Efnahagsplástrar í stað raunverulegra bjargráða

Ég er á því að ýmis efnahagsúrræði sem hafa verið sett fram í vestrænum löndum muni ekki gera tilskilið gagn. Til þess að úrræði af þessu tagi eigi að virka verða menn að þekkja vandann, skilgreina hann og velta fyrir sér mögulegum ráðum. Annars vegar er horft til hlutverks ríkisins í viðleitni til þess að örva markaðshagkerfið og hins vegar er tekist á um skilvirkni hins kapitalíska hagkerfis og þær hagfræðikenningar, sem hafa ráðið för við stjórn efnahagsmála um langt skeið; ekki bara á vesturlöndum, heldur í nær öllum hinum alþjóðavædda efnahag heimsins.

Margir vilja kenna nýfrjálshyggjunni um ófarir fjármálakerfis heimsins og kreppunnar sem skollin er á. Um það verður ekki villst að á sumum sviðum hefur verið losað um hömlur í regluverkinu, sem kann að hafa átt sinn þátt í því hvernig fór. Hins vegar geta menn ekki horft framhjá því að hlutverk hins opinbera hefur alla tíð verið stærra en sumir vilja viðurkenna í hinu kapitaliska efnahagskerfi. Á þetta ekki síst við um frjálshyggjumenn eða hagfræðinga sem vilja kenna sig við kenningar þeim megin í litrófinu.

En þetta á einnig við um fræðimenn sem aðhyllast kenningar sem kalla á aukið hlutverk ríkisins í markaðsbúskapnum, telja hann ekki jafn vel smurða vél og fjrálshyggjumenn vilja halda fram. Halda jafnvel fram "helgispjöllum" á borð við það, að hin ósýnilega hönd markaðarins sé í raun ekki til. Markaðurinn eigi í stökustu vandræðum með að leiðrétta sig, eins og stundum er sagt, ávallt þurfi að koma "honum" til aðstoðar.

Þessi gagnrýni á markaðhagkerfið er um sumt réttmæt. Hið opinbera er vissulega stór hluti af gangverkinu og svo hefur það verið um langt skeið. Inngrip ríkisins eru víðtæk, ekki einungis við stjórn peningamála, heldur einnig í gegnum skattakerfið, opinberar framkvæmdir, kostun velferðarkerfisins o.s.frv. Hið opinbera hlutast til um velferð og innihald lífs okkar á svo mörgum sviðum að allt tal um frjálsan markaðsbúskap hljómar jafnvel ankannalega.

Samt hafa frjálshyggjumenn reynt að hleypa eða halda lífi í þá mýtu að efnahagskerfið gangi á öllum sínum frjálsu, kapitalísku sylindrum, í raun vitandi það að ríkið ræður yfir stórum hluta gangverksins. Að sama skapi ættu gagnrýnendur frjálshyggjunnar að varast að dæma of hart. Með því dæma þeir sjálfa sig, því þeir trúa af miklum mætti á hlutverk hins opinbera til þess að halda aftur af hinu mikla kapitalíska skrímsli. Þeim hefur því í raun mistekist ætlunarverk sitt.

Sé horft til aðdraganda þeirrar efnahagsniðursveiflu sem heimurinn gengur í gegnum um þessar mundir er ljóst að sú leið er vörðuð mistökum á mörgum sviðum, hugmyndafræðilegum og af ýmsu öðru tagi, og ekki síst mögnuð af þeim væntingum sem leiddu heimsbyggðina á græðgiseyrunum. Vegna þess hve kreppa af því tagi, sem skekur heimsbyggðina nú, kemur, að því er virðist, eingungis einu sinni á mannsaldri, virðist hagfræðin, að ekki sé nú talað um stjórnmálamenn, ekki reiðubúin til þess að geta komið í veg fyrir hana.

Alræðisríki fjórða áratugar síðustu aldar leystu sumpart kreppuna með sínum alræðisráðum. Ríkið tók yfir efnahagslíf fólksins og reyndar nær flest annað er varðaða tilveru þegnanna. Í lýðræðisríkjum var reynt að fara leið ríkisafskipta, án þess að ganga á stjórnarskrárbundin réttindi borgaranna. Vestur í Bandaríkjunum reyndi Franklin D. Roosevelt að kveikja líf í efnahag landsins með efnahagsaðgerðum, sem gengu undir nafninu New Deal. Ljóst er að þær aðgerðir voru í besta falli plástur á efnahagslífið og gerðu lítið til þess að bæta ástandið. Svipaða sögu var að segja annars staðar.

Hvort sem inngrip ríkisins vestur í henni ameríku urðu til þess að gera kreppuna dýpri en ella, m.a. með því að minnka peningamagn í umferð skömmu eftir hrunið á Wall Street, eða ekki, er ljóst að strax þá voru uppi hagfræðikenningar sem reyndu að takast á við kreppuvandann. Kreppan varði nær heilan áratug og leystist í raun ekki fyrr en með tilkomu heimsstyrjaldarinnar síðari - eða svo er nú sagt. En hvers vegna gátu styrjaldarátök leyst heiminn úr viðjum kreppunnar? Um það snýst m.a. einn sá lærdómur, sem menn hafa síðan dregið af ófullkomleika hins markaðsvædda hagkerfis.

Í niðursveiflu í hinu kapitalíska hagkerfi er fólgin hætta, sem kann að leiða af sér enn meiri niðursveiflu. Vegna þess hve kerfið er bundið tilfinnasveiflum um traust, væntingar o.s.frv., getur samdráttur á einu sviði haft kerfislæg áhrif og valdið því að verulegur og allt að því óafturkræfur efnahagslegur samdráttur á sér stað. Því hafa fræðingar bent á nauðsyn þess að ríkið komi að málum og dæli m.a. fjármagni inn í kerfið til þess að efla með fólki trú á markaðnum; komi hjólum markaðshagkerfisins í gang á ný.

Í hinni fræðilegu úttekt má eflaust benda á að markaðshagkerfið hefur í raun aldrei verið alveg frjálst, hið opinbera hefur alla vega í hundrað ár verið mikilvægur þáttur í innviðum þess og sífellt aukist þrýstingur á að efla þetta hlutverk. Hvað má þá segja um misheppnað hlutverk þess í ljósi núvernadi ástands. Eftir stendur vitanlega sú mótsögn, að sífellt er reynt að halda í, eins og hörðustu andstæðinarnir vilja halda fram; spillt auðvaldskerfi, sem þjóni fáum, gangi á náttúruauðlindir jarðar, viðhaldi ríkidæmi vesturlanda á kostnað vanþróaðra ríkja o.m.fl.

Þessi sýn gefur vitanlega ekki rétta mynd af ástandi mála, þó svo að í öfgatilvikum megi finna sannleikstón í andáróðri gegn markaðshagkerfinu. Það er nefnilega svo að fyrirkomulag, sem byggist á frjálsum og ábyrgum viðskiptum, varið og vaktað af því stjórnkerfi sem stjórnarskrár okkar vilja vernda og siðferðið kallar eftir, er með stuðningi lýðræðisins það sem flestir frjálsir og vel hugsandi menn kjósa sér. Að þessu leytinu erum við nær öll frjálslyndir borgarar. Þess utan getum við rifist um kosti þeirra reglna sem varða þessa braut, kallað okkur frjálshyggjumenn, félagshyggjumenn eða eitthvað annað.

Sé horft til efnahagsaðgerða Obama-stjórnarinnar tel ég næsta víst að þær muni vart skila tilætluðum árangri, alla vega ekki á efnahagssviðinu. Hins vegar kunna þessar aðgerðir að vera nauðsynlegar út frá öðrum sjónarmiðum enda er vart til sá stjórnmálamaður sem þyrði að benda á verulega sársaukafullar stjórnvalds- og efnahagsaðgerðir, til þess að laga vandann. Sársaukinn mun hvort sem er sýna andlit sitt og hættan er sú að kreppan dragist á langinn á meðan stjórnvöld sýna vilja til þess að setja efnahagsplástra á ástandið, í stað þess að skera sum efnahagsmeinin í burtu.


mbl.is Obama byrjar vel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væl, væl og aftur væl

Hin hástemmdu orð Samtaka ferðaþjónustunnar um hættuna sem stafar af hvalveiðum á ferðaiðnaðinn eru illa til fundin og lýsa taugaveiklun sem er þeim ekki sæmandi. Hið alþjóðlega umhverfi stendur ekki á öndinni yfir fyrirhuguðum hvalveiðum, einungis hávær hópur fólks sem í hverju umhverfismálinu á fætur öðru veður á sínum skítugu hugmyndafræðiskóm yfir allt og alla. Fyrir þeim er fátt eitt heilagt í viðleitni sinni til þess að kenna umheiminum hvað rétt sé og gott. 


mbl.is Hóta að taka Ísland út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilanefnd í bjartsýniskasti ...

Við fyrstu sýn er hér um að ræða mjög góðar fréttir. Fram að þessu hafa eignir Landsbankans, sem áttu að koma til frádráttar skuldbindingum íslenska ríkisins vegna Icesave reikninga, verið sem hulin ráðgáta. Nú hefur verið settur verðmiði á þessar eignir af valinkunnri sveit manna. Það eiga að fást um 1195 milljarðar króna fyrir eignirnar, sem þó eru ekki upptaldar.

Það gefur augaleið að hér er einungis um mat að ræða. Verð á vöru eða þjónustu er ekki greypt í stein og verð á fyrirtækjum og hlutabréfum er síbreytilegt. Þessar eignir verða ekki seldar í einu vetfangi. Kostnaður sem fellur á ríkið mun því aukast umfram þessar áætluðu 72 milljarða, vegna vaxtagreiðslna af þeirri upphæð. Hvort þessar eignir haldi áætluðu verðgildi sínu er fullkomlega óvíst.

Áður en við höfum fengið í hendur upplýsingar um forsendurnar, sem liggja að baki útreikningum nefndarinnar leyfi ég mér að setja spurningamerki við þessa upphæð. Ég óttast að fullmikil bjartsýni hafi legið að baki verðlagninu eigna Landsbankans. Í ofanálag eru horfur ekki góðar á alþjóðamörkuðum, sérstaklega hvað varðar þær eignir sem Íslendingar virðast hafa fjárfest hvað mest í. En það veit á gott að nú er komið eitthvað bitastætt fram um Icesave málið.


mbl.is Segja Icesave kosta ríkið 72 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver eða hvað ákveður að eitthvað sé ódýrt?

Tryggvi imprar hér á mikilvægu endurreisnarverki, sem nú liggur nær alfarið í höndum ríkisbankanna. Eins og gefur að skilja verða viðskiptaleg sjónarmið að ráða mestu í þeirri vinnu en pólitísk sjónarmið verða einnig að koma við sögu, sem varða verk skilanefndanna og þeirra sem vinna við það að endurreisa skuldsett fyrirtæki. Það hvílir mikið á herðum þessa fólks að vel sé staðið að verki til þess að skila frá sér lífvænlegum fyrirtækjum, sem séu í stakk búin að veita fólki atvinnu og skila eigendum sínum arði.

Ef til vill verður það nauðsynlegt að selja útlendingum sumar eignir á lágu verði en það er með verð eins og annað, að það fer eftir framboði og eftirspurn og stundum er betra að fá eitthvað fyrir hlutinn í stað þess að setja uppi með eitthvað sem bíður þess eins að daga uppi - vegna þess að heimsk ráð vildu meina öðrum að mögulega hagnast - frekar vil ég þann versta en þann næst besta sagði Íslandssólin í frægri bók. Vilja menn það frekar að fyrirtækin fari á hausinn vegna þess að útlendingar máttu ekki hugsanlega hagnast við aðstæður þar sem Íslendingar sjálfir hafa ekki bolmagn til þess að kaupa eða endurreisa fyrirtækin?

Umræðan hans Tryggva um lánastöðu ríkisins var nytsamleg, þó svo að einhverra hluta vegna hafi menn skautað framhjá jöklabréfunum. Það eru skuldir, sem verður að greiða og á meðan annað býðst ekki verður óbeint að setja þá skuld á ríkið - ef þau eru gerð upp í einu vetfangi fellur gengið niður í kjallara og skuldir hins opinbera við útlönd bólgna út, að ekki sé nú talað um aðrar skuldir Íslands við útlönd. Jöklabréfin þurfa á sérstakri meðhöndlun að halda og þangað til eru skuldir ríkisins, fyrirtækja og einstaklinga (heimila) enn afar óráðin.


mbl.is Fyrirbyggja ójafna dreifingu verðmæta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjum skal bjargað og hverjum ekki?

Heimilisskuldir eru vitanlega bara skuldir heimilanna. Þær leggjast út á ca. 7 milljónir á hvert mannsbarn. Þar fyrir utan eru aðrar skuldbindingar einstaklinga í formi yfirdráttar, bílalána, námslána, lána án veðbanda auk annars. Nú er það svo að nokkur hluti skuldar því sem næst ekkert og á enn all mikla hreina eign með þægilegri ávöxtun.

Maður hefur heyrt ótrúlegar sögur af skuldsetningu ungs fólks í fasteignakaupum síðasliðin ár. Sumpart voru þau réttlætt með afar góðum launum. Meira að segja margt starfsfólk bankanna stóð í fasteignakaupum fram á síðasta ár á myntkörfulánum. Þó lá fyrir að gengið var of hátt skráð og einungis spurning hvenær það myndi falla. Á haustmánuðum ársins 2007 voru bankarnir þegar farnir að gera ráð fyrir nokkru falli krónunnar og högnuðust reyndar um tugi, ef ekki hundruðir milljarða króna vegna uppkaupa á gjaldeyri og framvirkum samningum.

Þó svo að fallið hafi verið meira en menn gerðu ráð fyrir var mönnum fullljós áhættan af því að taka myntkörfulán. Þegar vel gekk voru þau hagstæðari en húsnæðislán í íslenskum krónum. Hve langt á að ganga í því að bjarga skuldsettum heimilum með myntkörfulán er vandaverk. Jafn nauðsynlegt og er að hafa úrræðin almenn, er ljóst að þau þurfa að sama skapi vera sértæk, þ.e. að taka tillit til ólíkra aðstæðna. Einnig er ljóst að sumum heimilum verður ekki bjargað. Þau hafa reist sér slíka hurðarása um öxl að þeim verður ekki bjargað.

Hver á að borga og verður hægt að bjarga öllum? Eiga þau heimili og þeir einstaklingar, sem skulda lítið að greiða fyrir þá sem skulda mikið? Hvernig verður þessari byrði dreift? Í gegnum skatta/ríkið eða í gegnum lífeyrissjóði?  Mörg sjónarmið takast hér á, tilfinningaleg og hagræn. Hin pólitíska afgreiðsla verður hið stóra vandaverk, því stjórnmálamenn kunna að vera allir að vilja gerðir en jafnframt vitandi af sinni eigin pólitísku framtíð. En það er jú vandamál sem þeir takast á við hvern dag, þó svo að nú sé það af stærra tagi en þeir eiga að venjast.


mbl.is Heimilin skulda 2.000 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandaríkin munu ná sér á strik, þrátt fyrir þessar aðgerðir!

Góð ráð eru dýr þessa dagana. Í hverju vestrænu ríki á fætur öðru er tekist á við kreppuna með sértækum og kostnaðarsömum ráðum hins opinbera. Björgunaraðgerðir Bush stjórnarinnar beindust aðallega að björgun fjármálakerfisins, m.a. með yfirtöku slæmra húsnæðislána. Með komu nýs forseta hefur nú verið sett saman ný áætlun, sem ætlað er að blása lífi í bandarískan efnahag. Ef menn kjósa, er hægt að líkja þessari áætlun við New Deal Roosevelts forseta á fjórða áratugnum, en flestir hagfræðingar eru sammála um að sú áætlun hafði lítil sem engin áhrif á kreppuna þá. Hættan nú er sú að áætlun Obama stjórnarinnar muni litlu skila en á endanum auka á skattbyrðina. Ríkisskuldir Bandaríkjanna eru nú þegar orðnar stjarnfræðilega háar.

Margir hagfræðingar benda á nauðsyn þess að láta illa rekin fyrirtæki fara á hausinn, til þess að rýma fyrir betur reknum fyrirtækjum. Slík hugsun er hins vegar stjórnmálamönnum óásættanleg. Aðgerðir alríkisstjórnarinnar í Washington munu alveg örugglega hægja á því sem kalla mætti "eðlilega" og nauðsynlega endurnýjun til framtíðar. Hún festir peninga í efnahagslegar plástursaðgerðir í stað þess að opna leiðir til endurnýjunar og nýs vaxtar. Í raun má segja að þessi áætlun hefti það að þau öfl markaðarins sem þó eru á hreyfingu geti fundið nýjar leiðir og nýjan vettvang til þess að byggja upp ný fyrirtæki og skapað ný störf.

Aðgerðirnar í Evrópu gætu skilað betri árangri. Evrópa hefur heldur ekki efni á mistökum í ljósi þess hve kreppan mun leika hana illa. Efnahagur Evrópu er mun verr staddur en í Bandaríkjunum og grunnþættir efnahagsins í miklu verra standi. Áform ESB frá árinu 2000 um að sambandið yrði orðið fremsta efnahagssvæði heimsins árið 2010 eru á þessari stundu enn fjarlægari en við aldamótin. Bandarískt efnahagslíf er dínamískara en það evrópska og því mun efnahagurinn taka fyrr við sér þar, þrátt fyrir bjargráðaáætlun Obama-stjórnarinnar. Það mun reyna verulega á hina feysknu efnahagslegu innviði Evrópu á næstu árum. Það getur varla talist ráðlegt að Ísland fari í ástarsamband við Evrópusambandið við þessar aðstæður.


mbl.is Obama staðfestir aðgerðaráætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hroðvirknisleg aðgerð nýrrar ríkisstjórnar

Gagnrýni bankastjóranna er réttmæt. Núverandi ríkisstjórn hefur kastað til hendinni við samningu nýrra laga um Seðlabankann. Í ljósi kringumstæðna bera þau því svip pólitískrar aðgerðar. Það er vont að hver aðilinn á fætur öðrum hefur fundið að frumvarpinu í veigamiklum atriðum. Maður skyldi ætla að það sé eftrsóknarvert að um mál þetta sé samstaða á alþingi - á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Mál af þessu tagi hefði fyrst og fremst átt að falla undir loforð nýju stjórnarinnar um samvinnu við þingið allt. Þau orð virðast ekki hafa djúpa merkingu hjá stjórnarherrunum nýju.

Flýtimeðferð málsins er m.a. byggð á því að Davíð Oddsson og bankastjórninni allri beri að víkja sem fyrst, til þess aðallega að skapa traust í gegnum nýja stjórnendur bankans. Það má taka undir það að ný bankastjórn/bankastjóri sé nauðsynleg til þess að endurvekja fyrrnefnt traust. Hins vegar skiptir máli hvernig að því er staðið og málið ekki í heild sinni gert að pólitísku bitbeini á milli stjórnvalda og Seðlabankans. Núverandi stjórnvöldum hefur því miður ekki tekist að vinna að málinu án þess að gera persónu Davíðs Oddssonar að meginmáli, sumpart studd af þorra fólks í landinu, sem er jafnvel reiðubúið með ofbeldi að koma vonda manninum frá störfum í Svörtuloftum.


mbl.is Gagnrýna Seðlabankafrumvarp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinir hróðugu ESB sinnar með sveittan skallann

Hve lengi á ESB-sinnum að leyfast að vísa til reynslu Írlands og annarra ríkja með evru sér til halds og traust í áróðri sínum fyrir inngöngu Íslands í stórríkið? Hve hróðugir voru þeir ekki fyrir stuttu síðan? Nú rembast þeir eins og rjúpan við staurinn til þess að sjá á málinu nýja vinkla sem á að afsanna þeirra fyrri orð. Að þeir hafi í raun rétt fyrir sér og að evran sé samt betri.

Nú er það ljóst að samstarf á sviði efnahags er af hinu góða. Myntsamstarf er þar á meðal. Hins vegar verða menn að gera sér grein fyrir göllunum, um leið og kostirnir eru básúnaðir. Ef reynslan sýnir að evru-myntsamstarfið hafi jafnvel skaðað lönd á borð við Írland er sæmandi að viðurkenna slíkt en halda ekki áfram lygunum og reyna með öllum ráðum að hræða Ísland til undirgefni við Brusselvaldið.


mbl.is Írland-Ísland: Munurinn einn stafur og sex mánuðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brokkgengur markaðsbúskapur

http://www.youtube.com/watch?v=pD8viQ_DhS4

Skoðið þetta ef þið hafið áhuga á að skoða aðdraganda fjármálakreppunnar (fjármálaútstreymi sem stefndi í á sjötta þúsund milljarða dollara en var stöðvað) ... ekki svo að skilja að hér sé að finna hina einu og sönnu samsærisorsök þess að hið kapitalíska fjármálakerfi strandaði. Nei, það á sér lengri sögu og virðist eiga sér stað með reglulegu millibili: Heimskreppa einu sinni á mannsaldri; staðbundnar og minni kreppur e.t.v. einu sinni á kynslóð. Hagur hins markaðsvædda fjármála- og viðskiptaheims gengur í sveiflum. Sé rýnt í þetta sveiflukennda ferli er eðlilegt að spurt sé hvort það sé þess virði að búa við efnahagskerfi af þessu tagi. Er sársaukinn þess virði, þegar illa gengur, að hann geti réttlætt ástandið þegar vel gengur?

Nú er það svo að ekki er hægt að setja mælistiku efnahags eða fjármuna á alla hluti. Það er til dæmis erfitt að setja verðmiða á frelsið, þó svo að tilraunir til þess séu ávallt gerðar í stjórnmálaumræðunni. Velferðina er þó auðveldara að verðleggja og í okkar heimshluta verður hún ekki mikið hærri. Skandinavar fengu sem dæmi að fullreyna það á sínum tíma, þegar þanmörk efnahagskerfisins leyfðu ekki velferð af því tagi sem t.d. hafði byggst upp í Svíþjóð. Á níunda áratugnum varð sænska ríkið tæknilega gjaldþrota og það kostaði pólitískan óróa, sænsku kratana völdin, verkföll og niðurskurð, til þess að rétta hag ríkiskassans.

Það er eðlilegt að sett séu spurningamerki við fjölmörg fyrri gildi, að ekki sé nú talað um alþjóðlegan markaðsbúskap. Í þeim efnum er auðvelt að draga einfaldar ályktanir. Afleiðing hrunsins er m.a. pólitískur órói og við slíkar aðstæður á sér stað gerjun sem er sumpart af hinu góða en jafnframt gefur hún lukkuriddurum og lýðskrumurum pólitísk vopn í hendur, sem þeir eru reiðubúnir til þess að misnota. Flest skynsamt fólk átta sig á að einhvers konar tegund markaðsbúskapar er okkur nauðsynlegur en jafnframt eru uppi óskir um að setja á hann bönd sem duga.

Ég held að margir geri sér grein fyrir að hið kapitalíska kerfi sé í raun hálfgert skrímsli, sem verði að hemja. Með þeim hætti geti það unnið í þágu þegnanna, ellegar vinni það aðallega fyrir fjármagnseigendur þar sem almenningur er háður velvilja auðmanna - sem er hættuspil, sé tekið tillit til mannlegs eðlis. Með því að setja markaðsbúskapnum hæfilegar skorður getur hagnaðarvonin haldið áfram að færa seljendum og kaupendum björg í bú á markaðstorgi heimsins. Þetta skilur frjálslynt fólk því við vitum að önnur úrræði færa okkur minni velferð, minna frelsi, skert lífsgæði og verra ástand umhverfisins.


Endurreisn með bættum bókhaldsreglum

Hvernig í ósköpunum ætla menn að koma í veg fyrir að flutt sé fé til staða á borð við Tortola eyju? Er eitthvað í fjórfrelsissamningnum sem hindrar frjálst flæði fjármagns - nema beinlínis sé hægt að sýna fram á að það sé illa fengið? Í fljótu bragði virðist sem bókhaldsreglur einar geti hindrað óeðlilegt fjárstreymi á milli landa - t.d. með því að eyrnamerkja betur fjármagnið, ekki ósvipað og gert er með vörur. En hvað sem góðum reglum líður verður ávallt erfitt að koma í veg fyrir lögbrot, þar sem einbeittur brotavilji er til staðar. Spurningin er því; hve einbeittur var vilji "auðmannanna"?

Fjármálakreppa heimsins hefur sýnt fram á misbresti í bókhaldslöggjöfinni, sem nauðsynlegt er að lagfæra. Svo virðist sem fjármálafyrirtækjum hafi, í skjóli bókhaldskúnsta, tekist að fela glæfrastarfsemi, slælegt viðskiptasiðferði og fært fáum lygilegan arð. Í raun hefði fall Enrons á sínum tíma átt að hringja viðvörunarbjöllum - en svo virðist sem eftirlitsaðilum vestan hafs - og reyndar um heim allan - hafi ekki þótt sem kerfislægir þættir byggju að baki falli þess viðskiftarisa. Annað hefur komið á daginn.


mbl.is Skattaskjólin misnotuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband