18.4.2009 | 20:12
Íslensk fyrirtæki í helgreipum norska seðlabankastjórans
Norski seðlabankastjórinn heldur því blákalt fram að fara verði varlega í vaxtalækkanir vegna þess að ella geti farið illa, að hér verði að forðast þenslu. Gefum okkur það að hann hafi að nokkru rétt fyrir sér, að hraðari lækkun vaxta geti mögulega valdið þenslu. Það er vitað mál að við slíkar aðstæður skapast m.a. þrýstingur á verðbólgu en það viljum við forðast við núverandi aðstæður, ekki er á það bætandi að seðlabankinn stuðli að frekari vísitöluhækkunum en orðið er og hækkunum fasteignalána við aðstæður þar sem fasteignaverð hríðlækkar.
Berum svo saman möguleg slæm þensluáhrif við þann afarkost sem fyrirtæki landsins og heimili búa við í vaxtamálum. Það er hverjum manni ljóst að íslensk fyrirtæki eru að sligast undan háum fjármagnskostnaði, einungis stjórnvöld virðast ekki gera sér grein fyrir því hve alvarleg staðan er orðin hjá hundruðum, líklegast þúsundum fyrirtækja. Ef svo fer fram sem horfir munu þúsundir Íslendinga missa vinnuna til viðbótar þeim sem þegar eru í atvinnuleit, einungis vegna hárra stýrivaxta. Er það miðað við þessa slæmu stöðu sem stjórn seðlabankans ber saman sínar vaxtaákvarðanir og segir að ekki megi fara of geyst í lækkun stýrivaxta?
Það liggur fyrir að hefðbundnir þensluvakar í íslensku atvinnulífi eru fyrir margt löngu uppurnir. Gengið er í raun sá þensluvaki sem eftir stendur, auk sjálfra vaxtanna. Hinum háa fjármagnskostnaði verða fyrirtækin með einum eða öðrum hætti að velta út í verðlagið og neytendur borga brúsann - sem felur jú í sér að hinir háu stýrivextir viðhalda að nokkru sjálfum sér. Hinir háu stýrivextir eru því í reynd innbyggður þensluvaki.
Sem sagt, við núverandi aðstæður stuðla hinir háu stýrivextir að tvennu: Annars vegar að fjölga fyrirtækjum á leið í þrot og hins vegar að hærra verðlagi í gegnum aukinn fjármagnskostnað fyrirtækja. Þennan veruleika metur seðlabankinn sem svo að sé ásættanlegri niðurstaða en að hætta á að þensla skapist á ný á Íslandi. Ekki einast átta ég mig ekki á orðum eða sýn seðlabankastjórans, maður hlýtur að setja stórt spurningamerki við hæfi mannsins og þeirra sem með honum starfa.
Hinn erlendi sérfræðingur í Svörtuloftum er hér á vegum ríkisstjórnarinnar. Það er því á ábyrgð hennar að hér er viðhaldið vaxtastigi sem er að sliga íslenskt atvinnulíf og tefla í tvísýnu störfum þúsunda Íslendinga. Endurreisn íslensks atvinnulífs getur ekki orðið nema hér verði rekin trúverðug og endurbætt peningamálastefna. Íslensk fyrirtæki eru í hengingaról allt of hárra stýrivaxta. Þjóðin getur m.a. þakkað það Jóhönnu og Steingrími, sem fengu til landsins erlendan sérfræðing, sem telur að hröð lækkun stýrivaxta geti valdið hér þenslu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
16.4.2009 | 19:55
Rauður kinnhestur í boði ...
Í ljósi þess hve kosningabaráttan er stutt og fá tækifæri til þess að heyra í öðrum fulltrúum VG en þrælvönum leiðtogum þeirra gæti svo farið að þeir héldu í stóran hluta þessa fylgis. Fjölmargt ungt fólk fylkir sér að baki róttækni hins femeníska rauðgræna framboðs og forvitnilegt að heyra upp á nýtt fjölmarga frasa aftan úr grárri forneskju stéttabaráttunnar og í boði hugmyndasmiðju Komintern. Einhverjir gætu sagt að kapitalistasvínin hafi séð til þess, ekki satt?
Steingrímur er vel til þess fallinn að setja málatilbúnaðinn í hæfilega settlega umgjörð enda ber kosningabarátta flokksins það með sér að ímyndarsérfræðingarnir hafi staðið sig framúrskarandi vel. Forystan veit það núna að ekki borgar sig að flíka um of sínum róttæku stefnumálum, það kom flokknum í koll síðast. Og Katrín mun ugglaust ekki láta hafa eftir sér á ný að lækka eigi laun opinberra starfsmanna, samhliða því að hækka á fólk skattana.
Samfylkinging svífur um á sína rósrauða skýi og horfir fram á að hennar helst draumur verði að veruleika. Henni mun eflaust verða að ósk sinni, enda er Sjálfstæðisflokkurinn hálf lamaður og ekki líklegur til stórræðna - einna helst að hann gæti náð í stöku samúðaratkvæði. Fjölmargt gott fólk er í framvarðasveit þess flokks að þessu sinni en næsta víst að þau muni mæta smjörklípum, hvar sem í þeim heyrist.
Þjóðin undirbýr sig af kappi að gefa rauðri sveit karla og kvenna stjórnartaumana. Frjálslynd öfl innan Samfylkingarinnar hafa einungis eitt fram að færa; að ganga Brussel á hönd. Það er hinn draumurinn sem kratarnir hafa. Að öðru leyti eru þeir margir uppteknir af því að skammast út í sjálfstæðismenn, því þeir liggja svo vel við höggi. Þeir voru einungis áhorfendur í síðustu ríkisstjórn og bera því enga ábyrgð.
Auglýsingastofan, sem stýrir kosningabaráttu þeirra stendur sig prýðisvel, henni mun eflaust takast að sýna styrk flokksins án þess að flokkurinn þurfi að takast á við eitt einasta kosningamál. Á meðan eru Framsóknarmenn að reyna af fremsta megni að sýna þjóðinni fram á að það verði að taka á aðsteðjandi vanda heimila og fyrirtækja, en fáir hlusta - alla vega ekki núverandi stjórnarflokkar. Einna helst að sjálfstæðismenn taki undir nauðsyn þess að aðgerða er þörf.
Þjóðin mun því verðskulda rauðan kinnhest að loknum kosningum og spurning hvort ekki megi að nokkru kenna bláu höndinni um ... en rauður verður hann og það mun svíða lengi undan þessari rauðu stjórn.
VG í sókn - Samfylking stærst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2009 | 22:42
Kosningarnar eru rétt handan hornsins
Kosningarnar sem framundan eru verða þær sérstökustu í manna minnum. Það er í raun sama hvar drepið er niður fæti, þjóðlífið allt hefur tekið stakkaskiptum. Í heimi stjórnmálanna hafa markalínurnar skerpst mikið frá fyrri tíð og ef að líkum lætur færst frá hægri til vinstri. Í ljósi bankahrunsins og þrenginga í efnahag hér heima og í heiminum öllum hafa gamlar hugsjónir fengið vængi, sem dauði milljóna manna undir járnhæl kommúnismans, fékk ekki grandað. Róttæknin blómstrar svo minnir á gamla tíð.
Það er ef til vill vel að helsta vígi borgaralegra afla á Íslandi, Sjálfstæðisflokkurinn, sé laskað. Eftir langa og samfellda valdasetu hefur hann sumpart orðið fórnarlamb varnaðarorða frjálshyggjunnar um að vald spillir. Fjölmargir í framvarðasveit flokksins urðu veisluglaumnum og velgengninni að bráð. Reyndar hafði flokkurinn ávallt velmeinandi fólk úr öðrum stjórnmálaflokkum með sér í ráðum, sem sumt hvert kannast nú ekki við sín fyrri verk. En það er jú þannig sem stjórnmálin verða stundum.
Hvort sem menn vilja læra af mistökum sínum, eður ei, verður ekki framhjá því litið að stundum er hægt að spila á lýðinn og fjölmiðlana. Á það treysta stjórnmálaflokkar stundum og í því sambandi vert að vísa í kosningabaráttu Samfylkingarinnar að þessu sinni. Fyrir kosningarnar árið 2007 gagnaðist það Sjálfstæðisflokknum og nýjum formanni að spila á lýðinn með hjálp auglýsinga- og markaðsfræðinga, þó svo að Samfylkingin hafi allan líftíma sinn treyst flokka mest og best á slík fræði. Vinstri græn munu spila vel úr sínum spilum í ímyndunarfræðunum enda er flokkurinn óðum að þroskast.
Framsókn býður upp á afar hreinskipta og allt að því barnalega aðferðafræði í nálgun sinni við kjósendur að þessu sinni - með því að segja þeim nánast sannleikann. Það kann sjaldnast góðir lukku að stýra, líkt og Sjálfstæðisflokkurinn fékk að reyna í kosningunum árið 1978, þegar þeir vildu takast á við verðbólguna með leiftursókn. Kjósendur þurfa að nokkru að gera upp á milli auglýsingastofa flokkanna en þó ætla ég að t.d. Sjálfstæðisflokkurinn verði óvenjulega lítillátur að þessu sinni. Ætli það muni ekki gagnast honum best.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.4.2009 | 09:54
Hinn blaktandi rauðgræni fáni skrílsins
Til þessa hefur hústökulið á Íslandi aðallega verið rónar, eiturlyfjasjúklingar og annað ógæfufólk sem hefur um skemmri eða lengri tíma komið sér fyrir í niðurníddum kofum í miðbæ Reykjavíkur. Hústökulið af því tagi sem við sáum á Vitastígnum er af öðrum toga. Þeir einstaklingar, sem hafa sökum fíknar sinnar misst frá sér líf sitt og reisn, eiga lítið skylt með þessu unga fólki sem sannarlega má líkja við skríl. Fíkn eiturlyfjaneytandans hefur rænt hann lífi sínu og heilbrigðu vit, afsökun þessa fólks er af öðrum toga.
Hústökufólkið þykist hafa vit, margt hvert í háskóla að fóðra sínar róttæku hugsanir. Þetta er fólkið sem leiddi búsáhaldabyltingu Vinstri grænna hér á dögunum. Þessi skríll á sér systur og bræður úti í hinum stóra heimi, sem fer um með arabaklúta á höfðum og eldsprengjur í hönd þegar mótmæla er þörf. Með hjálp íslenskra fjárglæframanna hefur verið blásið lífi í frasana frá dögum Komintern á ný. Áþrykktar myndir af Che Guevara, manninum sem byggði upp þræla- og fangabúðir á Kúbu, prýða klæðnað skrílsins ásamt með steyttum hnefa byltingarinnar.
Orðfæri þessa reiða fólks er varðað lærðum frösum úr smiðju alræðisafla tuttugustu aldar. Á meðan eiturlyfjasjúklingurinn reynir að verða sér úti um næsta skammt fer hústökulýðurinn með slagara úr fortíð sósíalismans. Á meðan eiturlyfjasjúklingurinn þarfnast staðar til þess að geta hallað sínu höfði í friði frá skarkala umheimsins vill skríllinn á vegum Vinstri grænna taka lögin í sínar hendur, hrópandi byltingarkennda uppvakninga. Það á vel við hið forna máltæki að vont sé þeirra ranglæti en verra þeirra réttlæti.
Lögregla rýmir Vatnsstíg 4 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.4.2009 kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (83)
11.4.2009 | 18:20
Steingrímur Hermannsson genginn í Framsókn á ný
Ég leit snögglega yfir greinina hans Steingríms Hermannssonar í kosningableðli Framsóknarflokksins. Mér þótti merkilegt að hann væri farinn að tjá sig fyrir hönd síns gamla flokks, grunaði á tímabili að hann væri jafnvel genginn úr honum. Sonur hans er nýlega uppáskrifaður í flokknum, eftir að hafa ratað inn á lista hjá Samfylkingunni á tímabili. Feðgarnir eru sem sagt komnir heim í heiða dalinn, komnir heim til mömmu.
Framsókn bar á brjóstum sér samvinnuhreyfinguna, eða var það e.t.v. öfugt? Hugsjónir þær sem ýttu þeirri hreyfingu úr vör voru löngu gleymdar og grafnar þegar Steingrímur réði ríkjum í flokknum en ég man ekki eftir að hann eða aðrir framsóknarmenn á þeim tíma hefðu mikið út á fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar að athuga, né arftökum þeirra sem þar réðu ríkjum og náðu fótfestu síðar í íslensku viðskiptalífi í gegnum kaupin á Búnaðarbankanum og fleiri fyrirtækjum.
Steingrímur Hermannsson var ófeiminn við vegtyllur í formi embætta, en hann varðaði áralanga röð framsóknarmanna í Seðlabankann. Þegar menn fara mikinn og saka sjálfstæðismenn um þaulsetningu embætta þá er ekki úr vegi að opna augu sömu manna fyrir því að framsóknarmenn voru á árum áður sagðir manna duglegastir við að koma sínu fólki til valda. Í ofanálag er vert að geta þess að kratar og aðrir gæðingar félagshyggjunnar sitja að feitum embættum vítt og breytt um kerfið - og þykir ekki leiðinlegt. Og ef ekki vill betur eru þeir geymdir í ýmsum deildum háskólanna og ávallt til reiðu þegar þarf að gefa "óháð og fagmannleg" sérfræðiálit.
Það kann að vekja litla eftirtekt hjá mörgum að Steingrímur afneitar frjálshyggjunni, eins og nú er vinsælt. Reyndar hefur Steingrímur ávallt viljað kenna sig við félagshyggju. Hann hefur verið sjálfum sér samkvæmur í því. Hins vegar kann það að skjóta skökku við þegar hann og sumir aðrir tala um hina blönduðu leið hagstjórnarinnar. Með því eiga þeir væntanlega við að atvinnulífið helgist sumpart eða all nokkuð af markaðsöflum, til þess m.a. að kosta velferðarkerfið. Hann vill sem sagt einhvers konar samvinnu á milli félagshyggju og frjálshyggju.
Þannig er það nú með stjórnmálaskoðanir okkar flestra. Þær eru sambland af þessu tvennu. Þegar argast er sem mest út í frjálshyggjuna hafa menn ekki einasta greint sumar orsakir hrunsins alrangt, heldur opinbera þeir fákunnáttu sína um þá hyggju sem lagði grunninn að stjórnarskrám Vesturlanda. Ef menn ætla að dæma frjálshyggjuna dauða vegna þess að í mannheimi þurfa að gilda reglur, en ekki frumskógarlögmál, gætu þeir allt eins dauðadæmt félagshyggjuna, vegna kommúnisma eða sósíalisma (eða fasisma og þjóðernissósíalisma).
Steingrímur veit sem er, að án frjálshyggju væri samfélag okkar dæmt til afturhalds. Hann veit, líkt og frjálst hugsandi menn, sem hann agnúast út í, að almennar, opnar og sanngjarnar leikreglur um samskipti manna og félaga eru grundvöllur að farsælu samfélagi - þessa hugsun frjálshyggjunnar reynir hann að eigna sér og hann talar fjálglega um frelsi og velferð, líkt og það séu samheiti félagshyggju. Hann telur sig geta haldið á lofti þessari ambögu í ljósi þess andrúmslofts sem skekur nú stjórnmálin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.4.2009 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2009 | 12:25
Getur það versnað mikið meira hjá Sjálfstæðisflokknum?
Á undanförnum misserum hafa forystumenn í Sjálfstæðisflokknum sýnt skort á dómgreind í ýmsum málum. Á pólitíska sviðinu hafa þeir sumir slegið feilnótur, svo eftir hefur verið tekið. Nægir þar að nefna hvernig fyrrum fjármálaráðherra, Árni Matthíessen, hélt á málum gagnvart ljósmæðrum og eins aðkoma fyrrum dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, að málefnum sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli. Þessi mál sýndu berlega hve illa þeir voru í stakk búnir til þess að vinna málstað sínum fylgis.
Fleiri mál varða þessa tvo fyrrum ráðherra og e.t.v. alvarlegri, t.d. embættisveitingar í dómarasæti. Vera má að fjölmiðlar hafi sýnt óbilgirni, t.d. í tilfelli sonar Davíðs, en maður spyr sig hvort þessir menn hafi ekki séð það fyrir. Var stjórnmálavitund þeirra svo blinduð að þeir áttuðu sig ekki á hve málið var eldfimt? Var eintaklingurinn, sem dómaraveitingin snerist um, svo miklu fremri hinum, að það réttlætti að takast á við pólitískt moldviðri? Þóttust menn svo öruggir í sínum háu stólum, að það tók því varla að taka mark á gagnrýni?
Hin langa valdaseta Sjálfstæðisflokksins sannaði það sem frjálshyggjumenn hafa löngum bent á, þ.e. að valdið spillir, en um það þarf ekki að efast. Hins vegar má segja að stjórnarseta flokksins hafi um langt skeið einkennst af því að losa um þær krumlur sem ríkið hafði á atvinnulífi landsmanna. Það fól m.a. í sér sölu alls kyns ríkisfyrirtækja og ekki síst sölu ríkisbankanna. Þessi stefna naut fylgis langt út fyrir raðir Sjálfstæðismanna enda vel studd af Framsókn og Samfylkingu, með einhverjum smávægilegum undantekningum þó.
Það hefur verið sótt að Sjálfstæðisflokknum á seinustu misserum úr fleiri áttum en hann hefur þurft að glíma við áður. Undir forystu Davíðs Oddssonar var lagður grunnur að langri stjórnarsetu með sterkan leiðtoga. Andstæðingar flokksins reyndu lengi vel að veitast að hinum sterka foringja, persónu hans og stjórnarstíl og fengu til liðs við sig öflugasta fjármálaveldi Íslands undir forystu Jóns Ásgeirs. Segja má að Sjálfstæðisflokkurinn hafi komist sæmilega frá þeim átökum, eftir að Davíð var horfinn úr brúnni og við tekinn einstaklingur með mildari og vinalegri ásjónu. Þjóðinni líkaði það vel og nýi skipstjórinn fiskaði vel í næstu kosningum.
Velgengni Sjálfstæðisflokksins hefur kennt forystumönnum hans ýmsa ósiði. Þeir eru að vísu all margir að hverfa að sjónarsviðinu en þeir hafa skilið eftir sig syndir sem hinn nýi formaður erfir og mun verða honum og flokknum til trafala í kosningunum. Eftir uppgjörið á landsþinginu vonuðust sumir til þess að hægt væri að snúa vörn í sókn. Nú hefur komið á daginn að sú von var reist á sandi. Siðleysið sem hefur viðgengist í Valhöll mun endanlega tryggja það að flokkurinn bíði afhroð í kosningum 25. apríl næstkomandi.
Fjölmörgum stuðningsmönnum er brugðið. Það hefur löngum verið vitað að Sjálfstæðisflokkurinn eigi velvildarmenn í atvinnulífinu en fæstir hafa ímyndað sér styrkveitingar af því tagi sem nú er komið í ljós að hafi viðgengist fyrir ekki löngu síðan. Þessu sama fólki er lítil þægð í því að vita af óeðlilegum styrkveitingum til annarra flokka, sem næsta víst er að hafi einnig átt sér stað, en e.t.v. ekki í sömu upphæðum. Þessi stóri hópur manna lætur ekki bjóða sér hvað sem er.
Ef hinum nýja formanni tekst ekki að hreinsa til innanbúðar er hætta á að skörð verði höggvin í kjarna Sjálfstæðisflokksins. Hver veit nema hugur margra muni standa til þess að stofna nýjan hægri flokk. Um daginn hélt Styrmir Gunnarsson því fram að Sjálfstæðisflokkurinn væri miðjuflokkur. Er þá ekki kominn tími til að stofna hægri flokk? Í því hugmyndafræðilega moldviðri sem félagshyggjuöflin nærast nú á þarf að rísa öflugur málsvari þeirra hugmynda sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um lengst af í sinni sögu. Mun forysta flokksins standa undir þeim væntingum?
Landsbankinn veitti 2 styrki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.4.2009 | 10:59
Sjálfstæðisflokkur og Bjarni Benediktsson í vanda
Styrkirnir til Sjálfstæðisflokksins taka á sig æ verri mynd fyrir þá endurreisn sem flokknum er nauðsynleg, til þess að endurvinna traust hjá kjósendum. Nýi formaðurinn reynir hvað hann getur til þess að lágmarka skaðann en eftir því sem fram vindur tekur málið allt á sig sorglegri mynd. Ekki einasta er fyrrum formaðurinn, Geir H. Haarde, flæktur í málið, heldur er leiðtogi flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæmanna og fyrrum borgarfulltrúi einnig á bólakafi í því.
Menn þurfa ekki að vera andstæðingar Sjálfstæðisflokksins til þess að hvá við og setja málið í búning spillingar og samsæra. Hins vegar er það ábyrgðarhlutur að ætla mönnum beinlínis að þeir hafi verið keyptir til atkvæða. Varðandi REI málið þá vissi ég ekki betur en að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi verið á meðal þeirra sem stöðvuðu það mál. Fram að því voru allir flokkar þátttakendur, á einn eða annan máta. Var ekki t.d. bent á að Framsóknarflokkurinn væri á kafi í því máli?
Guðlaugur Þór er sagður fylginn sér í pólitík og hér sannast að maðurinn er duglegur í fjáröfluninni. Hann hefur væntanlega þurft að treysta á fjölmarga til þess að kosta sína baráttu upp hinn pólitíska metorðalista. Reyndar fannst mér hann standa sig afar vel sem heilbrigðisráðherra í tíð fyrri ríkisstjórnar - hann virtist hafa það þor sem nauðsynlegt er til þess að takast á við heilbrigðiskerfið og þau hagsmunaöfl sem ráða þar för og teygir anga sína um allt.
Bjarni Benediktsson þarf síst á þessu að halda í þeirri erfiðu vegferð sem hann og flokkurinn eru í. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram að bjóða pólitík sem vert er að taka eftir við núverandi aðstæður. Sú heilbrigða skynsemi og trú á einstaklinginn sem einkennir hugarfar margra sjálfstæðismanna er öllum nauðsynleg til þess að á ný skapa nýjan atvinnugrundvöll. Uppbyggingin mun ekki verða reist á skattheimtu, þó svo að um stundarsakir verði nauðsynlegt að grípa til sterkra félagslegra aðgerða.
Til frambúðar mun einungis heilbrigð frjálshyggja byggja þetta land upp á ný og skapa grundvöll til þess að vinna gegn pólitískri rétthugsun og yfirtöku sérfræðinganna ...
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.4.2009 | 19:49
Óæskilegt að taka við svo háum fjárframlögum
Þetta háa framlag FL Group til Sjálfstæðisflokksins er ekki með öllu eðlilegt. Hvernig menn fóru að því að réttlæta þetta hjá þeim sem stóðu að baki þessari ákvörðun skil ég ekki. Eitt er að styrkja stjórnmálaflokka, annað er að allt að því kaupa sér herbergi í Valhöll. Svona stór upphæð vekur upp spurnigar um spillingu og vont siðferði í röðum FL Group en jafnframt auðsveipan vilja af hálfu stjórnenda innan Sjálfstæðisflokksins gagnvart sömu aðilum. Þótti það eðlilegt þar á bæ að taka við svo hárri upphæð?
Það er reyndar sérkennilegt að fyrirtæki að nokkru eða miklu í eigu Baugs skuli vilja styrkja Sjálfstæðisflokkinn með þessum gjalfmilda hætti. Að vísu var Davíð Oddsson kominn í Seðlabankann en hann var jafnvel enn að skjóta föstum skotum að Baugsveldinu á þessum tíma, sbr. tilvísanir í Enron málið. M.a. vegna orða Davíðs þótti sumum sem Sjálfstæðisflokkurinn stæði enn að baki meintri aðför að Baugsfeðgum en ef þetta reynist rétt hefur Jón Ásgeir alla vega ekki talið svo vera.
Manni kemur ekki í hug mál, þar sem FL Group naut sérstakrar fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera en ef svo var er sjálfsagt að einhver leiðrétti mig, mér og öðrum til upplýsingar. Ef hægt er að benda á slíkt lítur það hvorki vel út fyrir valdamenn í Sjálfsstæðisflokknum né stjórnendur FL Group. Þær reglur sem um styrkveitingar til stjórnmálaflokkanna gilda voru og eru nauðsynlegar til þess að fyrirbyggja að fjársterkir aðilar geti með fjárframlögum haft áhrif á stjórnmálin. En vitanlega er hægt að hafa áhrif á stjórnmálamenn með margvíslegum öðrum hætti en með fjárframlögum.
30 milljóna styrkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.4.2009 | 19:50
Hin sjálfhverfa sýn íslenskra jafnaðarmanna
Ég þreytist seint á að benda á hve mér þykja kratar sjálfhverfir og sjálfbirgingslegir. Nú er það ekki svo að kratar séu einir um að þykja sínir fuglar fagrir eða að þeirra skoðanir toppi skalann. Langt í frá. Hins vegar er það með eindæmum þegar þeir kafa dýpra í leitinni að grunni stjórnmálaskoðana sinna. Þá er eins og slái út í fyrir mörgum jafnaðarmanninum, hann sjálfhverfist og gerist mærðarlegur, jafnvel svo að hann kemst við yfir eigin ágæti.
Það er ekki til betra klapplið en sjálfumglaðir jafnaðarmenn, sem að vísu voru fyrir stuttu flestir frjálslyndir en hafa uppgötvað nýverið félagshyggjustrenginn í sér. Reyndar skilja þeir ekki, fremur en margur annar, að við erum öll með tilhneigingar til frelsis og félags, bara í misjöfnum skömmtum. Samkvæmt þessu hlutfalli röðumst við flest eins og baunir á litrófsbandið á milli frjálshyggju og félagshyggju.
Vegna þess hve krötum líkar svo vel við sig er þeim og í mun að aðrir deili þeirri skoðun sinni. Enn og aftur eiga þeir þetta sammerkt með flestum öðrum. Íslenskir jafnaðarmenn vilja vinna að framgangi sinna baráttumála en í ofanálag bætist að þeir skilja stundum ekki hvers vegna aðrir sjá ekki ljósið sem lýsir þeim. Hugsjónir þeirra og lífsviðhorf þykir þeim svo íðafagurt að þeir skilja ekki af hverju aðrir taka ekki undir þeirra sjónarmið.
Sósíalistar á árum áður - og ef til vill enn - vour raunsærri. Þeir voru sjaldnast að klappa sjálfum sér á bakið fyrir að vera svona ofboðslega góðhjartaðir. Reyndar leiddist þeim á köflum mærðin í krötunum enda litu þeir nú svo á að þeir væru svikarar við hinar sterku félagshyggjuhugsjónir sem grundvölluðust á stéttabaráttu og átökum við borgaralegu öfl. Kratar vildu vera vinir til vinstri og hægri og það kom sér stundum vel fyrir þá og tryggði þeim á köflum embætti og vegtyllur.
Vegna þess hve jafnaðarstefnan sjálfhverfist í kringum fagurleit fyrirheit um eigið ágæti er þeim sem aðhyllast þá stefnu í mun að líta vel út í augum almennings - ekki bara þeirra sem kjósa þá. Þeir eru því manna gjarnastir til þess að elta skoðanakannanir eins og tískudrós eltir tískuna. Þess vegna, m.a., geta þeir verið hneykslaðir yfir sjálfstæðismönnum þessa dagana en gert hosur sínar rauðgrænar (!) fyrir vinstri grænum.
Einu sinni var Samfylkingin sætasta stelpan á ballinu. Nú vill hún vera sú vinsælasta og hún hræðist ekki nokkuð meira en að missa þá vegtyllu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.4.2009 | 12:57
Er Ólína Þorvarðardóttir einungis flokksdindill Samfylkingarinnar?
Er ekki dæmigert að fulltrúi Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, skuli ekki vilja ræða málefnalega um hugmyndir Framsóknar og Tryggva Þórs Herbertssonar. Lýðskrum fulltrúa Samfylkingarinnar er áberandi þessa dagana. Þeir kannast ekki við að hafa verið í ríkisstjórn Geirs H. Haarde og jarma söng óánægjuradda samfélagsins, að ekki sé nú talað um að taka undir og breiða út níðið sem um Sjálfstæðisflokkinn og stuðningsmenn hans er dreift dag hvern.
Ef ekki vill betur láta fulltrúar Samfylkingarinnar sig ekki muna um að ata persónur manna auri, halda uppi rógburði og gróusögum og ef allt um þrýtur ljúga upp á menn. Fræðingurinn Ólína er góður Samfylkingarmaður og trú hinum "nýju gildum" síns flokks. Af alkunnri vinstrimennsku er henni bæði ljúft og skylt að hafna úrræðum sem gætu falið í sér að einhverjir högnuðust. Þó svo að hægt væri að sýna fram á að allir högnuðust má ekki til þess hugsast að hinir betur settu fái einnig hluta af kökunni.
Það er eins og vinstri menn átti sig ekki á valdi sínu þessa dagana. Þeir láta eins og sá sem kann ekki að taka sigri. Það er samhljómur fyrir samfélagslegum úrræðum og hægri menn eru reiðubúnir til þess að fallast á slíkt - alla vega tímabundið. Vinstri menn hafa ráð þjóðarinnar í hendi sér en beita margir kröftum sínum í að atyrðast út í allt og alla sem tengjast Sjálfstæðisflokknum.
Hinir "lýðræðissinnuðu" vinstrimenn ætla sér ekki að taka tillit til hægri manna. Það eru mistök, ekki bara fyrir þá, heldur þjóðina alla. Sú frjálshyggja sem umlykur hugmyndafræði hægri manna er nauðsynleg til langframa fyrir hag þjóðarinnar. Að sama skapi má segja að hæfileg félagshyggja sé og nauðsynleg, enda eru þessar hyggjur háðar hvor annarri. Þessu gleyma menn í hvirvilvindi núverandi ástands.
Án frjálshyggju væru ekki einu sinni til stjórnarskrár Vesturlanda.
Yfir 1000 hafa sótt um greiðsluaðlögun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)