4.2.2009 | 11:40
Baugsveldið riðar til falls ...
Þessi frétt raðar sér efst á forsíðu hins virta blaðs Financial Times í London. Þar seg m.a. að í gær, þriðjudag, hafi Landsbankinn hafnað endurlánapakka til handa Baugi, og í kjölfarið hafi greiðslustöðvunarkrafan verið sett fram - til þess m.a. að forða hruni og verðfalli eigna. Í raun er stjórn Baugs nú komin í hendur lánadrottna, þ.á.m. Landsbankanum. Hið opinbera er sem sagt orðin stór eignaraðili í verslunarkeðjum á borð við Hamleys, Mosaic, Iceland og House of Fraser og tískunafna eins og Jane Norman og All Saints.
Gengi þessara fyrirtækja er misjafnt. Iceland matvörukeðjan gengur mjög vel en Mosaic er stærsta vandamálið. Gert er ráð fyrir að því verði skipt upp, að sögn fjármálasérfræðings. Baugur á því sem næst helmings hlut í Mosaic en innan þess félags eru fyrirtæki á borð við Karen Millen, Oasis og nokkur fleiri. Fjármálaspekúlantar frá London hafa verið tíðir gestir við borð hins opinbera og forsvarsmanna bankanna í tilraunum til þess að koma skikki á skuldastöðu Baugs.
Greiðslustöðvun Baugs felur í sér fall viðskiptaveldis sem rekur upphaf sitt til þess að Jóhannes í Bónus opnaði matvöruverslun fyrir um 15 árum síðan. Á undraskömmum tíma fjölgaði Bónus verslunum svo um munaði, enda tóku Reykvíkingar og síðar landsmenn allir, því fegins hendi að geta keypt einföldustu matvörur á mun lægra verði en hafði þekkst fram til þess. Eftir því sem fyrirtækinu óx fiskur um hrygg hóf fyrirtækið eigin innflutning og braut jafnvel á bak aftur ýmsar heildsölur með óvægnum aðferðum.
Hvað sem framgangi Bónus, síðar Baugs, líður þá er ljóst að eftir um 10 ára samfellda sigurgöngu voru fyrirtæki í eigu Baugsveldisins orðin svo fyrirferðarmikil í íslensku viðskiptalífi að fjárútlát heimila, að sköttum og áfengiskaupum slepptum, gátu alfarið farið í gegnum hendur fyrirtækja í eigu Baugs. Þeir áttu verslanir með matvöru, allan fatnað, raftæki, húsgögn, bíla, búsáhöld, byggingavörur og jafnvel tryggingafyrirtæki - að ógleymdum sterkum fjölmiðlum og flugfélagi. Baugur var langstærsta fyrirtæki landsins.
Það var því e.t.v. ekki úr vegi að hinn ungi ofurhugi, sonur Jóhannesar, horfði út fyrir landsteinana. Velgengnin á heimamarkaði fyllti þá áræði og útrásin hófst með stuðningi banka hér heima (að hluta í eigu þeirra sjálfra) - sem á grundvelli gamals trausts gátu náð sér í ódýrt fjármagn erlendis. Þar með hófst sú uppbygging sem leiddi af sér skuldastöðu eins manns upp á þúsund milljarða króna. Upphæð sem nemur meira en 3 milljónum króna á hvert mannsbarn á Íslandi - um 13 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu!
Auk þess að nú er Baugsveldið rústir einar þá er vert að minnast þess að fyrir ekki löngu síðan tókst forráðamönnum þess að kaupa sér hæstaréttardóm á Íslandi. Það kostaði þá að vísu um 3 milljarða króna auk annars tilkostnaðar í gegnum fjölmiðlaveldið en það tryggði umfram allt annað að þeirra viðskiptahættir voru stimplaðir lögmætir af æðsta dómsvaldi Íslands. Dómurinn varð í raun til þess að íslenskir viðskiptamógúlar - sumir hverjir - þurftu ekki að hafa miklar áhyggjur af dómstólum né þeim stofnunum sem var gert að fylgjast með þeirra verkum.
Baugur í greiðslustöðvun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2009 | 15:51
Ekki jafn dýr lausn og telja mætti í fyrstu
Pólitískar hreinsanir og heift | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2009 | 20:48
Velferðinni stefnt í voða!
Óréttlætið liggur í yfir 150 þúsund milljóna halla ríkissjóðs. Hinn ískaldi veruleiki snýr að gríðarlegum skuldum þjóðarbúsins. Hafa menn ekki gert sér grein fyrir þvílíkar raunir Íslendingar munu þurfa að ganga í gegnum á næstunni? Halda menn að þessir aurar verði teknir upp af steinunum - eða á í hverju málinu á fætur öðru að bera við að það sé hægt að skera niður einhvers staðar annars staðar?
Það má helst vænta þess að skuldirnar séu meiri en álitið var. Um þessar mundir eru góð ráð dýr og hvern dropa verður að nýta til þess að fylla greiðslubikarinn. Við erum varla byrjuð að skoða ofan í hyldýpi skuldanna, nú þegar til stendur að fleyta yfir á ríkið jafnvel hundruðum milljarða af skuldum fasteignaeigenda - ofan á þær meira en tvö þúsund þúsund milljónir (tólf núll) sem hafa verið eyrnamerktar ríkinu nú þegar.
Því miður munum við ekki hafa ráð á því að hneykslast yfir niðurskurði á næstunni - slíkan munað verður að ætla lýðskrumurum. Þeir sem fagna þessari aðgerð lifa í draumaheimi en slíkt er afar hættulegt á jafn viðsjárverðum tímum og við lifum nú. Með því að ýta undir lýðskrum af þessu tagi er verið að skemmta skrattanum, fresta skellinum í stuttan tíma og auka á vandann. Ef ekki verður tekist á við skuldirnar mun íslenska þjóðarbúið sökkva í skuldafenið, velferðarkerfið mun riða til falls og þjóðin verða sett í gjörgæslu þjóðanna.
Það er sú vá sem bíður íslenskrar þjóðar ef hún ræður ekki fram úr efnahagsvandanum.
Innlagnargjöld afnumin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2009 | 18:54
Frakkar eru bestir - hvað tekur við?
Frakkar hafa innan sinna raða nokkra afar hæfa íþróttamenn, sem með styrk sínum og leikni mynda saman sterkasta landslið heims um þessar mundir - maður þakkar fyrir að þeir hafi ekki sterka vinstri handar skyttu. Það er í raun ótrúlegt að sjá hve sumir leikmanna þeirra eru liprir og fljótir, sé haft í huga að þeir eru margir hverjir hátt í tvo metra á hæð. Ekki ósvipað og á við um marga bestu körfuboltamenn heims, eins og þeir birtast okkur í NBA deildinni, vestur í Ameríku.
Þrátt fyrir að Króatar séu með afar gott lið dugði þeirra áttundi liðsmaður, öflugur heimavöllur, þeim ekki í dag. Áhorfendur voru vel með á nótunum en afar góð vörn og markvarsla skóp sanngjarnan sigur Frakka. Reyndar spila Króatar einnig sterkan varnarleik en sókn þeirra sá ekki við Frökkum að þessu sinni. Reyndar hafa miklar framfarir átt sér stað í varnarleiknum undanfarin misseri. Fyrir fáum árum síðan tóku menn upp á því að keyra mjög upp hraðann í leikjum og afleiðingin var sú að iðulega voru skoruð mun fleiri mörk en áður hafði þekkst, jafnvel um áttatíu mörk í hverjum leik.
Enn er keyrt af fullum hraða hjá flestum liðum en samhliða hefur þjálfun leikmanna og samhæfing í varnarleik farið fram. Því er markaskor í leikjum nú nær því sem var áður en hinn hraði sóknarbolti komst í tísku. Framförum í sóknarleik hefur verið mætt með framförum í varnarleik. Niðurstaðan er fjörugur og kraftmikill handbolti sem aldrei hefur verið betri, enda hefur breiddin aldrei verið meiri. Hvernig Íslendingar mæta þessu á komandi árum verður forvitnilegt að sjá, en víst er að hjá handknattleiksforystunni stendur hugurinn til þess (og vonandi kunnáttan einnig) að hlúa að því starfi sem framkallar árangur.
Frakkar heimsmeistarar í handknattleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2009 | 22:56
Danir sluppu fyrir horn ...
Ég er ekkert sérlega velviljaður Dönum, ekkert óvelviljaður þeim heldur (ligeglad?). Kalla þá t.d. ekki frændþjóð, þó svo að afi minn hafi verið danskur og mér því í lófa lagið að frændkenna þá. Á meðan flestir Íslendingar rembast við að troða frænsemis stimpli upp á sína fyrrum herraþjóð, eins og kunningi sem ofgerir vinskap, eru Danir ekkert sérlega hrifnir af þess konar trakteringum. Ef þeir á annað borð gerðu sér grein fyrir þessum flaðurslátum myndi álit þeirra á Íslendingum bíða hnekki. Þeir geta því enn um sinn átt sitt yfirlæti gagnvart okkur - sem truflar mig alls ekki.
Hvernig Hera Björk hefur komist í Evróvisjón keppnina í Danmörku þekki ég ekki en ég er furðu sleginn yfir því að hún skuli hafa komist alla leið í 4 laga úrslit með þetta útþvælda og ekki nógu vel flutta lag. Eftir að hafa búið í Danmörku um skeið hef ég kynnst þeirra tónlistarhefð nokkuð og reyndar þurfa Íslendingar ekki að hafa flutt þangað, því í gegnum tíðina hefur dönsk tónlist verið vel kynnt hér á landi. Það er því með ólíkindum að þetta lag skuli hafa komist svo nálægt því að representera Danmörku austur í Moskvu þetta vorið. Ég segi ekki meir ...
Hera Björk í 2. sæti í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.2.2009 kl. 09:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2009 | 19:47
Hörku úrslitaleikur framundan
Það er í raun eftirtektarvert að Frakkar hafi komist jafn langt með þetta lið og raun ber vitni, í ljósi þess að innan liðsins er engin vinstri handar skytta. Nú, þegar þeirra sterki hægri hornarmaður, Abalo, verður í leikbanni í úrslitaleiknum verður hægri vængurinn enn veikari. Ólympíumeistararnir hafa svo sterka leikmenn í öðrum stöðum að þeir geta leyft sér að láta hægri handar mann leika hægra megin í sókninni. Alla jafna er það Fernandez en Karabatic og fleiri geta einnig leyst þessa stöðu af hendi.
Það verður kannski ekki sagt að Frakkar hafi, með þessu, sterkasta sóknarlið í heimi. En þeir hafa sýnt að þeir eru sterkasta varnarliðið og ásamt með litríkum sóknarleik hafa þeir verið með jafnbesta landslið heims undanfarin misseri. Að þeir skyldu ekki komast í úrslitaleikinn í Evrópumótinu fyrir ári síðan kom mörgum á óvart en slæmu skipulagi Norðmanna má e.t.v. kenna um.
Reyndar var það mót til marks um allt of þétta dagskrá, sem skipuleggjendur Evrópumóta framtíðar verða að taka á. Króatar sigruðu þá Frakka í undanúrslitum og komust örþreyttir í úrslitaleikinn gegn Dönum, sem innbyrtu auðveldum sigri. Dana bíður að leika um þriðja sætið á heimsmeistaramótinu nú, líkt og síðast, þegar þeir unnu reyndar áhugalausa Frakka um bronsverðlaunin.
Að því gefnu að Króatar sigri Pólverja síðar í dag bíður okkar hörkuspennandi úrslitaleikur á milli heimamanna og Frakka. Króatar eru með geysilega sterkt lið og virðast hafa nokkur tök á Frökkunum. Ef Frökkum tekst að stilla saman strengi í sókninni (án Abalo!) eru þeim allir vegir færir. En Króatar verða studdir af þúsundum eldheitra stuðningsmanna á heimavelli og svo er að sjá hvort dómararnir haldi haus. Alltjent er von á hörku leik tveggja frábærra liða, sem standa upp úr í handboltanum þessa dagana.
Frakkar leika til úrslita á HM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2009 | 18:03
Sinnið bráðaaðgerðum, bíðið með draumórana!
Nær Evrópu með Vinstri grænum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 16:53
Sannleikanum verður hver sárreiðastur
Jóna bendir réttilega á misbresti við stjórn mála hjá Blönduósi. Henni er málið nærtækt og vissulega vill hún fá skýringar á því hvers vegna eftirmaður hennar fær hærri laun en hún hafði sjálf. Hver eru annars þau kjör sem um ræðir? Hins vegar kannast ég persónulega við misbresti hjá henni sjálfri við ráðningu stjórnenda bæjarmála. Þar hafa í besta falli verið gerð mistök, í versta falli hafa annarleg sjónarmið verið viðhöfð við ráðningarferli. Svona er þetta nú hjá sumu fólki.
Bæjarstjóralaun fella meirihlutann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.1.2009 | 10:06
Hækkun lífsnauðsynja heldur uppi hækkun fasteignalána
Það er að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um áhrif vísitölu neysluverðs á húsnæðislán heimilanna. Þau þekkja flestir Íslendingar á eigin skinni. Sumir hafa farið fram á að aftengja með öllu þessi áhrif, sem í mínum huga er enn meira glapræði en það hvernig verðbólgan hækkar lánin. Það yrði óðs manns æði að búa svo um hnútana að lánveitendur sæju ekki hag í því að lána til húsnæðiskaupa. Slíkt fyrirkomulag var m.a. við lýði á Íslandi fyrir tíma vísitölutenginga og stuðlaði að þjófnaði á sparnaði landsmanna og beinlínis hefti fjárfestingu.
Yfirvöld horfa nú fram á að fjölmörg heimili sjái ekki hag í því að greiða af fasteignalánum sínum. Þetta á aðallega við um heimili sem hafa s.k. myntkörfulán. Hins vegar er nokkur fjöldi heimila sem hefur séð lán sín í íslenskum krónum hækka umfram lækkað verðgildi fasteigna sinna. Flestir geta enn greitt af þessum lánum en vegna þess hve margir hafa spennt bogann hátt stefnir í óefni hjá sömu aðilum. Með auknu atvinnuleysi og minnkandi tekjum heimila mun sá hópur stækka sem einfaldlega getur ekki greitt af fasteignalánum sínum.
Til þess að koma til móts við þennan alvarlega vanda þurfa yfirvöld að taka tillit til ólíkra og andstæðra sjónarmiða. Ljóst er að tímabundin aftenging vísitölu og fasteignalána hlýtur að vera valkostur. Tjón, sem lánveitendur yrðu fyrir, vegna þessa, yrði mögulega minna en ef handhafar fasteignalána þyrftu að leysa til sín fjölda fasteigna - hvers verðmæti stefndi niður á við. Efnahagsreikningur lánastofnana gæti allt eins skaðast meira með því móti - þar með ríkið (skattgreiðendur) og lífeyrissjóðirnir.
Að auki má huga að breytingu kerfisins til langframa. Sumir hafa t.d. bent á vísitölu fasteignaverðs, sem ætti að stýra vísitölu fasteignalána. Ég skal ekki dæma um ágæti slíks en víst er að eitthvað þarf að gera til þess að afstýra afleiðingum núverandi ástands. Hvað fráfarandi ríkisstjórn hafði í burðarliðnum um þessi atriði mun ekki koma í ljós en verðandi ríkisstjórn getur ekki beðið lengi eftir að takast á við þennan bráðavanda fjölmargra heimila í landinu.
Verðbólgan 18,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
27.1.2009 | 23:05
Pólverjar keppa um verðlaun - í stað tveggja leiðinlegra liða
Ástæða þess að ég vildi tjá mig um þennan leik er, að mikið hafa mér þótt Norðmenn vera með leiðinlegt lið að undanförnu. Þeir hafa að vísu staðið sig betur en oft áður og innanborðs hafa þeir nokkra framúrskarandi leikmenn á meðal fremstu liða heims. En innan um eru grófir og óskemmtilegir leikmenn, sem gefa norska liðinu þennan leiðinlega svip sem ég er að tala um. Ætli Johnny Jensen standi þar ekki uppúr.
Á Evrópumótinu í fyrra voru þeir með algrófasta liðið, að mínum dómi, og komust sem betur fer ekki í undanúrslitin. Á núverandi heimsmeistaramóti, í leiknum á móti Þjóðverjum, sem hafa verið ósannfærandi í sínum leikjum, unnu Norðmenn afar óverðskuldað og með hálfgerðu svindli. Bæði lið sýndu slakan leik, Þjóðverjar reyndar í vandræðum vegna meiðsla, og sem betur fer eru þau bæði úr leik um verðlaun.
Það hefur lítið farið fyrir sýningum á leikjum frá mótinu og er það miður. Er svona lítill áhugi fyrir því hjá okkur? Sem fyrr eru Frakkar með geysilega skemmtilegt lið og hrein unun að fylgjast með sumum leikmanna þeirra - sérílagi hinum unga leikmanni Kiel, Karabatic, sem á sínu 25. aldursári hefur sýnt það og sannað að hann er besti leikmaðurinn um þessar mundir. Hinir geysisterku Króatar njóta heimavallar en það er vonandi að heimamenn mæti Frökkum í alvöru úrslitaleik í stað þess, sem fram fór í dag og skipti ekki miklu máli.
Pólverjar nýttu sér mistök Norðmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)