29.12.2008 | 16:26
Jákvæðar fréttir
Eins og gefur að skilja eru þetta góðar fréttir. Sú efnahagslægð sem heimurinn stendur frammi fyrir mun ekki vara að eilífu og á ný mun raforkusala verða okkur hagstæð. Við núverandi aðstæður er raforkuverð það lágt að arðsemin er undir væntingum. Þar á móti kemur að arðsemisvæntingar eru minni, sama hvert litið er. En hér er ekki verið að tjalda til einnar nætur. Ef litið er til líftíma þessarar fjárfestingar mun hún skila góðum arði, eins og reyndin er og hefur verið um önnur orkusöluverkerkefni á Íslandi.
Fulltrúi VG, Svandís Svavarsdóttir, gerir þá sjálfsögðu kröfu um arðsemi að það komi OR til góða og þar með eigendum hennar, Reykvíkingum. Hún veit að sömu kröfu gera aðrir pólitískir fulltrúar. Það hefur og verið raunin til þessa enda hefur orkuverð farið lækkandi að raungildi um langan tíma hjá landsmönnum öllum. Að gefa upp orkuverð kann að þjóna almannahagsmunum en það má ekki verða til þess að skaða samningsmöguleika orkufyrirtækja. Hins vegar má gjarnan ræða þessi mál, þ.e. þörfina fyrir leyndinni og þau pólitísku sjónarmið sem liggja að baki hennar sjónarmiði um fulla upplýsingagjöf.
Sala á orku hefjist 2011 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2008 | 17:28
Blóði drifinn vígvöllur
Von um frið fyrir botni Miðjarðarhafs kviknaði fyrst eftir friðarsamninga á milli Egypta og Ísraels fyrir um 30 árum síðan. Eftir 2 blóðugar styrjarldir Ísraela og nágranna þeirra, undir forystu Egypta, 1967 og aftur 1973 virtist sem ferli hæfist sem gæfi Ísraelum von um e.k. frið við nágranna sína og um síðir að Palestínuarabar gætu öðlast í fyrsta sinn í sögunni sitt eigið ríki. Um svipað leyti færðist samúð umheimsins í átt frá Ísraelum yfir til Palestínuaraba. Ísraelar höfðu sýnt að þeir stóðu nágrönnum sínum framar á öllum sviðum hernaðar og ljóst var að yfirlýst áform margra Arabaríkja um gjöreyðingu Ísraels myndu ekki verða að veruleika.
Palestínuarabar hafa háð vopnaða baráttu til þess að vinna málstað sínum stuðning. Sá málstaður hefur í senn verið réttlátur og ranglátur. Annars vegar er ósk þeirra fyrir stofnun sjálfstæðs ríkis og hins vegar hefur verið um að ræða vopnaða hryðjuverkastarfsemi undir gunnfána Islamista, sem unna sér ekki hvíldar, fyrr en eyðing Ísraelsríkis verður að staðreynd. Í krafti síns vopnavalds hafa Ísraelar svarað sérhverri ógn af hörku, sem er alla jafna ekki í samræmi við þá ógn sem þeir sjálfir verða fyrir. Það hefur m.a. orðið þess valdandi að stuðningsmönnum þeirra hefur farið enn fækkandi.
Réttur Ísraelsríkis til þess að verja sig er ótvíræður. Ísraelar hafa nú í 60 ár búið við ógnarástand, sem fól lengi í sér ótta um að ríki þeirra yrði afmáð af yfirborði jarðar. Seinni árin hefur öryggi almennra borgara verið ógnað af hryðjuverkaárásum af ýmsu tagi; eldflaugaárásum, sjálfsmorðsárásum o.fl. - en ekki hermanna. Bandaríkjamenn hafa alla jafna verið sá aðili sem stríðandi aðilar hafa þurft að leita til í viðleitni sinni til friðar og í lok forsetatíðar Clintons virtist sem stórt skref væri stigið í átt til friðar og stofnunar ríkis Palestínuaraba. Á síðustu stundu varð ekkert úr því og vilja sumir kenna fyrrum forystumanni Palestínumanna um það, þ.á.m. Clinton forseti.
Ísraelar hafa lýst yfir vilja sínum til þess að Palestínuarabar stofni eigið ríki. Það sem stendur m.a. í vegi fyrir því eru herská öfl Palestínumanna, studd af löndum á borð við Íran og Sýrland og áður Írak. Þessi samtök telja m.a. Hamas Al-Aqsa og fleiri. Það sem þau eiga sammerkt er yfirlýstur vilji þeirra til þess að eyða Ísraelsríki og reka Gyðinga í sjó fram. Knúnir áfram af trúarofstæki og reiði yfir framgangi Ísraela (Gyðinga) eru þeir ávallt reiðubúnir til þess að fórna ungu fólki á altari ofstækisins, hvort heldur er í formi sjálfsmorðsárása eða annars, sem veldur skaða og blóðbaði og kallar á hin hörðu viðbrögð Ísraelsmanna. Meira að segja þegar Ísraelsmenn sitja á höndum sér líta þeir á það sem veikleika og herða á aðgerðum sínum.
Ísraelsríki hefur verið í herkví í tæpan mannsaldur. Arabaríki og trúarleiðtogar Múslima hafa margir séð hag sinn í því að Palestínuarabar væru leiksoppar í stríðinu um landið fyrir botni Miðjarðarhafs. Mörgum Aröbum stendur því sem næst á sama um Palestínuaraba, en um það vitnar m.a. meðferð á þeim í mörgum Arabalöndum. Þó ekki öllum. Það er sárt til þess að vita að sverðið virðist eini gjaldmiðillinn í þeim átökum, sem birtast okkur nú í stórfelldum árásum Ísraelsmanna á Gasaströndina. Markmið þeirra er margþætt. Í fyrsta lagi að ráðast á herskáa meðlimi Hamas og í annan stað að minna á hernaðarmátt sinn - að eldflaugaárásum verður svarað með margföldum þunga hinnar ógnarsterku stríðsvélar Ísraelsmanna. Þetta vita forystumenn Hamas og á það treysta þeir.
Sem fyrr líða almennir borgarar á Gasaströndinni mest fyrir þessi átök. Það er blóð þeirra sem fóðrar hatrið og áframhaldandi stríðsátök. Núverandi Bandaríkjaforseti var sá fyrsti til þess að opinberlega lýsa yfir rétti Palestínuaraba til þess að stofna eigið ríki. Hann reyndi að leggja drög að áframhaldandi viðræðum á milli stríðandi aðila. En Hamas hefur ekki viljað taka þátt og hafa reyndar klofið Palestínumenn, sem hentar ofstækinu þeim megin vel. Hver veit nema nýr forseti vestra muni reynast farsælli í viðleitni sinni till þess að nálgast frið fyrir botni Miðjarðarhafs. Þangað til mun blóð og hörmungar saklausra borgara varða leiðina.
195 látnir, yfir 300 særðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2008 | 16:53
Gleðilega jólahátíð
Kæru bloggarar,
og annað gott fólk. Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla á hátíð ljóss og friðar, með von um góðar stundir í faðmi fjölskyldu og vina.
19.12.2008 | 18:13
Hver er hin hliðin?
Víst er að Færeyjingar sýna stórhug og velvild í garð Íslendinga. Þeir eru reyndar ekki búnir að ná vopnum sínum frá því að þeir lentu í efnahagsógöngum hér um árið. Stór hluti Færeyjinga, sem fóru á brott, hefur aldrei snúið aftur. En það er sú hlið sem snýr að okkur Íslendingum, sem er alvarlegri. Það þarf að borga þessa skuld. Þó svo að þessi vinargreiði sé stór á mælikvarða Færeyjinga er hann sem dropi í haf þeirra skulda sem nú blasa okkur við.
Á annað þúsund milljarða er sá reikningur sem íslenskir skattgreiðendur þurfa að taka á sig á komandi árum. Það felur í sér auknar álögur og skerta opinbera þjónustu, hvernig sem á málin er litið. Ef ekki tekst að auka hér þjóðartekjur á næstu árum er víst að hagur almennings mun skerðast sem nemur einhverju því sem þjóðin getur ekki staðið undir. Í ljósi aðsteðjandi heimskreppu mun reynast afar erfitt að sækja fram, en ekki ómögulegt. Hvernig sem fer, er víst að lífskjör munu versna að því marki, að þúsundir Íslendinga munu hugleiða að flytja úr landi.
Lán til Íslendinga samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2008 | 17:45
Verkefni næstu ára snúast um að nýta auðlindir manns og náttúru.
Orsakir hrunsins liggja að nokkru fyrir. Ljóst er að ráðamenn og embættismenn sinntu ekki þeim varnaðarorðum sem uppi voru höfð, hvort sem litið er til höfunda þessarar skýrslu eða úr öðrum áttum. Hið sama á við um allan heim. Sama hvert litið er voru ráðamenn og ekki síst fjölmiðlar tregir til þess að hætta dansinum í kringum gullkálfinn. Ef sérfræðingar voru fengnir til þess að segja aðra sögu en þá sem flestir vildu hlusta á, var annað hvort hlegið að þeim eða þeir afgreiddir sem úrtölumenn og sérvitringar. Við þekkjum þetta einnig hér heima. Segja má að greiningardeildir bankanna hafi verið sá viskubrunnur sem fjölmiðlarnir sóttu hvað mest í og þjóðin var leidd áfram á asnaeyrunum í trú sinni á ævintýrið.
Stjórnvöldum var að nokkru vorkunn. Þau treystu á embættismenn og regluverk sem brást. Mannlegt eðli sá um það sem upp á vantaði til þess að ekkert skyggði á þá glansmynd, sem teiknuð var af ástandinu. Íslenska þjóðin tók vissulega þátt í gleðinni en henni verður ekki kennt um stærð hrunsins. Þar liggur sökin hjá afvegaleiddum auðmönnum og því regluverki (eða skorti þar á) sem gerði þeim kleift að steypa þjóðina í stærri skuld en þekkist á byggðu bóli. Það er sá reikningur sem hvílir á skattborgunum þessa lands um ókomin ár. Sú skuld verður ekki umflúin, hvað sem allri umræðu um ESB aðild líður, eða leit að sökudólgum á vettvangi stjórnsýslunnar eða viðskiptanna.
Verkefni næstu ára mun snúast um að greiða niður skuldir þjóðarbúsins. Í ofanálag kallar þjóðin eftir uppstokkun á fjölmörgum sviðum og suma dreymir jafnvel um betra Ísland. Sá draumur er í sjálfu sér ágætur og þarfur en hvað sem líður því markmiði er ljóst að álögur á allan almenning munu stóraukast á næstu árum, samfara samdrætti í velferðarþjónustunni. Hinir tekjuhærri munu bera stærstu skattbyrðarnar en sérhver byrði, þó lítil sé, mun einnig snerta hina tekjuminni. Þeir hafa jú úr minnu að moða. Fyrst og fremst mun reyna á að auka hér þjóðartekjur, sem eins og öllum má ljóst vera gerist ekki nema í gegnum auknar útflutningstekjur. Án þess mun þjóðin horfa framan í erfiðari tíma en hún getur ef til vill þolað. Öðrum kosti mun stór hluti þjóðarinnar sjá sæng sína útbreidda og flytja af landi brott.
Hvað umheiminn varðar er allt útlit fyrir að heimskreppa sé skollin á. Lengd hennar og dýpt er óráðin enn og hagur Íslands mun taka mið af þessu umhverfi. Íslendingar selja dýrar vörur og bjóða upp á dýra þjónustu. Þess sjást nú þegar merki að okkar dýru fiskafurðir seljist ekki jafn vel og áður. Samdráttur á alþjóðavísu mun og minnka orkueftirspurn, sem fækkar kostum okkar til orkusölu til m.a. iðnaðar. Það mun því reyna enn meir á okkur að finna not fyrir náttúruauðlindir okkar svo þær haldi áfram að færa björg í bú. Hugvitið er sú uppspretta sem við munum þurfa að sækja meira í í náinni framtíð. Leita verður allra leiða til þess að hagnýta þá auðlind til þess að áfram megi verða fýsilegt að búa í þessu landi, ásamt því að efla viðskipti við allan umheiminn, ekki einungis hina öldnu Evrópu.
Seðlabankinn varaður við í júní | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2008 | 16:49
Stálfrúin?
Ég hef haldið því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé vankaður í ljósi efnahagshrunsins. Það er skiljanlegt en að sama skapi hef ég gert þá kröfu til forystumanna hans að þeir sýndu dug og þor í ljósi andstreymisins. Ég sakna þess að undir forystu Geirs spýti menn í lófana og setji fram e.k. áætlun sem ætlað er að taka á því efnahagslega og pólitíska gjörningaveðri sem nú ríður yfir þjóðina. Samfylkingin hefur jú einungis eitt til málanna að leggja; að ganga skrifræðinu í Brussel á hönd og einn af öðrum virðast þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætla að gefa eftir gagnvart kratadrauminum um að sitja til borðs með kommisserum stórríkisins í Evrópu.
Sá aðsteðjandi vandi sem mest er aðkallandi hefur lítið með mögulega inngöngu í ESB að gera. Allt tal um slíkt er lýðskrum í besta falli, lýgi ef gert er ráð fyrir að sumum sé ekkert heilagt í þeirri viðleitni sinni að koma Íslandi inn í stórríkið með öllum ráðum. Jafnvel því að spila með efnahag þjóðarinnar svo draumur kratanna rætist. ISG er engin stálfrú en hún hefur framtíð þessarar ríkisstjórnar í hendi sér og forysta Sjálfstæðisflokksins virðist ætla að lúffa fyrir henni. Það er einlæg ósk mín að Sjálfstæðismenn um land allt hafi það bein í nefinu að hafa vit fyrir forystu flokksins og opni augu hennar fyrir því að takast á við aðkallandi verkefni við stjórn efnahagsmála og verði á ný það stjórnmálaafl sem þjóðin geti horft til og treyst. Það er ærið verkefni og allsendis óvíst að það takist, eigi að gæla við ESB aðild.
Formaðurinn með stálhnefann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2008 | 19:02
Ráðandi öfl í Samfylkingunni vart ánægð með þessa framvindu
Mér þykir sérstaklega um vert að hrósa fulltrúa Samfylkingarinnar að standa að baki þessu frumvarpi. Eftir að Íslendingum var gert ljóst að af hálfu allra aðildarþjóða ESB yrði það ekki liðið að íslenska ríkið kæmi sér jafnvel lagalega undan því að greiða fyrir afglöp Landsbankans, hefur sá hluti málsins ekki farið hátt - alla vega ekki í sumum fjölmiðlum. Það hefur ekki hentað hinni svo kölluðu Evrópuumræðu, sem yfirskyggir flest annað þessa dagana. Sá aðkallandi vandi sem snýr að skuldasöfnun ríkisins að upphæð á annað þúsund milljarða er allt að því lítið mál samanborið við þá nauðsyn að gerast meðlimir fjölríkisins í Evrópu.
Mál verði höfðað gegn Bretum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.12.2008 | 17:22
Þó satt reynist, munu 365 miðlar áfram reka áróður fyrir ESB
Bjarni mun eflaust koma við viðkvæma taug hjá mörgum með þessari kenningu sinni - ég tel hana sennilegri en sumar aðrar, sbr. tengsl Samfylkingarinnar við Baugsveldið um árabil. Annað mál, sem snertir fjölmiðlana og Samfylkinguna, er hve 365 miðlarnir hafa orðið uppvísir að áróðursherferð fyrir inngöngu Íslands í ESB að undanförnu. Það er sem vel undirbúin stefnubreyting hafi átt sér stað. Ég held að þessi áróður dyljist engum sanngjörnum manni.
Í hverjum viðtalsþættinum á fætur öðrum berst talið að inngöngu í ESB og lítið rætt um aðsteðjandi vanda, þ.e. skuldaaukningu þjóðarbúsins upp á annað þúsund milljarða og afleiddar álögur á íslenska skattgreiðendur. Kúgun bresku ríkisstjórnarinnar og sameinaðra Evrópusambandsríkja gagnvart Íslandi í IceSave málinu er gleymd og grafin. Fréttablaðið og Stöð 2 hafa tekið höndum saman með ýmsum viðskiptahagsmunum í landinu og fela ekki einu sinni þennan áhuga sinn á að koma íslensku þjóðinni undir pilsfald skrifræðisins í Brussel.
Stjórna í gegnum fjölmiðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.12.2008 | 18:09
Ja ... þetta var svona ofurástand ... allt þar til ég tók við!
Um það bil upp úr vordögum 2007 umbreyttist ofurfrjálshyggjan í viráðanlegri skepnu (heimiliskött?) ... í ljósi þess að Samfylkingin komst til valda. Á meða ISG var að bjarga málum fyrir botni Miðjarðarhafs og átta sig á flokkadráttum í Afganistan, þess á milli sem hún vann að framboði í öryggisráðið, lagði ofurfrjálshyggjan upp laupana. Hvernig mátti annað vera, nú þegar einn besti vinur Samfylkingarinnar, Baugsveldið, gat horft til þess að góður vinur var sestur við stjórnvölinn. Eins og við var að búast héldu menn að sér höndum eftir það.
Ekki löngu eftir innvígslu ráðherra Samfylkingarinnar var sem ró færðist yfir ofurauðmenn landsins, þeir áttuðu sig á því að þeir höfðu verið í ofurgír græðginnar. Að vísu áttu þeir eitt mikilvægt verkefni eftir. Að koma bönkunum og stórum hluta sparifés landsmanna fyrir kattarnef. Þeir voru réttu gæjarnir á réttu stöðunum og þekktu rétta liðið í pólitíkinni. Í leiðinni ákváðu hinir katthlýðnu auðmenn utanríkisráðherra að mjólka gjaldeyri landsmanna. Þegar ekki var lengur hægt að blóðmjólka aðra peninga þjóðarinnar og allir ódýru peningar uppurnir úti í hinum stóra heimi voru góð ráð dýr. Dabbi kóngur ekki til í tuskið lengur og ofurspilaborgin hrundi.
Reikningurinn er sem betur fer ekki hærri en á annað þúsund milljarðar, gott fólk. Hugsið ykkur hvað hefði nú gerst ef vinir utanríkisráðherra hefðu ekki hætt að vera ofurauðmenn og haga sér eins og ofurfrjálshyggjumenn. Formaður Samfylkingarinnar hefur og haft ofurtrú á sumum ofurauðmönnum og treyst þeim betur en nokkrum öðrum til þess að reka hér ofurfjölmiðla á ofurlánum. Hún kann sko að sveifla baugfingrinum, konan sú. Þegar ISG bendir á sökudólgana þá veit hún hvað hún syngur.
Og við þökkum fyrir að Samfylkingin komst til valda og varð til þess að reikningurinn frá ofurauðmönnunum var ekki stærri en rúmir þúsund milljarðar. Ætli hann hefði ekki numið einhverri ofurupphæðinni, ef við hefðum ekki notið hennar aðkomu að stjórnartaumunum?
Takk fyrir. Takk fyrir.
Ingibjörg: Orsökin liggur í ofsafrjálshyggjunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2008 | 14:32
Óráðshjal Samfylkingarinnar heldur áfram
Enn á ný er forysta Samfylkingarinnar ráðavillt í málflutningi sínum. Svo virðist sem hún viti ekki hvað hún vill og í stað þess að flytja mál sitt af festu og einurð í ríkisstjórn þá kýs hún að flytja sitt óráðshjal í fjölmiðlum. Á meðan forysta Sjálfstæðisflokksins er sem lömuð eru einu ráð Samfylkingarinnar að falbjóða sig ESB. Skítt með aðsteðjandi vanda þjóðarinnar. ESB reddar málunum fyrir okkur.
Þó svo að þjóðin kalli eftir breytingum vill hún sjá að tekið sé á aðsteðjandi vanda sem snýr að heimilunum, fyrirtækjum og skuldsetningu ríkisins. Sá pólitíski vandi, sem snýr að þrælsetningu embættismanna í Seðlabanka og fjármálaeftirliti og mistökum einstaka ráðherra hefur gert Samfylkinguna óstarfhæfa í ríkisstjórnarsamstarfinu. Hún eyðir mun meiri tíma í að grafa undan samstarfinu og er sem ráðalaus í hverju málinu á fætur öðru.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sýnt veikleikamerki en svo virðist sem gerjun sé loks að fara af stað innan flokksins, Vont er ef hún verður til þess að falla á hné og kalla eftir ESB aðild. Vandinn er mikill, og til þess að takast á við hann verður að leggja spilin á borðið. Tala tæpitungulaust. Verja þarf heimilin í landinu og þá tekjulægri við skattaálögum. Aðrir þurfa að taka á sig stærri byrðar. Atvinnusköpun og uppbygging þarf að hefjast sem fyrst á grundvelli nýrrar peningastefnu - og jafnvel nýs gjaldmiðils. Verkefnin eru næg og ekki ráðlegt að treysta á lausnir frá Brussel. Þær hafa til þessa kostað þjóðina nóg.
Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |