Landinn taki drengina sér til fyrirmyndar

Ekki vantar nú hástemmdar lýsingar íþróttafréttamanna þegar vel gengur. Hvort íslenska þjóðin "tali vart um annað" skal ósagt látið en víst er að á meðan íþróttafréttamenn halda ekki ró sinni eru íslensku leikmennirnir mun rólegri austur í Peking. Þeir hafa sýnt það fram til þessa að hugarfarið er í lagi enda hefur það fleytt þeim langt í keppninni. Í þau fáu skipti sem íslendingar standa sig á alþjóðavettvangi í íþróttum virðast margir missa fótanna. Eftirvæntingarvísitalan skrúfast upp og lítið eftir til þess að takast á við vonbrigðin ef "illa" gengur.

Reyndar er árangur handboltalandsliðsins framar vonum. Að vísu hafa drengirnir stefnt markvisst að því að sigra fyrsta leikinn í 8 liða úrslitunum, eins og hefur komið á daginn. Það hefur farið vel á því að básúna þeim markmiðum ekki og reyndar skal þeim þakkað það því þjóðin á það til að ganga í gegnum taugaæsing og geðsveiflur sem engum er hollt að reyna. Leikurinn á morgun verður erfiður og fyrirfram hljóta Spánverjar að teljast sterkari. Þeir sýndu styrk sinn á móti S-Kóreumönnum og koma vel stemmdir til leiks gegn spútnikliði Íslendinga.

Að sama skapi er íslenska liðið vel stemmt. Leikmenn vita sem er að tækifæri af þessu tagi gefst hverri kynslóð íslenskra handboltamanna varla nema einu sinni. Ef íslensku strákarnir ná upp góðri vörn gæti svo farið að þeir kepptu um gullið. Ef ekki verður þetta afar erfitt - við þær aðstæður þurfa Snorri, Ólafur, Guðjón og allir hinir að skara fram úr í sóknarleiknum. Slíkt er óraunhæft enda ekki við því að búast að lykilmenn sýni allir stjörnuleik í einum og sama leiknum.

Þrátt fyrir að hafa tapað fjórum sinnum fyrir þessu spánska liði í síðustu 5 leikjum mæta drengirnir fullir sjálfstrausts og án nokkurrar minnimáttarkenndar í leikinn á morgun. Fyrir alla muni vonar maður að strákarnir skjóti ekki spænsku markmennina í stuð - þá er voðinn vís. Ef sigur vinnst er næsta víst að þjóðin þurfi á áfallahjálp að halda - ef drengirnir tapa geta menn áfram látið sig dreyma um síður verðmæta málma. Hvernig sem fer mun spennustig þjóðarinnar vera hátt á morgun og vonandi getur lítil eyþjóð glaðst með drengjunum á morgun í sigri yfir Spánverjum.


mbl.is Ísland og Spánn á risaskjá í Vetrargarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingvar

Ég minni á orð Ólafs Stefánssonar " hugsa jákvæt og engar pí...p hugsanir.

Áfram Ísland. 

Ingvar, 21.8.2008 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband