja, að þar með muni yfirsjónir fortíðarinnar fyrirgefast þeim, miklu fremur að kallaðir verði til einstaklingar, karlar og konur, sem geti endurreist traust og virðingu á meðal almennra kjósenda. Það mun greinilega taka mun lengri tíma en nokkurn grunaði. Á meðan gætu hinir sex fulltrúar Besta flokksins sýnt fram á að atkvæði þeim greitt var ekki kastað á glæ. Hins vegar er einnig sá möguleiki fyrir hendi að "grínið" færi fjórflokknum nokkra tiltrú á ný.
Næstu dagar munu verða fræðimönnum og áhugamönnum um pólitík einkar forvitnilegir. Verður farin leið samvinnu í Reykjavík, sbr. stefnumótum Sjálfstæðisflokksins í borginni, eða verða mótuð ný og mögulega farsæl viðmið í aðkomu borgarfulltrúa að stjórnun borgarinnar ?
Besti flokkurinn stærstur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
27.5.2010 | 23:50
Eitt besta lagið ...
Afstöðu þeirra Svía skil ég vel. Mér þótti framlag þeirra vera það besta í kvöld og reyndar yfir það heila; lagið höfðaði til mín þó svo að umgjörðin hefði mátt vera kraftmeiri (eins og þegar lagið sigraði á heimaslóð). Keppnin í kvöld var til muna betri en á þriðjudagskvöldið, þegar okkar framlag komst í gegnum nálarauga Evrópubúa. Sem betur fer vorum við ekki að keppa í kvöld.
Sumir segja framlag Dana, með sitt stolna stef (Sting; Every Breath You Take), vera sigurstranglegt en eitt er víst að það fær ekki mitt atkvæði. Þar koma önnur lög frekar til greina í mínum huga. Tyrkir koma sterkir inn, einnig Ísrael, Rúmenía, Írland og fleiri. En mikið mun vanta í úrslitakeppnina er hin unga Anna Bergendahl verður víðs fjarri.
Svíum brugðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.3.2010 | 14:14
Ritstjóri á dindlabuxunum
Samfylkingin er þessa dagana í sálarkreppu. Hún hefur þegar tapað sínu öðru stóra máli - sem kennt er við Icesave - breið herdeild krata líður hálf illa yfir því, að glytti í betri samning. Mörgum eðalkratanum hefur þótt það viðunandi að íslensk þjóð borgi fyrir klúður einkabanka, m.a. til þess að festa í sessi það sem kalla mætti pólitísk afglöp fortíðarinnar. Fyrir þá friðþægingu íslenskra jafnaðarmanna hefur stór hluti þjóðarinnar ekki hug á að greiða, þó svo að ýmsir kunni að deila þeirra pólitísku söguskoðun.
Spunameistarar krata hafa m.a. haldið því á lofti að tafir á afgreiðslu Icesave feli í sér tap upp á ómælda milljarða. Að mestu órökstutt. Háleit markmið um uppbyggingu og endurreisn, þúsundir nýrra starfa o.s.frv. hafa strandað á ósætti og stefnuleysi stjórnarflokkanna - og þetta vita menn. Að vilja kenna Icesave um er hjákátleg tilraun til yfirklórs - eins og lélegur farsi - en til eilíflegs marks um hve duglegir spunameistarar krata geta verið og trúgjarnir áhangendurnir (strumpaherdeildin og aðrir dindlar) eru.
Hitt stóra málið, sem kratar eru kvíðnir yfir, er ESB-umræðan. Íslenskir jafnaðarmenn standa höllum fæti á þeim vettvangi og það er þeim sárt. Jafnvel sárara en að geta ekki klínt Icesave-reikningnum alfarið á sjallana. Það skal ýmsu til kostað að reyna að breiða yfir getuleysi stjórnvalda, núverandi stjórnarherrar og þingmenn munu reyna í fremstu lög að blása í glóðir þessarar misheppnuðu vinstri stjórnar. Hagur og vilji þjóðarinnar er í öðru sæti. Nú skal herjað á Framsókn og spunnið og spunnið.
Karl Th.: Töfin hefur þegar kostað tugi milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.3.2010 | 22:18
Fábjánatalningin
Hver veit nema Þráinn Bertelson hafi höggvið eilítið nærri þegar hann sagði 5% þjóðarinnar vera fábjána. Að vísu virðist hann hafa ýkt ástandið, því skv. fyrstu tölum úr þjóðaratkvæðagreiðslunni eru innan við 2% sem exuðu við JÁ. Ekki geri ég nú ráð fyrir að Þráinn hafi fylgt þessum innan við 2% að ráðum, hann verður því að teljast til þess hóps Íslendinga sem vart munu kallaðir fábjánar.
Forsætisráðherrann lét ekki svo lítið að sjá sig á kjörstað og því er enn óvíst um í hvorn flokkinn hún lendir; fábjána eða ekki fábjána. Fjármálaráðherra er sposkur yfir þeim hópi fábjána, sem þó mættu á kjörstað, en ekki útséð um í hvorn flokkinn hann fellur. Aðrir virðast ánægðir með það hve þjóðin virðist hafa fáa fábjána innan sinna raða.
Hið ömurlega sýnist manni þó vera, að sumir muni gera lítið úr þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir hinir sömu munu grafa sér pólitíska gröf til framtíðar. Fram að því að þeirra pólitíska aftaka fer fram verður maður að vona að ekki verði skemmt meira fyrir framtíð þessa lands en orðið er.
Nær allir segja nei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.2.2010 | 01:17
Áróðursbragð
Ef það hefur farið framhjá einhverjum, þá fara samningar ekki einungis fram á fundum sendinefndanna. Hollensku og bresku sendinefndirnar hefðu ekki boðið betri kjör ef þeir teldu sig ekki þurfa á því að halda. Nú ætla þeir að fara áróðursleiðina með hjálp fjölmiðla og munu gera sitt besta til þess að sýna fram á óbilgirni Íslendinga. Bretar og Hollendingar eru smeykir við þjóðaratkvæðageymsluna, enda gæti hún sýnt umheiminum fram á að þegnar þjóðlands ætla sér ekki að taki því þeigjandi að vera kúgaðir til hlýðni af utanaðkomandi öflum.
Íslenskir þegnar hafa til þessa haft litla vörn í málinu, alltjent hafa stjórnvöld lengst af brugðist skyldu sinni í að halda uppi vörnum fyrir skattborgara þessa lands, allt frá upphafi þessa ógæfumáls. Staða stjórnvalda í Hollandi sérstaklega, en einnig í Bretlandi, er veik en fulltrúar þeirra eru samt sem áður meðvitaðir um fá sem mest út úr þessum samningum og varðar í raun lítið um lög og rétt í þeim efnum. Þeir eru t.d. vanir því að starfa í skjóli valds síns og áhrifa, sem sumir kynnu að kalla einhvers konar raunsæi en er í raun lýsing á því þegar lítill aðili þarf að beygja sig fyrir stórum í alþjóðasamskiptum.
Íslensk stjórnvöld þurfa að átta sig á styrk sínum í þessu máli, sem hvílir á alla vega þrennu; Í fyrsta lagi lagalegri stöðu, í öðru lagi að íslensk þjóð vill ekki láta kúga sig og í þriðja lagi að með því að halda baráttu sinni til streitu þá kann hún að setja fordæmi í því hvernig takast á við stærri þjóðir. Stjórnvöld, með Steingrím Joð í broddi fylkingar, hafa verið varkár í yfirlýsingum sínum, sem kann að koma okkur til góða - en þó hefur maður á tilfinningunni að hugur þeirra sé ekki nægilega mikill. Þetta skynja bresk og hollensk stjórnvöld einnig en þau hafa til þessa vonast eftir að þeirra vondi málstaður myndi leiða til nýs samnings á grunni tilboðsins frá því fyrir nokkrum dögum.
Þrátt fyrir að tafir verði enn á afgreiðslu þessa máls, þá er þjóðaratkvæðagreiðslan vatn á myllu málstaðs Íslendinga, því með henni er sett fordæmi sem hinn vel varði heimur alþjóðasamskipta er ekki vanur að horfast í augu við. Í því liggur vörn Íslands, að fara ótroðnar slóðir í viðleitni sinni til þess að verjast kúgun hollenskra og breskra stjórnvalda.
Íslendingar sagðir hafa gengið af fundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.2.2010 | 16:43
Sorgleg afstaða prófessorsins
Það er mér algerlega óskiljanlegt af hverju íslenskur þegn skrifar í erlend blöð til þess að halda uppi málstað Icesave-samninganna. Ég hélt ekki að menn legðust svo lágt. Eitt er að fjalla um þetta mál og biðla til erlendra áhrifamanna, jafnvel almennings, að hafa skilning á málstað Íslands - að þrátt fyrir að hér séu einhverjir sem telji það ekki eftir sér að borga fyrir óreiðu Landsbankans, að þá megi t.d. vænta betri vaxtakjara, þó ekki annað stæði til boða.
Nei, prófessorinn vill berja í drumbur kúgunar og einbeitts vilja um að láta Íslendinga ekki komast upp með moðreyk. Hann stappar stálinu í huga þeirra sem líta svo á að Ísland og Íslendingar eigi að borga hina óræðnu skuld - sem hann, að því er virðist, telur ekki stóra, en sýnir fullan vilja til þess að meta alls kyns aðrar óræðar stærðir og ógerða hluti til þess að kalla fram "væga" hryllingsmynd af ástandi efnahagsmála - lúti menn ekki í gras eins og þægir litlir samfylkingarstrumpar.
Á maður ekki að skammast sín fyrir svona lagað?
Dýrt að hafna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (39)
21.1.2010 | 19:21
Hvað veldur þessari taugaveiklun?
Íslenska liðinu tókst hið ótrúlega undir lokin, að missa unninn leik niður í jafntefli. Að vísu áttu Austurríkismenn skilið þetta stig, jafn vel og þeir spiluðu í þessum leik. Þeir fóru með rétta hugann í þetta verkefni, á meðan íslensku strákarnir voru greinilega ekki rétt stemmdir. Gerðu menn ráð fyrir að austurríska liðið myndi ekki gefa sig alla í þennan leik?
Það bíður leikmanna og þjálfara gríðarlega erfitt verkefni að takast á við vonbrigði síðustu tveggja leikja. Í stað þess að geta mætt í Danaleikinn eins og hvern annan baráttuleik bætist nú við aukaálag vegna hættunnar á að komast ekki upp úr riðlinum. Leikur liðsins til þessa gefur ekki von um bjartsýni. Svo gæti farið að íslenska liðið þyrfti að treysta á úrslit í öðrum leikjum en ef svo færi yrði staða okkar ekki góð í milliriðli og nánast úr sögunni að spila til verðlauna.
Það er eftirtektarvert hve leikur liðsins er óstöðugur og óöryggið áberandi í bæði vörn og sókn. Þó svo að einstaka leikmenn sýni ágæta spretti er liðsheildin ósannfærandi. Flæði vantar í leik liðsins og reyndar furðulegt að sjá hve leikmenn eru seinir aftur. Ítrekað gátu Austurríkismenn skorað auðveld mörk eftir misheppnaðar sóknir okkar manna. Undir lokin gerðist það, sem engan grunaði þegar stutt var til leiksloka, að áræðnir andstæðingar refsuðu okkur grimmilega fyrir mistök og lönduðu verðskuldað sínu fyrsta stig á mótinu. Dagur á lof skilið fyrir að ná því besta út úr sínu liði á meðan Guðmundur á enn langt í land með að fylla leikmenn sína baráttuanda.
Klúðruðu stigi í lokin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.1.2010 | 00:48
Heilbrigðisfrumvarpið að breytast í Icesave þeirra Bandaríkjamanna?
Repúblikaninn Scott Brown vann í gær, þriðjudag, fyrir hönd Massachusettsríki sæti í öldungadeildinni með því að hafa betur gegn frambjóðanda demókrata, Martha Coakley - dómsmálaráðherra sama ríkis (fylkis, fyrir þá sem það kjósa frekar). Sigurinn er sögulegur, enda hafa demókratar haldið þessu sæti í hálfa öld, þar af í 47 ár í höndum Ted Kennedy, gamla ljónsins, sem lést á síðasta ári af völdum krabbameins.
Þrátt fyrir áskoranir og áköll forsetans og eftirlifandi eiginkonu Kennedys, Vicky Kennedy, voru kjósendur ekki á því að hlíða kalli þeirra og viðhalda því tangarhaldi sem demókratar hafa haft í ríkinu um langan aldur. Þessi úrslit eru einnig athygliverð í ljósi þess að Kennedy hafði lengst af síns pólitíska ferils barist fyrir breytingum á heilbrigðiskerfinu í anda þess sem Obama berst nú fyrir. Sú barátta kann að taka á sig breytta mynd, nú þegar ljóst er að demókratar geta ekki lengur staðið gegn s.k. málþófi minnihlutans.
Brown hefur lýst því yfir að hann sé hlynntur breytingum á heilbrigðiskerfinu, en greinir nokkuð á um leiðir við Obama og marga demókrata. Obama kann því að standa frammi fyrir því að gera enn á ný breytingar á frumvarpi sínu og má segja að heilbrigðisfrumvarp hans sé farið að minna nokkuð á Icesave frumvarp stjórnvalda hér. Síðar á árinu verður kosið til fjölmargra sæta í öldungadeild og fulltrúadeild og ljóst að demókratar munu eiga á brattann að sækja. Kjósendur eru orðnir óþolinmóður eftir góðum fréttum frá Washington, efnahagurinn hefur ekki batnað, stríðið í Afganistan hefur snúist til verri vegar og ekki sér fyrir endann á heilbrigðisfrumvarpinu, sem að því er virðist hefur tafið umræður og aðgerðir í efnahagsmálum.
Hvort sigur hins nær óþekkta Brown í öldungadeildarsæti fyrir Massachusetts boði gósentíð fyrir repúblikana er óvíst. Óflokksbundnir (óháðir) kjósendur eru þessa dagana ekki ánægðir með forsetann, sem þeir áttu stóran þátt í að koma til valda. Obama nýtur lítilla vinsælda en þó er ekki að sjá að í röðum repúblikana sé að finna verðugan andstæðing hins sitjandi forseta í næstu forsetakosningum. Til þess að slíkur einstaklingur fyndist þyrfti sá hinn sami að sameina hinn sterka íhaldsarm flokksins, með öllum sínum kristnu tengslum, og frjálslyndari hægrimenn og þar með óháða. Hvernig þessir tveir armar eiga að starfa saman er og verður ráðgáta repúblikanaflokksins á komandi árum. Þangað til verða Demókratar að treysta því að þeir klúðri ekki of mörgum málum til þess að viðhalda völdunum í Hvíta húsinu.
Treður frumvarpinu ekki í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |