Bara ekki Samfylkingin!

Þær eru ávallt kómískar tilraunir stjórnmálamanna þegar þeir bera við persónulegum aðstæðum, þ.e. ef þeir eru ekki beinlínis veikir. Hinn ungi Ágúst Ólafur Ágústsson hefur verið grátbroslegur í tilraunum sínum til þess að sýnast einn af leikendunum í hráskinnaleik Samfylkingarinnar að undanförnu. Hann hefur nú áttað sig á því sem þjóðin sá fyrir nokkru, að á hann hefur enginn hlustað.

En það er ekki þar með sagt að raddir innan Samfylkingarinnar hafi ekki verið háværar og komið úr öllum áttum:

Hvernig var þetta nú aftur ... ?
Ríkisstjórnina burt - bara ekki Samfylkinguna.
Okkur ofbýður hráskinnaleikur stjórnmálanna - bara ekki hjá Samfylkingunni.
Okkur hugnast ekki smjörklípuaðferðir - nema hjá Samfylkingunni.
Við viljum gegnsæi, opin og heiðarleg vinnubrögð - þó ekki hjá Samfylkingunni.

Burt með lygarnar - Samfylkingarmenn mega þó plata smá.

Við viljum nýtt Ísland - nema hvað Samfylkingin þarf ekkert að breyta sér - kratar sjái um að leggja drög að endurreisn lýðveldisins.

Amen


mbl.is Ég er ekki að fara í fússi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsetinn setur sjálfan sig í sviðsljósið - enn einu sinni!

Á meðan stjórnmálamenn reyna að ráða í stöðuna birtist forseti lýðveldisins og túlkar stjórnarskrána eins og honum hentar. Af alkunnri smekkvísi setur hann sjálfan sig í sviðsljósið og ætlast til þess - auðmjúkur að vanda - að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar dansi í takt við fyrirskipanir hans. Þó svo að hann kunni að enduróma ýmsar óánægjuraddir og frómar óskir annarra er það ekki hans hlutverk að segja stjórnmálamönnum fyrir verkum.

Verkefnin, sem blasa við stjórnvöldum, þekkja menn. Ef ekki er sátt um hvernig líta beri á ástandið, ræða stjórnmálamennirnir um það sín á milli  - og í besta falli segja forsetanum frá því fyrir kurteisis sakir. Forsetinn á ekki að hlutast til um þau verkefni sem stjórnmálamenn takast á við á hverjum tíma. Breytir þar engu um þó svo að nú séu óvenjulegir tímar. Stjórnarskráin spyr ekki að því.


mbl.is Skapa þarf samfélagslegan frið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hráskinnaleikurinn heldur áfram í íslenskum stjórnmálum

Eins og vænta má hafa tveir aðilar sem skilja misjafna sögu að segja af sambandinu. Samfó segir að Geir hafi ekki staðið sig og því væntanlega sett fram úrslitakosti - sem hver heilvita maður sér að Sjallar gátu ekki samþykkt. Breytir þar engu hversu mikið traust Jóhanna kann að hafa. Það er bæði vont og gott að Samfó áttar sig ekki á eigin sundrungu. Vont fyrir hana sjálfa, gott fyrir aðra - en þó aðallega að ESB aðildin mun ekki hvíla eins og mara á þjóðinni á meðan tekist er á við brýn verkefni á sviði efnahags og stjórnsýslu.

Það er reyndar nokkuð klént af hálfu Lúðvíks að kvarta undan orðum forsætisráðherra í sömu mund og hann segir Geir ekki hafa valdið starfi sínu. En svona láta menn í skilnaðarmálum, menn sjá hlutina hver með sínu lagi. Hvað tekur nú við, veit enginn. Óvissunni er ekki enn lokið, hráskinnaleikir stjórnmálanna halda áfram og minna okkur enn á hve langt er í það að almenningur geti á ný treyst stjórnmálamönnum á Íslandi.


mbl.is Verkstjórnin var ekki í lagi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurreisn fjármálaeftirlitsins? Hver tekur við?

Vonandi er hér um fyrsta skrefið að ræða í tiltekt landsstjórnarinnar. Ljóst er að forstjóri og stjórn FME hafa brugðist í mörgum skyldum sínum og þó svo að starfslok Jónasar kunni að kosta ríkissjóð nokkuð, má ljóst vera að aukin tiltrú á nýju fólki - sé vel að ráðningarferlinu staðið - mun gera gott betur en að bæta það.


mbl.is Jónas hættir 1. mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýtt lýðveldi - táknræn aðgerð?

Í kjölfar efnahagshrunsins hefur hver grunnstoð samfélagsins á fætur annarri brugðist eða laskast verulega. Í yfirstjórn landsins ríkir óvissa, sem líkja má við glundroða, og tiltrú almennings á stjórnmálamönnum og flokkum er sem næst horfin. Staðan er í raun uggvænleg því þörfin fyrir traustri landsstjórn hefur aldrei verið meiri. Efnahagslegt og hugmyndafræðilegt skipbrot virðist blasa við.

Sumir kalla nú eftir nýrri stjórnarskrá. Það er auðveldara sagt en gert, enda íslensk þjóð bundin af þeirri stjórnarskrá sem hún hefur nú. En vissulega hljóta að vera til leiðir til gagngerra endurbóta, sem beinlínis er ætlað að taka á þeim meinum sem nú er helst rætt um og varðar aðgreiningu og beitingu hins opinbera valds, kosningalöggjöf o.fl. Hvort menn vilji ganga svo langt að kalla eftir nýju lýðveldi tel ég á þessari stundu snúast um fagurfræði. En vissulega gæti slíkt haft táknræna merkingu og að því leitinu gott mál.

 


Sjálfstæðismenn þurfa að senda nýtt fólk í brúna.

Ég skal ekki segja ... manni sýnist sem ríkisstjórnin sé að gefa upp laupana. Hin pólitísku bjargráð, sem hefðu getað dugað í nóvember, jafnvel desember, myndu ekki duga nú. Þó svo að hreinsað yrði til í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu, skipt um nokkra ráðherra, og í framhaldi af því sett fram bjargráðaáætlun, tel ég að líf ríkisstjórnarinnar yrði einungis framlengt um stuttan tíma.

Vont er til þess að vita að forsætisráðherra áttar sig ekki á þeim vatnaskilum sem nú hafa orðið. Enn verra yrði, ef sjálfstæðismenn á landsþingi læsu einnig vitlaust í stöðuna. Þjóðin þarf á krafti áræðinna einstaklinga með framtíðarsýn að halda. Þær hugsjónir sem tengja fólk um land allt við atvinnufrelsi, ábyrga fjármálastjórn, skynsama valdstjórn osfrv. þarf að virkja á nýjan leik. Það þarf að endurvinna traust og núverandi forystu sjálfstæðisflokksins er það um megn.


Prýðileg greining - afleit lausn

Gott og vel. En það var nú samt lánsfjárkreppan sem hratt af stað bankahruninu hér. Reyndar var viðskiptamódel íslensku bankanna að hruni komið fyrir ári síðan og æðstu menn íslenska bankakerfisins voru þess vel meðvitaðir. Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn áttu einnig að hafa áttað sig á því, þó síðar yrði. Árið 2008 tóku bankarnir stöðu gagnvart íslensku krónunni og högnuðust um tugi milljarða, Landsbankinn stóð í því að tæla til sín sparifé einstaklinga og félagasamtaka í Bretlandi og víðar auk annarra gerræðislegra bjargráða hjá þeim öllum þremur. Þessar aðgerðir voru siðlaus tilraun til þess að fela að hið íslenska viðskiptamódel bankanna var byggt á sandi.

Með fjórfrelsið að láni frá Brussel tókst íslenskum bankamönnum að nauðga því áliti sem Íslendingar hafa byggt upp á erlendum vettvangi í meira en hálfa öld og sökkva þjóðinni í ófært skuldafen. Í ofanálag kunna þessir menn ekki að skammast sín og birtast jafnvel í fjölmiðlum brosandi innan um veisluglaða Íslendinga. Ekki svo að skilja að þeir megi ekki brosa, mennirnir. Það þarf ekki erlenda fræðinga lengur til þess að segja okkur hvað gerðist. Það þarf að upplýsa um stærð vandans og setja fram áætlun um það hvernig vinda eigi ofan af skuldahalanum. Í það verk má gjarnan fá erlenda sérfræðinga. Það starf hefur ekkert með inngöngu í ESB að gera, enda vandséð hvað þeir eigi að gera okkur til bjargar.

Og ef einhver ætlar enn að halda því fram að ef við hefðum verið í ESB hefði þetta aldrei getað gerst er hinum sama bent á þá stöðu sem Írar eru nú í. Þar í landi hefur evrutengingin gert það að verkum að efnahagsúrræðin þar í landi snúast um aukið atvinnuleysi, niðurskurði hjá hinu opinbera og beinar launalækkanir. Kannast einhver við þetta hér á Íslandi hinu góða? Fyrir nokkrum vikum bentu hróðugir ESB-sinnar hér á landi að við hefðum ekki lent í þessari krísu ef við hefðum haft evru og verið meðlimir í ESB, sbr. Írland. Líkt og menn verði gáfaðri við það að ganga í þjóðríkjasamtök. Svo er ekki, enda mun stór hluti Evrópu sjá fram á harða daga, líkt og við sem stóðum fyrir utan ESB. Ólíkt okkur, eru innviðirnir orðnir feysknir og Evrópubúar meginlandsins orðnir gamlir og bráðum lúnir.


mbl.is Voru í raun án Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gráupplagt ...

Ekki fæ ég nú séð að heimsóknin sé óviðeigandi. Jafnvel þó til hennar sé boðað með óvenjulegum hætti í samskiptum þjóðanna. Hafa íslensk stjórnvöld ekki heimsóttt og tekið á móti alls kyns þjóðarfulltrúum í gegnum tíðina. Nú síðast hélt forsetinn vart vatni yfir ágæti Kínverja í ljós Ólympíuleika. Ef einhverjir hafa farið með stríði á hendur nágrönnum sínum og hneppt aðrar þjóðir í helgreipar sínar, þá eru það Kínverjar.

Var ekki utanríkisráðherra fyrir ekki all löngu síðan að gefa sig út fyrir að geta komið góðu áleiðis á hinu stríðshrjáða svæði sem telur Ísrael og nágrenni. Væri ekki einmitt upplagt að leyfa Ísraelum að tjá hug sinn og ef vera vildi, flytja fulltrúa ísraelska menntamálaráðuneytisins óánægju íslenskra stjórnvalda með þróun mála á Gaza. Væri það í raun ekki gráupplagt?!


mbl.is Heimsókn Ísraela til Íslands afþökkuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn er hlustað ...

Mér er spurn. Munu greiningadeildir bankanna áfram vera sá álitsgjafi sem fjölmiðlarnir hafa til sanninda um ástand peningamála á Íslandi? Segir það ekki nokkuð um áreiðanleika greiningadeildanna, að forsvarsmenn þeirra voru í framvarðasveit þeirra sem leiddu íslenska þjóð á asnaeyrum inn í verðbréfakaup og fjárfestingu í íslenskri útrás? Er búið að hvítþvo þessa hagfræðinga af þeirri vitleysu sem þeir predikuðu? Hafa þeir komið fram og sagt að e.t.v. hefðu greiningadeildirnar gert mistök - dýr mistök - sem kostuðu marga allan sinn sparnað og jafnvel meira til? Um margra ára skeið kokgleypti þjóðin við orðræðu og spakmannlegu yfirbragði þessara einstaklinga í dýrkun sinni á gullkálfinum. Þetta voru á meðal æðstu presta þess trúnaðar.

Þeir eru þrír, þessir einstaklingar, sem einhverra hluta vegna virðast hafa fengið syndakvittun hjá íslenskum fjölmiðlum. Sem fyrr eru þeir ósparir á sín álit, en þeir skrifa m.a í sameiningu undir það að einhliða upptaka erlends gjaldmiðils sé ekki gott fyrir þjóðina. Úr því að þau eru svona sammála er sem mig gruni að þau hafi rangt fyrir sér. Reyndar var þessi kór hagfræðinga ekki sannfærandi. Greining þeirra var ekki góð - það fór einna mest fyrir öllum myndunum af fólkinu. Ekki ósvipað og þegar forsvarsmenn greiningadeildanna voru að tjá sig - þeir komu vel fyrir í sjónvarpi. Enda var þetta fólk á himinháum launum til þess að froðan klæddist sannfærandi búningi - enda beit þjóðin á agnið og enn eru fjölmiðlar með öngulinn í kjaftinum frá þessu fólki.


mbl.is Veik staða krónu meginástæða hárra stýrivaxta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útrýmið þeim!

Þegar kaldastríðið stóð hvað hæst var Afríku leikvöllur blóðugra átaka á milli austurs og vesturs. Kínverjar tóku þátt í þeim hildarleik, aðallega þó nær heimaslóð, en þeir teygðu einnig anga sína allt til Afríku, aðallega með sölu vopna. Kínverska alþýðulýðveldið varð til á svipuðum tíma og Ísrael. Til uppbyggingar síns lands höfðu Ísraelar farið óhefðbundnar leiðir en náð eftirtektarverðum árangri. Þeir ræktuðu upp eyðimerkur og náðu á undravert stuttum tíma að komast til bjargálna og hófu m.a.s. útflutning landbúnaðarvara - hver kannast ekki við Jaffa appelsínurnar, þ.e. ef þeir hafa aldur til?

Á árunum fram að sex daga stríðinu litu sumar Afríkuþjóðir til þeirrar uppbyggingar, sem hafði átt sér stað í Ísrael og vildu læra af þessum dugmiklu Gyðingum, sem hafði tekist að breyta eyðimörk í gjöfula akra. Þessa þróun var m.a. ekki Kínverjum að skapi, hvað þá Sovétinu gamla. Það truflaði þeirra áform um áhrif í Afríku. Þó svo að samyrkjubúin, sem leiddu það byltingarkennda starf að breyta eyðimörk í grösugar lendur, væru í grunninn félagslegt fyrirbæri, var Ísrael þrátt fyrir allt í vinfengi við Vesturlönd. Bretar og Frakkar sáu Ísraelum að mestu um vopn fram á sjöunda áratuginn en Bandaríkjamenn í ríkari mæli eftir það.

Þegar Nasser var í óða önn að festa sig í sessi sem leiðtogi Arabaþjóða á sjöunda áratugnum og kalla Araba til vopna gegn Ísraelsríki, var það m.a. Sovétleiðtogum í hag að efla nýfengið vinfengi við sömu lönd. Þeir sáu Egyptum og fleiri Arabaríkjum fyrir vopnum í þeirri viðleitni Nassers og annarra leiðtoga Araba að ætla sér að má Ísraelsríki af yfirborði jarðar. Kínverjum var sérstaklega umhugað um að Ísrael gæti ekki "flutt út" sinn góða árangur á sviði landbúnaðar og þróunar en á þessum árum voru Ísraelar reiðubúnir að rétta nýfrjálsum Afríkulöndum hjálparhönd á þessu sviði.

Í aðdraganda sex daga stríðsins í júlí 1967 bárust Nasser og Arabaþjóðum frómar óskir frá Kínverjum. Þeir voru hvattir til þess að gereyða Ísrael í krafti þeirrar stríðsvélar sem beindi öllum sínum spjótum að Ísrael á hinum örlagaríku dögum fyrir stríðsátökin. Nasser hafði m.a. safnað á annað þúsund skriðdrekum á Sinai skagann, af nýjustu gerð frá Sovétinu, og allt um kring Ísrael stóð óvígur her manna reiðubúinn að greiða Ísrael náðarhöggið. Ísraelsmenn biðu ekki innrásar herja Nasser og ákváðu þess í stað að sækja fram að fyrra bragði. Þrátt fyrir að tvísýnt væri um úrslit í þessu skammvinna en örlagaríka stríði þekkjum við öll útkomu átakanna á sumarmánuðum ársins 1967.

Kínverjar urðu að sínu leyti að ósk sinni. Í kjölfar sex daga stríðsins hætti því sem næst þróunaraðstoð Ísraela í Afríku og þessi vanþróaða heimsálfu varð leiksoppur stríðsátaka á vígvelli kalda stríðsins. Í stað þess að hin nýfrjálsu ríki sæktu fyrirmyndir til landa á borð við Ísrael tóku við blóðug átök vítt og breitt um álfuna, með þeim afleiðingum að mörg Afríkuríki hafa fjarlægst efnahagslegt sjálfstæði og orðið skorti og hungri að bráð. Í stað framþróunar hefur álfan í ríkari mæli þurft að styðjast við matargjafir og almenna aðstoð. Þetta er grætilegt í ljósi þess að Afríka gæti ekki einungis brauðfætt eigin íbúa, heldur eflaust allan heiminn, ef svo bæri undir.

Viðleitni Kínverja nú er vafalaust byggð á öðrum grunni en þeim sem einkenndi áök kalda stríðsins í Afríku. Með því að veita vanþróuðum ríkjum eða svæðum aðstoð hjálpa þeir einnig sjálfum sér. Þannig verður samvinnan til þess að báðir aðilar hafa hag af. Ef þetta er sá grunnur sem liggur að baki viðleitni Kínverja nú, alla vega að hluta til, má ýmislegt gott um þessa aðstoð segja. En hitt er víst að um leið vex pólitískt áhrifavald Kínverja og um það má hafa mörg orð og ekki öll falleg. Eftir því sem Kínverjum vex styrkur á alþjóðavettvangi mun umheimurinn í ríkari mæli þurfa að gefa eftir í kröfugerð sinni um aukin mannréttindi í Kína, að ekki sé nú talað um að aflétta kúgun og hernám Tíbets. Er þá einungis fátt eitt upptalið.


mbl.is Flytja út bændur til Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband