Þetta mun einungis versna ...

Eins og gefur að skilja munu þessar auknu álögur hækka lánin. Um það þarf ekki að þrefa. Ég tel reyndar að hækkunin sé lítillega meiri en Gylfi rekur. Landsmenn verða að átta sig á að byrðar heimilanna munu aukast með einum eða öðrum hætti. Öðrum kosti verður ekki hægt að greiða fyrir "bjargráðin" dýru. Stór hluti skattpeninga okkar mun fara í að greiða upp krónubréfin, IceSave reikningana, lánapakka IMF og uppbyggingu bankakerfisins. Upphæðin nemur meira en þúsund milljörðum króna og greiðist væntanlega ekki upp fyrr en að einhverjum áratugum liðnum.

Farsælla er að hækka álögur í gegnum skatta heldur en með hækkunum gjalda hins opinbera. Með því móti er betur hægt að stýra á hvers herðar þetta lendir og tryggja að launalægstu heimilunum sé að mestu hlíft og umfram allt munu lánin ekki hækka að sama skapi. Þessu til viðbótar þarf að laga vísitölugrunninn sem allra skjótast að nýjum og mjög svo breyttum veruleika en hann er þessa dagana að mæla góðærisneyslu en ekki kreppuneyslu.


mbl.is Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjargráð sem skapa enn stærri vandamál?

Í viðskiptum er stundum sagt að lausn eins vandamáls skapi annað. Ef vel tekst til verða vandamálin minni en ekki stærri. Til skamms tíma litið kunna bjargráð ríkisins að bjarga störfum þar vestra. Það er sú lausn sem horft er til og slíkar lausnir eru alla jafna stjórnmálamönnum tamar. Hvaða vandamál munu fylgja í kjölfarið, eru menn ekki á einu máli um. Þeir sem aðhyllast félagshyggju og ríkisforsjá með einum eða öðrum hætti telja sig leysa mun fleiri vandamál en þeir skapa. Þeir horfa, sem vonlegt er, til þess samfélagslega skaða, sem af hruni stórfyrirtækja getur orðið.

Frjálshyggjumenn benda á að með þessu sé vandanum einungis ýtt á undan sér og á endanum skapi þessi "lausn" stærra vandamál. Þeir benda á, að með því að færa fé úr vasa skattborgaranna og betur rekinna fyrirtækja í hendur illa rekinna fyrirtækja, sé komið í veg fyrir endurnýjun og nýsköpun. Á endanum verði ekki komið í veg fyrir sársauka, hann einungis aukinn. Í dæmi bifreiðaframleiðanda þar vestra sé farsælast að láta fyrirtækin fara á hausinn og gefa rúm fyrir nýja eigendur og nýja stjórnendur sem betur geti sinnt því að framleiða bíla sem neytendur vilja kaupa. Samfélagslegur kostnaður verði með því minni og því meira fé aflögu til þess að skapa önnur og betri störf.

Satt best að segja hneigist ég að því sem sérfræðingar á væng frjálshyggjunnar segja. Meira um það síðar.


mbl.is Hafa ekki efni á þroti bílaframleiðendanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þetta væri nú einungis aðhlátursefni ...

Ef íslenska og breska efnahagskerfið eru borin saman má sjá að uppgangur í bresku efnahagslífi hefur síðasta áratuginn verið borinn uppi af fjármálakerfinu - ekki ósvipað og hér. Fyrirtæki í Bretlandi eru stórskuldug, ekki ósvipað og hér og skulda margfalda þjóðarframleiðslu - ekki ósvipað og hér. Breska ríkið skuldsetur sig þessa dagana upp í rjáfur, til þess að koma skikk á eigið fjármálalíf - ekki ósvipað og hér er verið að gera. Grín er gert að Brown og hans stjórn - ekki ósvipað og hér. Það sem skilur á milli er að við þurfum að skuldsetja okkur upp fyrir rjáfur, ef áætlanir um lánapakka IMF ganga eftir og IceSave skuldirnar reynast meiri en ráðalausir ráðamenn segja frá. Væntanlega mun, mun meiri.

Íslensk fyrirtæki skulda margfalda þjóðarframleiðslu. Íslensk heimili skulda einnig mikið og nú á að skuldsetja íslenska ríkið upp á eitt stykki þjóðarframleiðslu - eða jafnvel meira. Hvað áætla menn annars að afborganir af höfuðstóli þessara skulda, vextir og kostnaður nemi á næstu árum? Varlega áætlað geta skattgreiðendur gert ráð fyrir að meira en tíundi hluti minnkandi tekna muni fara í þetta á næstu 30 árum eða svo. Ef þjóðartekjur vaxa ekki verulega innan fárra ára gæti mun stærri hluti launatekna á næstu árum farið í pakkann.

Hugleiðum það.


mbl.is Gordon Brown bjargar heiminum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stormviðvaranir - skuldsetning ríkisins til 30 ára

Eftir því sem fram líður er ljóst að spár um þróun efnahags á næstu misserum verða æ dekkri. Æ fleiri gera sér grein fyrir aðsteðjandi vanda og þeim hættum sem efnahagslíf heimsins stendur frammi fyrir. Eftir daga víns og rósa er komið að skuldadögum, ekki bara á Íslandi, heldur víða um heim. Skuldsetning Bandaríkjanna, ein og sér, mun sjá til þess að efnahagslægðin nær djúpt. Óheyrilegar lántökur þar í landi, aðallega í formi útgáfu ríkisskuldabréfa (jafngildir seðlaprentun), hafa haldið uppi neyslustigi í því landi og á sama tíma hefur atvinnulífið skuldsett sig upp í rjáfur.

Hér á landi hefur ríkissjóður verið rekinn með afgangi um árabil og maður ætti ef til vill að þakka fyrir það. En skuldsetning þjóðarbúsins er gríðarleg og reikningurinn mun að stóru leyti lenda á skattgreiðendum. Með hávaxtastefnu Seðlabankans hafa um árabil streymt til landsins hundruðir milljarða króna til þess að fjármagna falskan kaupmátt og gríðarlegt neyslufyllerí. Stór hluti þess fjármagns er enn fast í kerfinu (jöklabréfin, muniði?) og þarf að greiða með einum eða öðrum hætti.

En rennum aðeins yfir stöðuna á Íslandi og þá skuldsetningu sem við blasir. Skuldabréf í krónum geta numið um 500 milljörðum - það þýðir, með 10 milljarða króna afgangi á mánuði í viðskiptum við útlönd, að það tæki okkur allt að fimm ár að greiða úr þeirri flækju. Gott og vel. Lánapakkinn, sem ætlað er að styðja við gjaldmiðilinn er upp á eitthvað stærri upphæð - við yrðum sem sagt mun lengur að greiða hann upp - segjum 7 ár þar. Síðan er verðmiðinn á uppbyggingu bankanna enn óskrifaður en þegar hafa miklar fjárhæðir verið settar í sjóðina. Rætt er um hundraða milljarða innspýtingu í bankana og Seðlabanka; segjum 4-500 milljarða þar - sem tekur um 4 ár að borga upp með fyrri aðferðafræði.

Við erum semsagt komin upp í um 16 ár sem tæki að greiða upp höfuðstólinn! Þá eru vextirnir eftir, kæru lesendur. Höfum við gleymt einhverju? Ég meina, er þetta ekki nóg ... ? Ææ, ég átti eftir að fara yfir IceSave málið. Það er reyndar ómögulegt að átta sig á þeirri vitleysu. Utanríkisráðherra reyndi að telja okkur trú um að ábyrgðir gætu numið 140-60 milljörðum króna. Að fenginni reynslu eigum við ekki að gefa okkur að sú upphæð eigi eftir að hækka. Heildarskuldin er hærri en þúsund milljarðar og ljóst er að eignir, sem eiga að standa á móti, falla stöðugt í verði. Hvort sem sala á þeim færi fljótt fram eða henni yrði dreift er ljóst að ekki munu fást þeir aurar upp í "skuldbindingar" íslenska ríkisins. Ég ætla að leyfa mér að skjóta á alla vega tvöfalt hærri upphæð en ISG nefndi: yfir 300 milljarðar. Sú skuldahít gæti því tekið allt að 3 ár að greiða upp ef allur afgangur yrði settur í málið.

Niðurstaða: nær 20 ár tekur að greiða upp höfuðstól skuldarinnar og einhver ár til viðbótar sé tekið mið af vöxtum og kostnaði. Ekki er óvarlegt að ætla að það taki eina kynslóð - 30 ár - að greiða úr skuldaflækjunni eins og hún blasir við nú. Þetta er vitanlega að því gefnu að Íslendingar muni áfram selja útflutningsafurðir sínar á hæstu verðum sem þekkjast - að þjóðin fyllist bjartsýni og veðji á að hér sé lífvænlegt til frambúðar - að skuldsetning fyrirtækja og heimila muni ekki verða þeim ofviða og að stór hluti muni áfram geta skuldsett sig upp í rjáfur, herða allar sultarólar og treysti á að fá allar tölurnar réttar í lottóinu.

Hægt og bítandi er að koma í ljós að Íslendingar hafa ekki efni á því að taka á sig IceSave skuldbindingar og lánapakkann í gegnum IMF. Skuldsetning af því tagi gæti endanlega gert þjóðarbúið gjaldþrota og stuðlað að landflótta - nema ástandið versni svo allt í kringum okkur að það verði skárra að þreyja sult og þorra hér á landi en takast á við lífið annars staðar. Ef efnahagsástandið heldur áfram að versna um heim allan - sem það mun vissulega gera - munu aðrar hættur steðja að heiminum en efnahagsþrengingar, og á ég þá ekki einungis við matarskort í þriðja heiminum, sem ISG finnst minna mikilvægt að vinna gegn en að ráða vinafólk í yfirsendiherrastöður.

Svona er Ísland í dag, gott fólk. Það lítur ekki vel út hvað skuldasetningu varðar og ljóst að íslensk þjóð mun þurfa að herða sultarólinu sem aldrei fyrr. Með þessum orðum verður þó ekki horft framhjá því að sumt er hér til eftirbreytni og stendur all vel. Grunnatvinnuvegir þjóðarinnar standa sæmilega, atvinnustig er enn hátt, menntun með besta móti, velferðarkerfið nokkuð traust og fleira mætti nefna. En fyrir alla muni neitum að borga IceSave og sleppum jafnvel lánapakkanum frá IMF. Meira um það síðar.


mbl.is Svört spá um efnahagslífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímabær aðgerð ...

Um langt árabil þykir mér sem neytendasamtökin og starfsemi þeirra hafi ekki verið nógu sýnileg. Íslenskir neytendur hafa jafnframt sýnt samtökunum lítinn áhuga og er það e.t.v. til marks um tvennt:
Annars vegar getuleysi samtakanna og hins vegar hve íslenskir neytendur eru lítt meðvitaðir um samtakamátt sinn.

Um seinna atriðið er ég sannfærður, þó svo að margar fjölskyldur þurfi að horfa í hverja krónu við innkaup. Jafnvel í lágvöruverðsverslunum sér maður fjölmarga grípa hverja vöruna á fætur annarri án þess að gefa verðinu gaum. Um fyrra atriðið tel ég að neytendasamtökin hafi lengi verið hornreka í fjölmiðlaumfjöllun og áhrifamáttur þeirra hefur verið takmarkaður - af ýmsum orsökum væntanlega, m.a. fjárskorti. En þar reynir á sjálf samtökin að koma sér á framfæri og virkja neytendur í lið með sér. Lítið hefur til neytendasamtakanna sést á því sviði.

Hver veit nema samtökin geti raunverulega komið neytendum til góða og hver veit nema að þeim vaxi fiskur um hrygg í því ástandi sem nú ríkir. Ekki veitir nú af að standa e.k. neytendavakt enda eru fjölmiðlar slakir á þessum vettvangi, hvað sem líður einstaka neytendaumfjöllun doktora eða annarra ...


mbl.is Birta lista yfir lækkanir birgja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lang flottastur

Rúni Júl var lang flottastur íslenskra poppara. Hann virtist heill í gegn, töffari af góða skólanum og dálítill strákur í sér. Mér var ávallt hlýtt til hans og hjá þjóðinni skipaði hann veglegan sess. Nú er hann allur og vil ég við þetta tækifæri votta fjölskyldu hans samúð mína og bið fyrir góðri vegferð Rúnars í öðrum heimi.


mbl.is Rúnar Júlíusson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dollar var það heillin!

Eins og gefur að skilja fer sama upphæðin í að taka upp dollar. Það liggur tvennt fyrir hvað varðar upptöku erlends gjaldmiðils, evru eða dollars:
1. Dollaraupptaka yrði gerð í þökk Bandaríkjanna
2. Upptaka evru yrði gerð í óþökk Evrópusambandsins

Heiðar Már dreymir e.t.v. um inngöngu í Evrópusambandið - sem í mínum huga er e.k. martröð - en heldur þykir mér hann bjartsýnn ef hann telur það taka 3 aðlögunarár að ná Maastrich skilyrðunum. Þó svo að hann hefði rétt fyrir sér er komin upp tregða hjá ráðandi þjóðum í Evrópusambandinu að hleypa fleirum inn í evruna. Íslendingum stæði e.t.v. ekki til boða að taka upp evru á næstu tíu árum eða lengur.

Nú þarf að fara fram umræða um kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil og eru fjölmiðlarnir einir í stakk búnir til þess að hrinda þeirri umræðu af stað. Ætla þeir að sýna vanmátt sinn enn einu sinni? Kæmi mér ekki á óvart.


mbl.is Einhliða upptaka evru tæki 4 vikur og kostaði 80 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsnæðislánin hækka um hundruðir milljóna ...

Það eru ekki margar ljósatýrurnar sem lýsa í myrkviði efnahagsþrenginga þessa dagana. Fyrir sumum er áfengi brjóstbirta og enn sýnir hið opinbera fordæmi með hækkunum. Í ofanálag er verklagsreglum breytt og í stað þess að hækka um mánaðarmót breytir ÁTVR út af vananum og hækkar nokkrum dögum fyrr - enda vont ef einhver gæti notfært sér ástandið. Neysla áfengis kann að vera mönnum skammgóður vermir en víst er að timburmenn þessarar hækkunar munu vara um ókomin ár í hækkuðum húsnæðislánum.

Hækkun ÁTVR mun ein og sér hækka lánin á heimiliunum um hundruðir milljóna króna og samtals hefur hækkun á áfengi og tóbaki síðastliðinn mánuð hækkað lán heimilanna í landinu á annan milljarð króna - meira en þúsund milljónir króna, takk fyrir! Áfengi og tóbak eru um 3,0 % af neysluvísitölunni og 4,4 % hækkun þýðir um 0,132% hækkun vísitölunnar og svo geta menn reiknað að vild. 15 milljón króna lán hækkar um 20 þúsund í einni svipan og ef við ímyndum okkur að eftir séu 30 ár á láninu, þá hefur hækkun ÁTVR í dag hækkað greiðslur af höfuðstól lánsins um 7 milljónir króna.


mbl.is Verðbreyting í vínbúðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skref í rétta átt

Um þetta þarf ekki að hafa mörg orð. Ef hægt er að umbreyta kröfum erlendra lánastofnana og annarra í hlutafé nýrra banka er það eitt skref í átt að uppbyggingu nýs og trausts bankakerfis. Málið snýst um traust. Án þess getur fjármálakerfið ekki starfað, sérílagi ekki bankar. Þessi hjálp kemur að utan. Þaðan munu þær fleiri koma á næstunni, því enn er ríghaldið í fólkið hér heima sem ekki stóð vaktina og ætlast til að þeir stýri bjargráðunum. Það eru stærstu pólitísku mistök núverandi ráðamanna og munu koma þeim í koll, þó síðar verði.


mbl.is Erlendir vilja eiga banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fá fjölmiðlar aldrei nóg af blessaðri konunni?

Fyrirferðin á Björk í fjölmiðlum er meiri en góðu hófu gegnir. Nú er söngkonan komin í hópefli með kaupsýslumönnum og "öðrum" sérfræðingum - til þess m.a. að berjast gegn ofurkaupsýslumönnum stórfyrirtækja. Enn einum frasanum er haldið á lofti; "... það (innganga i EB) virðist vera eina leiðin". Ef einhver heldur því fram að innganga í Efnahagsbandalag Evrópuþjóða sé eina leiðin út úr ógöngum Íslands er sá hinn sami að fara með rangt mál. Hins vegar má kalla þá leið einn þeirra möguleika sem gætu með tíð og tíma komið á stöðugleika í sumum veigamiklum þáttum efnahags en um leið er kastað fyrir róða fjölmörgum öðrum sjónarmiðum sem hinn söngelski og um sumt sjálfskipaði fulltrúi þjóðarinnar varðar nú lítið um.

Björk fer mikinn þessa dagana í alls kyns miðlum, erlendum sem innlendum. Hún þreytist seint á því að úthúða ýmsu því sem hefur verið gert á Íslandi í nafni orkuvinnslu og uppbyggingu stóriðju á seinni árum. Umhverfismál segir hún standa sér nærri. Með það í farteskinu ætlar hún að ganga Brussel á hönd - en jafnframt bjarga Íslandi, þá væntanlega frá sjálfu sér. Hver veit nema þess sé þörf þessa dagana. En ég efast um að hatur hennar út í stóriðjustefnu undangenginna ára vegi upp á móti því útflutningsáli sem nú færir björg í bú og gæti átt sinn þátt í viðspyrnu til framfara á nýjan leik á Íslandi.


mbl.is Björk vill að Ísland gangi í ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband