Bjarni, Sigmundur og Steingrímur stóðu upp úr í kvöld

Steingrímur flutti mál sitt af alkunnri orðfimi, gerði vel grein fyrir sumum málum en skorti nokkuð upp á sannfærandi lausnir á vandanum. Svo var hann líka svo vel snyrtur og færður í ný föt, alveg móðins og ég veit ekki hvað. Hann kemur alltaf vel út, alveg þar til hann þarf að skýra sín stefnumál en þá skortir hann þá heildarsýn sem menn á borð við Bjarna og Sigmund hafa.

Það er of spilað á skoðanakannanir og populisma hjá stjórnvöldum þessa dagana. Þau eru að vinna að tilteknum málum sem sögð eru taka á vanda heimilanna - en að vísu hefur nær ekkert sést til þess að takast á við vanda fyrirtækjanna. Sum þessara ráða eru unnin í mikilli sátt á alþingi og hafa jafnvel verið í vinnslu frá tíma ríkisstjórnar Geirs H. Haarde. Núverandi stjórnvöld virðast m.a. ekki geta sýnt þann heiðarleika að viðurkenna það.

Hvað sem segja má um bjargráð núverandi eða fyrrverandi ríkisstjórnar þá er ljóst að í þeim felast engin vatnaskil. Ekki einu sinni flokksdindlar núverandi ríkisstjórnar geta haldið því fram. Það sem Bjarni og Sigmundur höfðu fram að færa í sínum málflutningi var bæði sennilegt og skynsamlegt. Ekki fleiri álögur á heimilin, í ljósi þess að efnahagsvandinn er að sliga þau. Þetta sér allt skynsamt fólk. Mikilvægast er að skapa störf, sem byggi upp skattagrunn.

Vitanlega þarf hið opinbera að leggja drög að uppbyggingu í stóriðju, sem þátt í því að störf bjóðist þeim þúsundum Íslendinga sem eru nú án atvinnu. Það þarf að endurreisa bankakerfið, en um það eru allir sammála, svo fljótt sem auðið er en það er forsenda þess að einstaklingar og fyrirtæki geti sótt fram á nýjan leik. Það býr í fólki frumkraftur og áræðni, sem leysist úr læðingi við hagstæð skilyrði. Þau skilyrði þarf að skapa, eins og Bjarni og Sigmundur bentu réttilega á.

Það kom ýmislegt fleira gott upp úr krafsinu í kvöld, sérstaklega þegar menn gleymdu því að skjóta skeytum að andstæðingunum. Meira að segja Ástráður náði inn einni eða tveimur athugasemdum sem voru ágætar. Síst þóttu mér þau Guðjón og Jóhanna. Guðjón talaði óskýrt á köflum og hefði getað tjáð sig um fiskveiðarnar mun betur. Jóhanna bauð upp á fátt annað en ESB og þreytta rullu um fjölda aðgerða, sem enginn vill vita af og minnti óneitanlega á forvera sinn í tilsvörum síðustu ríkisstjórnar. 

Að vísu gleymdi ég einum í upptalningunni en mig grunar, að þrátt fyrir all góða framkomu, hafi málflutningur hans ekki unnið Borgarahreyfingunni mikið fylgi. Það er erfitt að vera nýr að etja kappi við fjórflokkinn/fimmflokkinn og þarf afar öflugan einstakling til þess að marka spor í hugum kjósenda. Það verður forvitnilegt að sjá hvort honum hafi tekist að ávinna sér traust einhverra.


Ergilegt ... gengur betur næst!

Enn og aftur fara Skotar með nauman sigur, 2:1, gegn okkar mönnum. Leikurinn í kvöld var á löngum köflum hin besta skemmtun. Skotar voru aðeins meira með boltann og léku á köflum prýðilega sín á milli. Íslenska liðið var nokkurn tíma í gang en þegar á leið leiks áttu þeir í fullu tré við Skotana og segja má að sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var.

Skotarnir nýttu sér veikleikana í vörn okkar til hins ítrasta. Þeir voru sterkari í loftinu, sem gaf þeim sigurmarkið en það hve vinstri bakvörður íslenska liðsins var seinn gaf Skotum ekki einasta eitt mark heldur einnig dauðafæri og nokkur hálffæri. Það verður að teljast afar sérstakt að íslenska liðið eigi ekki fljótari mann í þessari stöðu til þess að takast á við kantmenn andstæðinganna. 

Þegar á leikinn leið virtust íslensku leikmennirnir átta sig á að þeir ættu í fullu tré við andstæðingana og síðustu 10-12 mínútur leiksins sköpuðu þeir sér alla vega tvö dauðafæri og fjölda hornspyrna sem héldu uppi nær stöðugru pressu á mark Skotanna. En að þessu sinni var heppnin ekki með okkar mönnum og því fór sem fór. Það mun líða á löngu áður en íslenskt landslið fær annað eins tækifæri til þess að láta til sín taka á úrtökumóti sem þessu, þegar lið á borð við Norðmenn og Skota virðast vera í öldudal.

Það er ljóst að Norðmenn og Skotar munu bítast um annað sætið en Íslendingar þurfa að hafa sig alla við til þess að ná i það fjórða. Það ætti að takast ef Ólafur gerir ekki sömu mistök og í þessum leik að treysta á hægan bakvörð til þess að takas á við snögga kantmenn. Eiður færði sig aftar þegar leið á leikinn og virtist njóta sín vel í þeirri stöðu. Það gaf honum færi á að leika listir sínar, skjótast fram þegar við átti, halda bolta og leita uppi samherja ef því var að skipta. Fleiri leikmenn mætti telja upp sem stóðu sig vel en liðið í heild sinni sýndi merki um að það getur velgt mörgum andstæðingnum undir uggum í framhaldinu.


mbl.is Naumur sigur Skota á Hampden, 2:1
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Múlbinding Sjálfstæðismanna

Að undanförnu hefur borið nokkuð á því að Sjálfstæðismenn megi ekki tjá sig um alls kyns mál. Það virðist samdóma álit margra að vegna hinnar pólitísku ábyrgðar sem flokkurinn ber á bankahruninu eigi alþingismenn þeirra, og jafnvel almennir kjósendur einnig, að hafa vit á því að þegja. Í hverju málinu á fætur öðru svara flokksdindlar ríkisstjórnarflokkanna (afsakið orðbragðið, en það er búið að klína þessu orði á Sjálfstæðismenn og ósanngjarnt að aðrir fái ekki að njóta svona uppnefninga einnig) gagnrýni með því að skjóta föstum smjörklípuskotum á móti.

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur ber mikla ábyrgð. Það kostaði mikil átök að koma henni á koppinn og strengd dýr heit um aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Við þekkjum umræðuna um skjaldborgina, sem hefur sýnt sig að vera hálfgerð tjaldborg. Nær helmingur ríkisstjórnarinnar var reyndar einnig í þeirri síðustu en eins og allir vita bar sá helmingur enga pólitíska ábyrgð á ástandinu. Þessi helmingur er nú hávær í því að segja Sjálfstæðismönnum að þegja í hverju málinu á fætur öðru. Ef ekki vill betur eru þeir atyrtir og kallaðir öllum illum nöfnum.

Svona er nú umræðan á Íslandi þessa dagana.


Viðkvæmnin yfir ræðu Davíðs

Það hafa margir tjáð sig um ræðu Davíðs Oddssonar á landsfundi Sjálfstæðismanna. Sumir segja að ræðan hafi yfirskyggt sjálfan fundinn, jafnvel kosninguna til formanns. Davíð Oddsson er vissulega þungavigtarmaður. Hann átti sinn þátt í að kollvarpa ríkisstjórn Geirs H. Haarde og fyrstu vikurnar í lífi núverandi minnihlutastjórnar fóru í að koma honum frá störfum úr seðlabankanum. Hann eyddi t.d. upphafsorðum ræðu sinnar í að gagnrýna þann gjörning á sinn sérstaka máta og hafa margir fyllst ógurlegri viðkvæmni yfir þeim orðum.

Margur ágætur maðurinn hefur tapað sér í atyrðaflaumnum um Davíð Oddsson á undanförnum mánuðum, jafnvel árum. Reyndar hefur það tíðkast hjá sumum pólitískum andstæðingum hans um langan aldur. Svo rammt kveður að þessu að sumir eru hættir að taka eftir formælingunum og þykir sjálfsagt að kalla hann öllum illum nöfnum og ef ekki annað gefst, að fullyrða að maðurinn sé geðbilaður. Sálarlíf margra hefur á köflum snúist um óvild í garð Davíðs Oddssonar. Eins og gefur að skilja er þetta ekki hollt en passar e.t.v. vel við áráttu margra að tala illa um náungann.

Í ræðunni á landsfundinum vék Davíð Oddsson að mörgu og mörgum. Fundarmenn höfðu sem von var nokkuð gaman að karlinum, enda er hann málsnjall og stundum fyndinn. Reyndar held ég að margir hafi saknað þess að einhver stigi upp í pontu og segði meiningu sína umbúðalaust og svöruðu andstæðingum Sjálfstæðisflokksins fullum hálsi. Hann fyllti menn eldmóð í stutta stund. Að vísu skaut hann sig í fótinn í gagnrýni sinni á samflokksmenn sína, sem gerði það að verkum að biturt bragð var af orðum hans í hugum margra Sjálfstæðismanna.

Það hefur verið skondið að heyra suma karla og konur hneykslast yfir orðræðu Davíðs. Sama fólki hefur ekki munað um að ata manninn auri hvenær og hvar sem færi gefst en fyllist nú heilögum anda yfir skammaryrðum og myndlíkingum mannsins. Hinir aðeins klárari hafa farið í þekktan svikaham, að gefa í skyn að Davíð væri ekki heill á geðsmunum, líkt og Sigurður G. gerði á útvarpi Sögu í gær, mánudaginn eftir ræðuna góðu. Það er stundum áhrifaríkt að veitast að persónum manna, líkt og hefur verið gert gagnvart Davíð um árabil. Allra best er ef hægt er að gefa í skyn að maðurinn sé klikk.

Svona baðar stór hluti Íslendinga sig í skítkasti á Davíð Oddssyni og þykir sumum sjálfsagt og eðlilegt.


Verður Bjarni Benediktsson skörungur?

Þetta fór eins og marga grunaði. Ég hefði að vísu orðið sáttur við að Kristján hefði náð kosningu, enda þykist ég sjá í Kristjáni góðan dreng og fullgildan leiðtoga. Fyrir mér er Bjarni meira spurningamerki en sé þó glitta í forystuhæfileika. Mikið hefur verið gert úr hans ætterni en erfitt að henda reiður á slíkt tal enda ómarkvisst og sérdeilis ómaklegt að kenna manninum um af hvaða fólki hann er kominn. Ef eitthvað er ætti hann að vera stoltur af ætterni sínu, líkt og flestir aðrir Íslendingar.

Hins vegar má mögulega finna að aðkomu hans að N1 og forvera þess fyrirtækis. Mér fannst t.d. sérstakt að hann sagði sig frá störfum fyrir N1 nú nýverið en á því fyrirtæki (forvera þess) hvílir myrk fortíð og nýlegar  ásakanir um að hafa stóraukið álagningu sína til þess að greiða fyrir óráðsíu undangenginna ára. En Bjarni er ungur að árum og ekki hægt að sakfella manninn fyrir syndir feðranna - nema menn telji hann e.k. uppvakningsprins Kolkrabbans sáluga.

Það sem mun skipta meginmáli er hvernig Bjarna tekst að snúa vörn í sókn. Það hefur fjarað undan tiltrúnni á Sjálfstæðisflokkinn og það mun taka tíma að endurvinna fylgið. Hvort Bjarni er maðurinn til þess að auka tiltrúna verður að koma í ljós. Ef hann gerist afdráttarlaus talsmaður þeirra gilda sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir og víkur sér ekki undan að takast á við afturhaldsöflin á vinstri vængnum kann vel að fara. En flokksins bíður seta utan stjórnar hvernig sem fer.


mbl.is Bjarni kjörinn formaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farsæll leiðtogi ...

Eitt af því sem gerir Anders Fogh farsælan leiðtoga er hve vel honum hefur tekist að leiða sinn eigin flokk og ríkisstjórnina án þess að setja sjálfan sig í sviðsljósið. Hann komst sumpart til valda í skjóli vandræðagangs hjá sósíaldemókrötum á sínum tíma en núverandi formaður þess flokks, Helle Thorning-Schmidt, hefur ekki náð vopnum sínum á undanförnum árum. Hún bíður þess að Fogh misstígi sig því mjótt er á munum í danskri pólitík á milli borgaralega blokkarinnar og vinstri manna og hefur svo verið um langan aldur. Ef Fogh heldur til starfa fyrir NATO mun draumur vinsti manna væntanlega rætast um komast að kjötkötlunum í Danaveldi, því eftirmaður hans er ekki sá leiðtogi sem Danir horfa eftir og Íhaldsmenn eiga enn langt í land með að ná fyrri vinsældum.

Fogh hefur stýrt danskri velferð farsællega um árabil. Efnahagurinn danski hefur blómstrað, atvinnuleysi minna en hefur verið um langan aldur og atvinnuvegirnir hafa fengið að dafna, þrátt fyrir ofursköttun á nær flestum sviðum mannlífsins í þessu einu mesta velferðarríki heims. Og þrátt fyrir miklar opinberar tekjur frá atvinnulífinu og annars staðar frá hafa þær í raun ekki verið nægar, því velferðin krefst sífellt aukinna útgjalda.  Má þar m.a. nefna skólabyggingar í niðurníðslu um alla Danmörk - sem ég kannast m.a. við af eigin raun. Það mun því reyna á hryggjarstykki efnahagsins í þrengingunum sem blasa við Dönum, líkt og öðrum um þessar mundir.


mbl.is Líf stjórnarinnar veltur á Fogh
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einn rannsóknaraðillinn ...

Einhverra hluta vegna grunar mig að einhverjir eigi eftir að færa fyrir því rök að norsk/franski bjargvætturinn hefði getað fengið miklu meira borgað fyrir önnur störf, annars staðar. Reyndar mun hún starfa aðallega í París að sinni rannsókn, enda algerlega ótækt að hún sé eitthvað að trufla fólk hér með nærveru sinni. Hún er líka í öðrum störfum, m.a. að vinna að framboði sínu til Evrópuþings eða einhvers álíka.

Hún er kokhraust, kerlingin, og er þegar farin að máta hengingarólarnar. Rannsókn Joly mun kosta íslenska skattgreiðendur hundruðir milljóna og einhverra hluta vegna talar hún eins og niðurstaðan sé ljós. Sem fulltrúi rauðgræns almúgans, með einungis átta þúsund evrur í mánaðarlaun, sér hún fyrir sér sigur réttlætisins og fangelsanir auðmanna. Vera hennar í París mun tryggja að hún flækist ekki fyrir öllum hinum sem einnig eru að rannsaka bankahrunið.

Allir þurfa sitt, þó svo að þeir hafi ekki endilega kaupið hennar Joly. Sérstakur saksóknari og hans rannsókn mun kosta sitt. Rannsóknarnefnd þingsins verður og dýr. Skilanefndir bankanna taka sitt. Alls kyns ráðgjöf hins opinbera einnig. Þegar allt verður talið er ekki óvarlegt að skjóta á að rannsókn bankahrunsins mun kosta okkur einhverja milljarða króna. Baugsmálsdómurinn mun flækja fyrir að sækja menn til saka og sakfella, fari mál svo langt, og heimtur úr ónefndum skattaskjólum verða rýrar.

Hvað mun svo íslensk þjóð sitja uppi með þegar öll innlend sem erlend rannsóknarkurl verða komin til grafar? Einhverjir dónar verða líklegast sóttir til saka og enn færri sakfelldir fyrir ekki mjög stórvægilegar sakir. Um restina verður rifist á póitískum vettvangi um aldur.


mbl.is Joly sérstakur ráðgjafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samviskubit Samfylkingarinnar

Það er ofarlega í huga margs Samfylkingarfólks að sýna Sjálfstæðismönnum í tvo heimana. Margir jafnaðarmenn/félagshyggjumenn hafa samviskubit yfir því að hafa farið í stjórn með því sem þeir hafa kallað höfuðandstæðing sinn, Sjálfstæðisflokkinn. Kjötkássan út kjötkötlunum bragðaðist vel, framtíðin var björt í boði nýrrar auðmannastéttar og tilefni til veisluahalda rík, heima og heiman. Fyrir þetta allt er Samfylkingin Sjálfstæðisflokknum reið.

Margir kratar ræddu um að þeir væru frjálslyndir kratar til þess að geta réttlætt velgengnina í boði markaðstengdrar útrásar. Þegar fallið kom rann upp fyrir þeim ljós. Þeir höfðu gleymt hluta sinna félagslegu róta. Það hentaði vel að geta við mótlætið skipt um andlit og ekkert sagst kannast við fyrri verk eða skoðanir. Þannig hefur fráfarandi formaður viðurkennt að hafa ekki verið hugsjónum sínum trú, hún hafi í raun verið keypt í stólana fyrir lítið fé.

Þegar Samfylkingin var í stjórn með Sjálfstæðismönnum lofuðu margir óspart hið frjálslynda eðli sitt. Hinir biðu í fýlu og gripu tækifærið þegar foringinn greindist veikur, samhliða bankahruninu, og gerðu uppreisn. Upp úr innra hruni Samfylkingarinnar spratt upp félagshyggja sem nú leitar til vinstri í átt til rauðgrænra sem enn trúa á fjallagrasahagfræði. Það verður forvitnilegt hvernig hinum félagshyggjusinnuðu jafnaðarmönnum tekst að vinna með hinu rauðgræna afturhaldi.

Eftir kosningar mun núverandi minnihlutastjórn mynda meirihlutastjórn en sú stjórn verður ekki mjög langlíf. Nðurskurðarverkefni næstu missera munu reynast henni um megn og hinn frjálslyndi armur Samfylkingarinnar mun uppgötva að fjallagrasahagfræðin mun ekki reisa við íslenskan efnahag, hvað þá velferðina.


mbl.is Áhersla á jafnréttismál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tæpara mátti það ekki standa - til hamingju KRingar

Það fór eins og Keflvíkingar sögðu - þeir mættu arfavitlausir til leiks og KRingar þurftu að hafa siga alla við til þess að halda í við Íslandsmeistararana allt fram á síðustu stundu. Það hlýtur að vera afar sérstakt að fjórar framlengingar hafi þurft til þess að knýja fram úrslit en þrátt fyrir allt hljóta KRingar að vera vel að þessum sigri komnir.

Mínir menn þurfa að öllum líkindum að mæta Grindvíkingum í úrslitum en um úrslit í þeirri viðureign er erfitt að spá. Þó verður að telja KRinga sigurstranglegri en þá þarf líka allt að ganga upp í herbúðum Vesturbæjarveldisins. Sérstaklega í vörninni.


mbl.is KR sigraði eftir fjórar framlengingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægasta ræða Geirs H. Haarde ...

Nú, þegar sér fyrir endann á pólitískum ferli Geirs H. Haarde, stendur hann frammi fyrir mikilvægustu ræðu sem hann hefur þurft að flytja á sínum pólitíska ferli. Ef vel tekst til getur hann að nokkru rétt sinn hlut og jafnframt skotið stoðum undir e.k. endurkomu flokksins, þó svo að ekki standi honum það til boða í næstu kosningum. Það verður að teljast gott ef flokkurinn nær upp undir 30% fylgi en hvernig sem á málin verður litið var Geir skipstjórinn í brúnni þegar skipið strandaði.

Undir niðri kraumar evrópusambandsmálið og þó svo að meirihluti Sjálfstæðismanna er ekki hlynntur ESB-aðild, þá eru þeir sem þangað vilja inn þegar komnir í skotgrafirnar og hafa í hótunum. Málflutningur þeirra minnir um margt á trúboð. Reyndar er fólk í báðum fylkingum tilbúið til þess að hverfa úr flokknum, fari ESB-málin á aðra lund en þeim líkar. Þar á meðal ég.


mbl.is Landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefst í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband