20.1.2010 | 19:34
Lúsheppnir Frakkar
Frakkar verða að teljast heppnir að fá 2 stig úr þessum leik. Omeyer sá til þess að Tékkar náðu ekki að fá annars verðskuldað stig úr þessum leik. Sóknarleikur Tékka var mistækur nær allan leikinn og á venjulegum degi - ef slíkt er þá til - ættu Frakkar að hafa landað öruggum sigri. Jafn slakan sóknarleik og Frakkar sýndu í síðari hálfleik hefðu dugað flestum liðum til þess að sigra þá en eins og fyrr segir, landaði Omeyer einn og óstuddur þessum 2 stigum og þar með Frökkum inn í milliriðil.
Tékkar voru mistækir í vörn og sókn í fyrri hálfleik og þó svo að varnarleikurinn hefði batnað til muna í þeim síðari, var það fyrst of fremst þeirra öflugi markvörður sem varð til þess að Tékker eygðu hagstæð úrslit í leiknum. Frakkar skoruðu ekki í um 18 mínútur, sem verður að teljast afar sérstakt hjá heims- og ólympíumeisturum. Hver franska hetjan á fætur annarri voru mislagðar hendur í sóknarleiknum sem þeir bættu sér að vísu að nokkru upp í vörninni. Eins og fyrri daginn sannast, að með góðum varnarleik geta lið unnið þrátt fyrir að sýna slakan sóknarleik. Það er verra ef dæmið snýst við, enda skapar slíkt tækifæri á hraðaupphlaupum hjá andstæðingum.
Frakkar, sem virtust hafa þetta í hendi sér í fyrri hálfleik, voru utangátta lengstum í síðari hálfleik. Það, hve illa þeir virðast stemmdir, kemur á óvart. Þeir mæta Spánverjum í síðasta leiknum í riðlinum og verður það verðugt verkefni fyrir þjálfarann að nú upp réttri stemningu fyrir þann leik, sem gæti ráðið úrslitum um gengið síðar í mótinu. Sigurvegararnir í þeim leik ættu að ná langt og líklegast spila um verðlaunasæti. Frakkar hafa mannskapinn til þess að komast svo langt en þá þarf hugur að fylgja öllum þessum hæfileikum sem búa í liðinu.
Ef nokkuð er að marka þá leiki sem sést hefur til, þá gætu ný og fleiri lið blandað sér í baráttuna um verðlaunin en verið hefur um skeið. Í milliriðlunum munu mætast 12 afar sterk og fremur jöfn lið og spurning um dagsform, hvernig til tekst. Við þessar kringumstæður gætu Íslendingar allt eins náð langt. Til þess þurfa strákarnir að kalla fram innri styrk og tiltrú á verkefnið, sem framundan er. Ekki ósvipað og Frakkar þurfa að horfast í augu við.
Omeyer tryggði Frökkum nauman sigur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.1.2010 | 21:12
Brotalamir í sókninni
Eftir góðan fyrri hálfleik var íslenska liðið á hælunum í þeim síðari. Vörnin var sérstaklega sterk framan af og fjölmörg hraðaupphlaup skópu forystu sem hefði átt að duga liðinu til sigurs. Sóknarleikurinn var ekki hnitmiðaður og þó svo að Ólafur væri ógnandi og hefði matað samherja sína með fjölmörgum sendingum var hann sjálfur með arfaslaka nýtingu í sínum færum. Ef ekki hefði komið til góð innkoma Arnórs í síðari hálfleik hefðu Serbar landað sigri, eins og leikurinn þróaðist. Sóknin í síðari hálfleik var mistæk og síðustu 5 mínúturnar, gekk hvorki né rak. Snorri Steinn sá ekki til sólar í leiknum og raunalegt að sjá jafn reynt lið og það íslenska missa unna stöðu niður í jafntefli.
Það sem íslenska liðið getur tekið með sér úr þessum leik er á köflum afar sterkur varnarleikur. Hins vegar hlýtur það að vera áhyggjuefni hve sóknarleikurinn er brothættur. Frammistaða Arnórs í sókninni hélt liðinu á floti í síðari hálfleik en fleiri verða að taka af skarið þegar Ólafur er tekinn jafn mikið úr umferð og reyndin var í þessum leik - og við því er að búast í komandi leikjum. Það er og verulegt áhyggjuefni fyrir Guðmund og leikmennina hve illa gengur þegar liðið er einum leikmanni fleiri inni á vellinum - en það er eitt einkenna þess hve sóknarleikurinn er ekki nægilega beittur.
Serbneska liðið er skipað gríðarsterkum skyttum, þeir eru stórir og kraftmiklir og með góða markvörslu. Þeir gætu náð langt í þessari keppni, en það verður forvitnilegt að fylgjast með þeim á móti Dönum. Dómgæslan var e.t.v. ekki sannfærandi en erfitt að meta hvort annað hvort liðanna hafi hagnast á mistökum dómaranna. En fyrst og fremst geta íslensku leikmennirnir nagað sig í handarbökin yfir því að missa þennan leik niður í jafntefli. Þeir þurfa að sýna betri leik í framhaldinu ef þeir ætla sér frama á þessu móti.
Jafntefli gegn Serbum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.1.2010 kl. 00:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2010 | 12:59
Ósammála Joly ... lítillega.
Það er ekki ofsögum sagt, að þessi kona er okkar öflugasti talsmaður á erlendri grund. Ekki veit ég hvaða áhrif hún hefur í raun á afstöðu ráðamanna úti í heimi en málflutningur hennar sýnir ekki einungis góðan vilja hennar í okkar garð, heldur all góðan skilning á eðli málsins. Hins vegar get ég ekki tekið undir orð hennar um að Norðmenn, samlandar hennar, skuldi Íslandi lánveitingar án skilyrða. Það er gott að blóðið renni henni um skyldurætur en sjálfur hef ég ekki áhuga á lánafyrirgreiðslum frá norskum stjórnvöldum, sem við þurfum ekki að gera grein fyrir. Ef ekki væri annað, þá rýrir það gildi þeirra fjármuna.
Þessu til viðbótar vil ég hrósa yfirvöldum fyrir að sýna sáttarhug og vilja til þess að sameina alþingi og vonandi þjóðina einnig. Svo virðist sem Jóhanna og Steingrímur hafi látið undan þrýstingi, sem þau hljóta að hafa orðið vör við á meðal fólks - en einnig hljóta þau að hafa gert sér grein fyrir breyttum tóni í umræðunni erlendis. Eva Joly hefur staðið framarlega í flokka sveitar sem hefur reynt að kynna málstað okkar í fjölmiðlum og víðar erlendis. Stjórnvöldum, íslenskum, virðist hafa verið mislagðar hendur í að kynna sama málstað hjá ráðamönnum ýmsum - enda hafa þau til þessa haft brenglaða sýn á það hvar þeir hagsmunir lægju.
Batnandi ríkisstjórn er best að lifa. Hún getur þakkað það, m.a. Evu Joly, sem er haukur í horni okkar Íslendinga. En skilyrðislausar lánveitingar - aðrar en frá Færeyjum (!) - vil ég ekki sjá enda þurfum við vonandi ekki á slíku að halda. Það kennir okkur ekki að fara vel með fé.
Joly: Norðmönnum ber að aðstoða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.1.2010 | 16:32
Hví skyldu ráðamenn norrænna ríkja vilja leika við okkur?
Væri ekki alveg upplagt að afstaða sænska forsætisráðherrans og ríkisstjórnar hans kenndi íslenskri þjóð að hætta að nefna norrænar þjóðir frændur okkar í sífellu? Þessi árátta margra að frændgera íbúa Skandinavíu er hvimleitt fyrirbæri. Eftir að hafa búið í bæði Svíþjóð og Danmörku kannast ég ekki við að þar væri sífellt tönglast á meintri frændsemi, þjóða á milli. Ef til vill á þessi árátta eitthvað skylt við þá framsetningu mála að á Íslandi eigi menn langt í land með að ná "hinum norðurlöndunum"? Ef til vill á þetta rætur að rekja til þess að við búum á eyju, langt úti í ballarhafi?
Það er skiljanlegt að Íslendingar horfi nokkuð til nágranna í Skandinavíu, þangað leita margir til náms og þar búa þúsundir Íslendinga. En Íslendingar leita víðar fanga í leit að menntun og störfum. Það er og skiljanlegt að eyþjóð vilji tengjast vina- og tryggðarböndum við þær þjóðir sem hún vill samsamast mest. En sjá menn ekki hve mærðarleg þessi árátta er að sífellt kalla ýmsar þjóðir frændur okkar? Hve þurfandi við hljótum að hljóma? Hve sérkennilega þetta lætur í eyrum þeirra þjóða sem byggja Skandinavíu?
Sumir láta ekki staðar numið við að nudda sér upp við norrænu þjóðirnar með þessum hætti, enn einn vinkillinn er að kalla Íra okkar frændur - þó reynir, sem betur fer, mun minna á þetta í samskiptum okkar við Íra því þau samskipti eru ekki svo mikil. Um daginn heyrði ég meira að segja að nú væru Kanadamenn orðnir frændur okkar. Á þetta eitthvað skylt við spurninguna; "How do you like Iceland?" og þeirri áráttu að fá útlendinga til þess að bera á land og þjóð lof?
Fjölmargir Skandinavar hugsa með hlýhug til lands og þjóðar en þeir eru fleiri sem láta sig sérhagsmuni okkar lítið varða. Eins og eðlilegt má telja, enda hafa þessar þjóðir nóg með sig og sitt. Norðurlandaþjóðirnar nenna ekki að leika við okkur öllum stundum, þeim finnst á köflum að við séum heldur þurfandi - og þau hafa að auki ýmsa aðra leikfélaga, sem þær tengjast ýmsum böndum. Þegar við bönkum á dyr ráðamanna í Stokkhólmi, Kaupmannahöfn eða Osló eru þessir "frændur" stundum uppteknir. Þegar það gerist verða sumir sárir hér á landi og skilja ekki af hverju hinir meintu fræntur vilja ekki leika við sig.
Ef menn gera sér grein fyrir því að samskipti þjóða byggja á gagnkvæmum hagsmunum léttist verkið sem því nemur. Ef menn mæta með betlistaf í hendi, fullir af sektarkennd, þá er ekki von á góðu. Þó svo að imprað sé á frændsemi setur það engar skyldur á herðar þessara ráðamanna. Eftir sem áður verður að bera upp mál með upplýsingu og sannfæringu að vopni, en eins og mörgum er nú orðið ljóst, hafa íslensk stjórnvöld ekki flutt mál sitt með þeim hætti.
Reinfeldt: Ákvörðun AGS forsenda fyrir láni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.1.2010 | 10:46
Jónína Rós Guðmundsdóttir í drullumalli
Ætli mér sé ekki farið og ýmsum öðrum, að þingmaðurinn Jónína Rós Guðmundsdóttir, var mér algerlega ókunn fram til þessa. Hún tengist eitthvað Austurlandi, e.t.v. Egilsstöðum, þeim ágæta bæ. Ég komst að því að hún var fram á síðasta haust með bloggsíðu en þar kemur m.a. fram að hún hefur áhyggjur af stöðu Íslands á meðal þjóðanna, eins og vera ber - hún vill ekki að Íslendingar verði metnir ómerkingar í samskiptum sínum við aðra.
Þessi eflaust vel meinandi kona hefur nú stigið í drullupoll og það verður vandséð hvernig á að bjarga henni upp úr því foraði. Þó svo að hún hugsi forsetanum þegjandi þörfina, kann hún ekki að hemja bræðina út í Ólaf og hefur fest nafn sitt við hina arfavitlausu áskorun um að forsetinn segi af sér vegna synjunarinnar. Hvað ætli þessu fólki gangi annars til? Heldur það í alvöru að áskorun af þessu tagi sé til þess gerður að efla orðspor lands og þjóðar?
Jónína Rós hefur opinberað greindarskort sem kann að verða henni fjötur um fót - þó verður að hafa í huga að hún fyllir all stóran hóp framámanna sem hafa stigið í fjölmarga drullupolla um dagana, suma stærri en þann sem Jónína Rós steig í nú. Ólína Þorvarðardóttir og Björn Valur Gíslason eru, að ég held, enn í drullumalli vegna útlegginga þeirra á orðum franska hagfræðingsins, Alain Lipietz. Hvort Jónína Rós finnur sér skjól í mistökum annarra veit ég ekki, en þetta faux pas þingkonunnar er enn einn bautasteinninn á óheillavegferð samfylkingarinnar.
Þingmaður skorar á forsetann að segja af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.1.2010 | 14:19
Á framsókn von á góðu?
Framsóknarmenn mega alveg eiga það að hafa verið að mestu sjálfum sér samkvæmir í Icesave-málinu. Jafnvel fleiri málum ef grannt er skoðað. Sigmundur Davíð náði fljótt athygla margra og hefur náð að snúa gengi síns flokks á betri veg. Hins vegar hefur ímynd formannsins skaddast lítillega að undanförn, í mínum huga að ósekju, en stundum verður ekki ráðið við þær staðalímyndir sem fjölmiðlar enduróma og birtast í huga okkar.
Síðastliðið misseri hefur Sigmundur Davíð ekki einasta birst okkur sem ötull baráttumaður fyrir hag þjóðarinnar í Icesave-málinu heldur einnig sem sá sem vissi betur en stjórnvöld og bendir nú á, enn einu sinni, að stjórnvöld hefðu betur átt að hlusta á hann og samflokksmenn sína. Þannig er formaðurinn ekkert öðruvísi en aðrir að bæta á sig blómum. Hve mikill tími fór í þennan málflutning í ræðu hans veit ég ekki en það er jú alltaf gott að mæra sjálfan sig - sérstaklega þegar menn eiga það inni hjá sjálfum sér og öðrum.
Fjölmiðlar hafa ekki verið sérlega hagstæðir framsókn í seinni tíð. Fyrir all nokkrum árum var gefið út skotveiðileyfi á framsóknarflokkinn, sem nánast allir notfærðu sér. Sumir segja að framsókn hafi í ofanálag stundað sjálfseyðingu, eins og málflutningi forystumanna hennar var háttað á mektardögum Halldórs og Valgerðar. Það kann að vera nokkuð til í því. En fjölmiðlar voru óvægnir í garð maddömmunnar, jafnvel hinn hlutlausi ríkismiðill lét ekki sitt eftir liggja. Hann hefur reyndar orðið uppvís að hlutdrægni í meira lagi að undanförnu, og dregið taum hagsmunamála krata, svo eftir hefur verið tekið.
Það er á tvennum vígstöðvum sem RUV hefur sýnt óhlutleysi sitt í málflutningi af t.d. Icesave-málinu. Það er í sjálfu fréttavalinu en einnig í því við hverja er rætt á hverjum tíma. Álitsgjafar fjölmiðlanna eru gjarnan sérfræðingar úr háskólaumhverfinu en fjölmargir þeirra eru leynt eða ljóst tengdir tiltekinni stjórnmálahreyfingu. Þá munar oft ekki um að ausa úr viskubrunni sínum, blandað eigin pólitíska kryddi. Þetta eru sömu aðilarnir sem kvarta undan spillingu, kalla eftir bættum vinnubrögðum og siðbót - en vilja svo ekki kannast við að þeirra viðhorf litist af eigin pólitísku skoðunum.
Framsóknarmenn mega alveg berja sér á brjóst en þó tel ég að þeir verði brátt að skipta um gír. Það ríkir nokkur óvissa í mínum huga, og mig grunar hjá fleirum, hvert hið pólitíska hlutverk framsóknar er í raun. Við þekkjum afstöðu þeirra í Icesave, jafnvel einnig gagnvart ESB, en önnur mál hafa næsta lítið komið til umræðu og gefið manni færi á að meta þessa nýju framsókn, sem þau stæra sig af að hafi tekið við af þeirri gömlu. Ég mun gefa þeim færi á að flytja sitt mál og meta þau í framhaldi af því - það munaði minnstu að framsóknarflokkurinn hefði fengið atkvæði mitt síðast en mér fannst þó of margir vera volgir gagnvart ESB. Það varð á endanum til þess að atkvæði mitt fór annað.
Vöruðum við en ekki var hlustað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2010 | 18:15
Mönnum er skemmt í Downingstræti 10
Það er með eindæmum að fylgjast með viðbrögðum og áherslum stjórnar og stjórnarþingmanna. Sérhvert málefnalegt álit sem gæti stuðlað að minnkun skaða af Icesave-málinu reyna menn að kveða í kútinn. Þetta er að verða lýðum ljóst á Íslandi en hefur um alllangt skeið verið þekkt á Downingstræti 10. Þar á bæ hafa menn ekki þurft að hafa mikið fyrir hlutunum, einungis treyst á þrælslund íslenskra yfirvalda og þeirra bandingja. Það kæmi manni ekki á óvart þó að Darling og Brown trúi því að á Íslandi hafi frá því í þorskastríðunum alist upp kynslóð fáráða eða í besta falli fólks með misskilda þjóðerniskennd.
Gamanleikritið sem bresk og hollensk stjórnvöld horfa upp á er vitanlega harmleikur eins og málið horfir við okkur Íslendingum. Svo báglega er fyrir málstað okkar komið að víða eru menn farnir að vorkenna okkur. Það er svo sem ágætt ef það yrði til þess að íslensk stjórnvöld tækju sig saman í andlitinu og færu að berjast fyrir hagsmunum íslenskra skattþegna. Hins vegar þykist ég viss um að víða muni menn ekki gefa mikið fyrir andans atgervi Íslendinga, þegar stjórnvöldum tekst svo hrapallega að vinna að málstað eigin þjóðar - nema vitanlega menn þjóni öðrum herra, hafi aðra hagsmuni að leiðarljósi.
Hvernig væri nú að fletta upp orðinu kvislingur í orðabók ...
Quest tekur málstað Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
11.1.2010 | 12:16
Björn Valur Gíslason í smjörinu
Nefndur Alain Lipietz ruglaði ekki saman tilskipunum, þó svo að hann hefði nefnt vitlaust ártal að baki tilskipun 94. Vangaveltur þingmannsins íslenska um það hvað Alain kann að hafa haldið eru ósannfærandi og til marks um hve langt er seilst í því að verja vondan málstað. Í stað þess að grípa fagnandi hverju hálmstrái, sem kynni að styrkja málstað Íslands, þá er gripið til þess að kasta smjörklípunum. Athyglivert er þó að hann lét það vera að smyrja smjörklípunum á Evu Joly.
Björn Valur Gíslason er þingmaður fyrir VG og hann styður ríkisstjórn Íslands. Þingmaðurinn er ekki glaður yfir því að sterk og efnisrík rök eru sett fram til þess að minnka skaðann af Icesave-málinu. Hann berst ekki fyrir hagsmunum íslenskra skattþegna, heldur samningi sem hefur verið troðið ofan í kokið á auðsveipum stjórnvöldum. Stærir ekki utanríkisráðherra sig af því að vera í flokki með Gordon Brown - og jafnvel fleira samfylkingarfólk. Er Björn Valur e.t.v. einnig genginn í breska verkamannaflokkinn?
Þingmaðurinn berst fyrir vondum samningi og vondri ríkisstjórn. Hann stendur við strokkinn og strokkar smjörið, hvað hann getur. Á örlagastundu, þegar þjóðin þarf á samstöðu og bandamönnum að halda, bregðast yfirvöld borgurum þessa lands með þeim hætti að efast verður um heilindi og vit þess fólks sem er þar í forsvari og þeirra aðila sem styðja þeirra vonda málstað.
Og þetta fólk kann ekki að skammast sín.
Segir margt athugavert við málflutning Lipietz | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2010 | 23:16
Vík burt - þið hafið þegna ykkar að fíflum!
Eftir því sem fleiri kurl koma til grafar í þessu máli má ljóst vera að ekki einasta er verið að hafa íslenska þjóð að fífli heldur er í gangi ljótur leikur af hálfu yfirvalda þessa lands. Sá leikur er allt að því glæpsamlegur og ef ráðamenn venda ekki sínu kvæði í kross er voðinn vís.
Ýmsir hafa haldið því á lofti að Íslandi beri ekki að greiða fyrir framferði Landsbankans, einkabanka, með mikla starfsemi á erlendri grund. Þeir hinir sömu hafa bent á sterk rök fyrir máli sínu en ég, ásamt eflaust með fleirum, höfum tekið að nokkru mark á þeim hræðslu- og ólíkindaáróðri sem stjórnvöld og aðilar á borð við Jón Baldvin Hannibalsson, Þorvald Gylfason og fleiri hafa haft fram að færa. Nú er að koma æ betur í ljós að málflutningur þeirra er litaður af öðru en að verja hagsmuni íslenskra skattborgara.
Það er einnig ofarlega í mínum huga sú hugsun að við erum sem reifabörn í höndum erlends valds og að fákunnátta ráðamanna og þeirra handbenda er með þeim hætti að maður skammast sín ofan í kjölinn. Reyndar eru fjölmargar tilfinningar aðrar sem hrærast innra með manni utan skammarinnar yfir vangetu stjórnvalda og fulltrúa þeirra; sorg, reiði, vantrú kemur mér t.d. í huga. Hvernig má það vera að til séu einstaklingar, jafnvel stjórnmálaöfl, sem svo berlega hafa orðið uppvísir að því að vinna gegn málstað eigin þjóðar, til þess m.a. að þóknast sínum annarlegu, pólitísku markmiðum.
Ég hef að undanförnu kallað eftir því að stjórnvöld vendi sínu kvæði í kross og reyni á þessari ögurstundu í sögu þjóðarinnar að sameina alþingi og þjóð að baki raunverulegri hagsmunabaráttu í viðskiptum sínum við hinar eitilhörðu stjórnir Bretlands og Hollands, að ekki sé nú talað um á meðal hinna svo kölluðu norrænu vinaþjóða.
Ég þykist merkja viðhorfsbreytingu hjá stjórnvöldum en óttast að henni muni mistakast - að eiginhagsmunir verði settar ofar heildarhagsmunum. Í tilraun minni til þess að láta ekki reiði mína ná tökum á mér í afstöðu minni til yfirvalda, finn ég fyrir sorg í hjarta mér yfir því hlutskipti sem stjórnvöld hafa valið sér. En reiðin er skammt undan.
Nú, þegar stjórnvöldum hefur tekist að hafa þjóð sína að fíflum, að sýna þegnum sínum fram á hve auman málstað þau hafa að verja, er sýnt að hún getur ekki lifað lengi. Jafnvel þó svo að fróm ósk um kúvendingu yrði niðurstaðan, er ekki víst að það dygði henni.
Fyrir tveimur sólarhringum var ég reiðubúinn að horfa framhjá mistökum yfirvalda að því skilyrði uppfylltu að þau sæju sig um hönd en nú get ég illa réttlætt fyrir sjálfum mér að á valdastóli sitji mikið lengur einstaklingar og stjórnmálaöfl sem eru orðin ber að því að vinna gegn hagsmunum þegna sinna. Svo vitlaus get ég ekki leyft mér að vera mikið lengur.
Ég hef fengið mig fullsaddan af hráskinnaleik núverandi valdhafa og frábið mér og þjóðinni allri að veita þeim starfsfrið mikið lengur.
Ekki einhliða innanríkismál | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.1.2010 kl. 00:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.1.2010 | 12:17
Sanngirni?
Vitanlega munu Bretar og Hollendingar ekki sýna neina sérstaka sanngirni. Þeir eru jú að berjast fyrir því að borga sem minnst. Hvaðan sú hugsun kemur, að viðsemjendum okkar beri að sýna sérstaka sanngirni er mér fyrirmunað að skilja. Það vinnur sérhver þjóð í þágu eigin hagsmuna - nema ef vera skyldi hinum íslensku. Á þeim bænum virðast menn nálgast málið af "sanngirni" - þeirri sérkennilegu samningaaðferð að fyrirfram taka undir sjónarmið viðsemjenda.
Íslensk samninganefnd, sem ekki nennti að berjast fyrir því að borga sem minnst, færði okkur afurð sem yfirvöld hafa setið uppi með og varið með kjafti og klóm. Einnig fjölmargir stuðningsmenn hennar. Í þeirri baráttu hafa margir misst sjónar á aðalatriði málsins, en það er að minnka skaðann af mistökum fortíðarinnar. En allt of margir Íslendingar virðast reiðubúnir að taka á sig og aðra miklar efnahagslegar klyfjar til þess að þóknast pólitískum viðhorfum sínum.
Einhverjir kynnu að túlka slíkt sem landráð. En það býðst nú íslenskum stjórnvöldum einstakt tækifæri til þess að sameina krafta Alþingis og þjóðar og hefja kraftmikla hagsmunagæslu á erlendum vettvangi, þar sem stríð geysar um efnahagslega endurreisn lands og þjóðar.
Sátt ekki í sjónmáli | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |