9.3.2009 | 22:31
Hver mun nú hughreysta ESB-sinna?
Svo virðist sem endalaust sé hægt að flytja fréttir af inngönguskilyrðum ESB, mögulegum og ómögulegum tímabundnum undantekningum frá reglum bandalagsins, hve langan tíma það tæki að ganga inn og svo hvort og hvenær hægt yrði að taka upp evruna. Nú liggur það fyrir; það mun ekki verða greitt fyrir aðganginn að evrusamstarfinu. Þetta mun að vísu ekki aftra því að einhver sérfræðingurinn af meginlandinu mun innan tíðar finna nýjan flöt á þessu, ESB-sinnum til hughreystingar uppi á Íslandi. Í ofanálag mun mbl.is og fleiri miðlar áfram flytja fréttir af misvísandi ummælum embættismanna stórríkisins á meginlandinu.
Reyndar er það nú svo að flest af þessu er vitað. Inntökuskilyrðin eru að mestu þekkt, m.a. frá samningaferlum ríkja sem hafa haft hug á inngöngu. Hinar sérstöku aðstæður Íslands, hvar sjávarútvegurinn er önnur meginstoðin í efnahag landsins, munu ekki skila haldbærum áralöngum undanþágum. Reynsla Norðmanna sýnir þetta svo ekki verður um villst og breytir þar litlu þó sjávarútvegurinn í Noregi sé ekki jafn mikilvægur þeim og okkur. Þeir reyndu hvað þeir gátu til þess að ná fram ásættanlegum undanþágum en norska þjóðin - jafn lítið og hún er upp á sjávarútveginn komin - hafnaði samningnum þrátt fyrir gríðarlegan þrýsting víða að.
Engin styttri leið til evru | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.3.2009 | 17:04
Blessaðir mennirnir
Í eina tíð var til fólk á Íslandi sem fannst kommúnisminn í austri vera flestra meina bót. Undir það síðasta var e.t.v. Jón Múli sá eini sem trúði á Maístjörnuna hans Laxness. Nú, þegar efnahagur hins kapitaliska heims er lagstur í alvarleg veikindi, er ekki ólíklegt að einhverjir geri sér á ný dælt við marxíska hugmyndafræði. Að vísu var Marx kallinn ekki alvitlaus, hæfileikar hans til sögugreiningar voru t.d. með ágætum. Hins vegar klikkaði hann á útfærslunni, blessaður maðurinn, og tugir milljóna manna guldu fyrir með lífi sínu á síðustu öld, þegar forræðishyggjan klæddist búningi kommúnismans.
Enn eru menn í kommúnískum alræðisæfingum á norðurhluta Kórueskagans, bakkaðir upp af stóra bróður, Kínverjum. Ekki einasta eru Kim & Co. með þjóð sína í herkví eigin geðveiki, heldur eru þeir ógnun við heimsfriðinn. Þess utan býr almenningur í N-Kóreu býr við skilyrði sem við Íslendingar kærum okkur ekki um að vita af. Höfum lengst af ekkert viljað af örbirgð þessa fólks vita. Nú er sem sagt komið í ljós að almúginn í N-Kóreu er 99,98% ánægður með leiðtoga lífs síns og líðið annað eftir fyrir Kim en að beita hamrinum og sigðinni og koma þessum 0,02% fyrir kattarnef.
99,98% kjörsókn í Norður-Kóreu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 21:44
Nauðsynleg uppstokkun bíður bílarisans og ríkisins
Þau geta verið dýr ráð þeirra sem vilja dæla opinberu fé í illa rekin fyrirtæki. Ekki einasta hefur verið dælt ómældum milljörðum dollara í GM, heldur er nú enn krafist gjafa frá ríkinu. Hættan er vitanlega sú að fyrirtæki á borð við GM fari hvort eð er á hausinn og því sé opinber stuðningur einungis til þess gerður að seinka óhjákvæmilegu gjaldþroti og kasta fé á glæ, sem betur hefði nýst í aðra hluti.
Gjaldþrot GM kann að vera forsenda þess að uppstokkun og enduruppbygging eigi sér stað í bílaiðnaði í Bandaríkjunum. Þeir sem reka þetta stóra fyrirtæki, sem á hátindi sínum taldi nær eina milljón starfsmenn, eru greinilega ekki starfi sínu vaxnir. Og verkalýðsfélögin, sem ráða miklu í bílaiðnaðinum, eru einnig vanbúin að mæta breytingum. Áætlað er að hver verkamaður hjá GM, Chrysler og Ford kosti allt að 70$ á tímann, m.a. vegna hárra lífeyrisskuldbindinga, á meðan verksmiðjur minni framleiðenda þar vestra greiða vel innan við 30$.
Krefjast gjaldþrots GM | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 11:09
Kjósendur VG gáfu afslátt ...
Má ekki vera að kjósendur VG í forvalinu hafi gefið stóran afslátt á sumar áherslur Kolbrúnar - en hún nefnir sérstaklega kvenfrelsis- og umhverfissjónarmiðin, sem sín helstu mál? Bleikt og blátt áherslur hennar hafa vakið kátínu á síðustu misserum en það virðist ekki vera heillavænlegt í stjórnmálum að bjóða upp á litgreiningu á fólki. Eins er þjóðin minnt á það að orkugeirinn er mögulega sá eini sem færir ný tækifæri á vettvangi náttúruauðlinda. Mannauður Kolbrúnar virðist ekki hafa vegið upp á móti þessum afslætti.
Keik og stolt í sjötta sætinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.3.2009 | 22:15
Þegar fræðimenn eru engum háðir ...
Hvernig ætli standi á því að svo margir "fræðimenn" á Íslandi reynist, þegar á hólminn er komið, tengjast stjórnmálaöflum. Mig grunar reyndar að þetta eigi sérstaklega við um einstaklinga sem aðhyllist stjórnmálaskoðanir inn á miðjuna. Þeir eiga það jafnvel til að safnast saman um tiltekin áhugamál eða til skrafs og ráðagerða um landsins gögn og gæði í félögum eða akademíum. En vitanlega ávallt hlutlausir og án flokkstengsla.
Fjölmiðlar gefa þeim alla jafna mikið pláss, og vitna til þeirra sem væru þeir óháðir. Þannig kynna þeir og sjálfa sig. Vera má að þeir telji sjálfum sér trú um að svo sé. Jafnvel þegar þeir tala á póltískum fundum fyrir tiltekin stjórnmálaöfl eða stjórnmálamenn. Jafnvel þegar þeir hinir sömu saka aðra um áróður í sínum fræðum, af því að aðrir hafa aðrar stjórnmálaskoðanir en þeir og geta því ekki fylkt sér að baki hlutlausrar hugmyndafræði á borð við jafnaðarstefnuna.
Og auðvitað eru jafnaðarmenn bestu fræðingarnir til þess að tala um frjálshyggju, ekki satt?
Hrunin frjálshyggjutilraun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.3.2009 | 15:58
Breti, sem trúir meira á þjóðina en ESB-sinnar!
Það er gaman að lesa jákvæða og upplyftandi grein frá breskum stjórnmálamanni, sem virðist hafa meiri trú á Íslendingum en margur ESB-sinninn hér á landi. Er það ekki merkilegt, eitt og sér? Ýmsar forvitnilegar athugasemdir má lesa í kjölfar greinarinnar og hver veit nema bresk þjóð ákveði einhvern daginn að yfirgefa Brussel og ganga til liðs við Íslendinga og Norðmenn í EES? Í ljósi sögunnar og hinna ólýðræðislegu vinnubragða sem einkenna sumt starf sambandsins verður, enn sem komið er, að líta á slíkt sem draumóra.
Fyrir utan hið augljósa, um að skrif af þessu tagi eru góð auglýsing fyrir land og þjóð, þá verður að segjast að Hannan virðist vera stjórnmálamaður sem gerir sér grein fyrir því að drifkraftur þjóðanna býr í sjálfstæði þeirra. Hann vill Íslendingum vel og talar af reynslu um ókosti þess að vera innan hins stóra sambands. Hann er vitanlega ekki svo skyni skroppinn að hann geri sér ekki grein fyrir sumum kostum aðildar en hann veit að þeir kostir hafa verðmiða, sem hann ráðleggur Íslendingum að greiða ekki.
Hannan: Fagnar minna fylgi ESB-aðildar meðal Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.3.2009 | 17:00
Vinstri menn vita ekki hvað frjálshyggja er
Um samfélagið enduróma orð í þá veru að frjálshyggjan sé dauð, sérstaklega þessi nýja. Flestir sem þannig tala enduróma reiði og vonbrigði sína yfir ástandinu með keyptum frösum frá vinstri mönnum. Jafnvel frjálslyndir jafnaðarmenn tala á þessum nótum, og hefði maður e.t.v. haldið að þeir vissu betur. En verst er þó, þegar hægri menn gera sér dælt við þessar úthrópanir, sem er ávísun á að þeir þekkja ekki nægilega bakgrunn sinna hugmynda.
Til þess að forðast allan misskilning, þá er vert að geta þess að allir menn eru í senn frjálshyggjumenn og félagshyggjumenn - það er í raun einungis spurning um hlutfallslegan stuðning hvers og eins við þessar ólíkindasystur; félags og frelsis. Ef vel á að vera ætti að kalla þær stjúpsystur. Í hinu pólitíska litrófi takast þessi tvö öfl á innra með okkur og ef illa gengur að gera annarri hvorri betur skil, er líklegt að viðkomandi kalli sig jafnaðarmann.
Grunnurinn að baki stjórnarskrám vesturlanda er sóttur aðallega í frjálshyggju en eftir því sem árin hafa liðið hafa breytingar á þeim tekið meira mið af félagshyggju. Án frjálshyggju væri athafnafrelsi einstaklingsins einskis vert, eins er með eignaréttinn, mál- og fundafrelsi o.m.fl. Grunnréttindi okkar byggjast á þeirri hyggju, að vernda rétt einstaklingsins fyrir ofríki hins miðlæga valds. Ef nánar er skoðað er ljóst að frjálshyggja er svo inngreipt í vitund okkar og líf að mörg okkar átta sig ekki lengur á inntaki orðanna.
Á þetta spila margir vinstri menn en andúð sumra þeirra á frelsishugtakinu er slík að þeir telja ekki eftir sér að fara með blekkingar og lygar. Þeirra von er að þeir geti viðhaldið þessari lygi sem allra lengst, svo þeir geti sett sitt mark á samfélagið.
Ein rökvilla vinstri manna er að benda í sífellu á að hér hafi í raun verið iðkaður ríkisstyrktur kapitalismi, einkavinavæðing o.s.frv. Hvort sem sú greining er að einhverju leyti rétt eða ekki, þá eiga þessi fyrirbæri lítið skylt við frjálshyggju, eins og geta má nærri. En það skiptir ekki nokkru máli í huga vinstri aflanna - frjálshyggja skal það samt heita! Þannig er blekkingin í raun fullkomin, hún hefur hringað sjálfa sig. Líkt og hundurinn sem eltir skottið á sjálfum sér, er íslensk þjóð áttavillt á meðan hún hlustar á blekkingarnar frá vinstri - en það kemur að því að hún áttar sig á að einungis með frelsishug mun henni takast að vinna sig út úr vanda liðandi stundar.
Hér var ekki hörð frjálshyggja | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.3.2009 | 20:10
Hin breiðu bök jafnaðarmanna
Sjálfbirgingsháttur jafnaðarmanna er þeim eiginleikum gæddur að geta ávallt náð nýjum hæðum. Jafnvel í tilraun til sjálfsgagnrýni, m.a. til þess að sýnast auðmjúkir, tekst það ekki betur en svo að þeir benda sínum ásökunarfingri á alla aðra en sjálfa sig. Þó svo að þetta sé nú plagsiður hjá æði mörgum stjórnmálamönnum, þá verður að segjast eins og er að jafnaðarmenn slá öllum öðrum við í sjálfshóli og afneitun - svona almennt talað!
Hinn fallvalti formaður setur málið þannig upp að hún hafi talið að verið væri að takast á við erfiðleikana alls staðar annars staðar en á stjórnarheimilinu. Allir aðrir en hún og hennar samstarfsfólk (jú annars, rosalega þeim að kenna) væru því ábyrgir. Allir aðrir þyrftu að líta í eigin barm. Og svo var kapp hennar svo mikið að hún leyfði samstarfsflokknum að vera svona lengi í stjórn með sér. Formaðurinn er sem sagt sigurvegari, hvernig sem málinu er velt upp. Í ósigri sínum, vinnur hún. Gallar hennar, eru hennar styrkleikar. Hennar breiða jafnaðarmannabak er í raun óþarft, því aðrir þurfa að axla ábyrgð.
IMF varaði við í apríl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2009 | 05:44
Erindrekar ESB-samrunans nýta hvert tækifæri
Það er með þetta eins og margt annað, sínum augum lítur hver á gullið. Sænska krónan hefur fallið verulega í kjölfar efnahagsþrenginganna og sem dæmi má nú fá eina og hálfa sænska krónu fyrir hverja danska. Það eru mikil viðbrigði frá því sem hefur verið, að ekki sé nú talað um þegar sænska krónan áratugum saman var um 10% sterkari en sú danska. Þessar gengissveiflur eru ekki í takt við annars stóra drauma sem Svíar hafa um sjálfa sig.
Lækkandi gengi sænsku krónunnar mun styrkja sænskan útflutningsiðnað, sem ekki veitir nú af. Þessar tilfæringar á genginu munu því hægja ef eitthvað er á uppsögnum í sænskum iðnaði og leggja grunn að styrkingu hans til framtíðar. Í sumum minni ríkjum, sem hafa tekið upp evru, ríkir nú neyðarástand því gengissveiflur eru ekki lengur liður í efnahagsstjórninni og ráðin liggja því m.a. í auknu atvinnuleysi, til þess að takast á við aðsteðjandi vanda. Er forsætisráðherrann sænski að sakna þessa, þegar hann segist sakna evrunnar?
Staðfestir rökin fyrir evrunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.2.2009 | 18:58
Þegar fólk kann ekki að skammast sín
Þetta frumvarp er minnisvarði um aumt siðvit og lítilmannlega hugsun fólks sem kann ekki að skammast sín. Mánaðarvinna stjórnarmeirihlutans hefur gefið af sér uppsagnarbréf embættismanns. Þjóðin situr uppi með illa grundað lagafrumvarp, sem sækir hugmyndafræði sína m.a. í pólitískar hreinsanir. Afgreiðsla þessa frumvarps er til marks um svikin loforð þessarar ríkisstjórnar og hve ein þjóð virðist reiðubúin til þess að láta teyma sig á asnaeyrunum.
Að vísu virðast margir sáttir við þennan gjörning, því fyrrnefndur embættismaður hvílir sem mara á sálarvitund þeirra. Illmælgin, rógurinn og formælingar þessa fólks í garð mannsins ættu að duga því nokkra stund, eða fram að næsta einstaklingi, sem það er reiðubúið að aflífa. Þetta er fólkið sem hrópar nú hátt eftir nýju Íslandi. Ef hugmyndafræði svona fólks á að ráða för hér á landi á næstu misserum er víst að friður mun ekki ríkja til hagsældar og uppbyggingar á Íslandi.
Seðlabankafrumvarpið samþykkt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)