Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Eiga lífeyrissjóðirnir einnig að leggja fé til uppbyggingar?

Hið mikla verðfall á eignum lífeyrissjóðanna hefur, eins og gefur að skilja, komið misjafnlega niður á sjóðunum. Hinn mikli vöxtur eignanna undanfarin ár vó að miklu leyti upp fallið í haust en þó ekki nægilega til þess að viðhalda skuldbindingum þeirra allra. Forvitnilegt væri nú að skoða hvaða sjóðir hafa staðið sig betur en aðrir og hvað mögulega liggi þar að baki. Einnig hvaða fjárfestingastefnu stjórnir sjóðanna sjá fyrir sér að fylgt verði á næstu árum.

Lífeyrissjóðir eru öðrum þræði fjárfestingasjóðir og eins og gefur að skilja ættu menn ekki að sækja í mjög áhættusamar fjárfestingar fyrir sjóðsfélaga. Nú er komin upp sú staða að tiltekin stjórnmálaöfl ætlast til þess að arður fjárfestinga verði settur út í atvinnulífið á ný. Að menn afsali sér rétti sínum til arðgreiðslna af því fé sem sett er í fyrirtækin. Getur verið að þetta eigi einnig við um lífeyrissjóðina, að þeir afsali sér arði af sínum fjárfestingum?

Hugsunin um að arður renni nær óskertur til uppbyggingar kann einhverjum að þykja göfugt og jafnvel sjálfsagt við núverandi aðstæður. En maður spyr sig hvort nýir fjárfestar fáist til þess að leggja fé af mörkum við slíkar aðstæður. Verður nýjum fjárfestum lofað gulli og grænum skógum síðar eða eiga þeir að reiða fé fram án vonar um að fá af því rentur? Ætli færi ekki fyrir þeim eins og mér, að féð yrði lagt inn á banka og fengið af þeim litlar en öruggar rentur.


mbl.is Lífeyrisréttindi skerðast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áreiðanleiki Eddu Rósar og hinna hagfræðinganna

Af einhverjum ástæðum hefur Edda Rós ágætan aðgang að fjölmiðlum ásamt með öðrum helstu hagfræðingum greiningardeilda gömlu bankanna. Þegar rætt er um bága stöðu bankanna misserin fyrir hrunið hlýtur það að vekja eftirtekt að Edda Rós og aðrir talsmenn viðskiptabankanna komu óspart fram í fjölmiðlum til þess m.a. að réttlæta hátt gengi hlutabréfa, sem haldið var uppi með svikráðum og brellum.

Greiningardeildir bankanna voru helstu áróðursmaskínur bankanna um langt skeið. Þær renndu stoðum undir áreiðanleika stjórnenda bankanna og fulltrúar þeirra, þar á meðal Edda Rós, kvittuðu í fjölmiðlum fyrir gengi þeirra í himinhæðum. Lærðar ræður voru fluttar í fjölmiðlum og prófgráður þeirra voru sem stimpill á gæði orða þeirra og þar með starfsemi bankanna sem þeir störfuðu hjá.  Nú virðist þetta allt gleymt og greiningarhæfni þeirra nýtt á ýmsum vettvangi.

Það getur ekki verið að ég sé einn fárra sem þykir þetta sæta nokkrum tíðindum.


mbl.is Evran er ekki töfralausn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flokksdindlar ríkisstjórnarinnar

Þegar sumir segja að það þurfi að fara varlega í vaxtalækkanir sökum óvissunnar og bæta jafnvel við að ef það sé ekki gert geti verr farið en ella, veit ég ekki hvað fólk á við, satt best að segja. Hávaxtastefna seðlabankans, sem var svo gagnrýnd á sínum tíma, er enn við lýði þrátt fyrir að skipt hafi verið um ríkisstjórn, ný lög um seðlabankann samþykkt og persónugervingi hrunsins, Davíð Oddssyni, vikið úr starfi. Hvað er þetta verra sem getur gerst, spyr maður sig, en að fyrirtækin og heimilin leggist á hliðina.

Menn hljóta að vera á einhvers konar lyfjum að telja að gjaldþrot heimila og fyrirtækja í landinu vegi minna en einhver önnur sjónarmið. Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar eru réttnefndir flokksdindlar í þessu máli. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að verðbólgan er á hraðri niðurleið, þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun allra síðustu vikna. Eldsneyti efnahagslífsins til verðhækkana er löngu þrotið, að gengisþróuninni slepptri. Fyrirtækin hafa ekki efni á því að bíða eftir varfærni seðlabankans. Fólkið í landinu skilur ekki svona vinnubrögð.


mbl.is Talsvert dregur úr verðbólgu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón, skýrðu það hvernig VSB getur boðið í nb.is

Jújú, vera má að Jón hafi rétt fyrir sér. Það er þó háð því að VBS fái bankann á einhverjum spottprís en einnig hinu að þeim takist að fjármagna kaupin. Þeir eiga ekki fé sjálfir - eða það hlýtur að vera ástæðan fyrir sérstakri fyrirgreiðslu sem þeir fengu hjá ríkissjóði - og hvar eiga þeir þá aðgang að lánsfé fyrir kaupunum? Hér þurfa menn að skýra mál sitt betur, þykir mér.


mbl.is Samdi um 26 milljarða lán og vill kaupa Netbankann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðin liggur að mestu hjá viðskiptabönkunum

Það er all margir sem segja að stjórnvöld hafi átt að grípa til aðgerða í ljósi stöðu bankanna þegar inn á árið 2008 var komið. Frá því síðla árs 2007 var orðið nokkuð ljóst að það voru verulegir brestir komnir í uppbyggingu bankanna - fyrir þá sem voru innanborðs í bönkunum var ljóst að spilaborgin sem þeir höfðu sett upp var að hrynja. Þeir byggðu útþensluna á ódýru lánsfé og þegar sá brunnur var að þorna upp voru góð ráð dýr. Þessu gerði Seðlabankinn sér að nokkru grein fyrir - og eflaust fleiri - og reyndi af veikum mætti vara stjórnvöld við ástandinu.

Viðvaranir seðlabankans hefðu reyndar átt að ýta undir að hann gripi til aðgerða sem stóðu honum næst en einhverra hluta vegna hafði seðlabankann ekki viljað notfæra sér leyfi til aukinnar bindiskyldu á það gríðarlega innstreymi fjár í bankana erlendis frá, auk annarra aðgerða sem bankanum stóð og stendur til boða til þess að hægja á útþenslu viðskiptabankanna. Að auki stóð seðlabankinn í veg fyrir að viðskiptabankarnir gerðu sitt bókhald upp í erlendri mynt, sem hefði gert bönkunum auðveldara fyrir að koma böndum á sín mál en hefði aldrei komið í veg fyrir hrunið eins og málum var háttað.

Íslensk stjórnvöld virðast ekki hafa tekið mark á viðvörunarbjöllum seðlabankans, né annarra, sem glumdu allt í kringum þau. Þrátt fyrir aðvaranir sérfræðinga hér heima og erlendis fór ríkisstjórnin í áráðursferðir fyrir bankana á erlenda grund, til þess að sannfæra umheiminn um styrk og ágæti íslenska fjármálakerfisins. Þeim var að vísu nokkur vorkunn, því viðskiptabankarnir höfðu sannfært þau um að allt væri í himnalagi, en hví í ósköpunum Geir og Ingibjörg létu hafa sig í að mæta á blaðamannafundi fyrir viðskiptabankana er mér ráðgáta. Var ekki nóg að forsetinn léti hafa sig í kampavínsferðir með útrásarvíkingum, þurftu stjórnmálamennirnir einnig að baða sig í skini glópagullsins?

Helstu stjórnendum viðskiptabankanna var staðan ljós síðla árs 2007. Landsbankinn fór m.a. þá leið að lokka til sín sparifé Breta, Hollendinga og Þjóðverja og voru með plön um að fara víðar. Á annað ár reyndu viðskiptabankarnir með öllum ráðum að fela hve illa var fyrir komið hjá þeim. Með góðri hjálp seðlabankans, sem hafði með hávaxtastefnu sinni styrkt íslensku krónuna, gátu bankarnir bætt efnahagsreikninginn hjá sér tímabundið með því að nauðga krónunni og sjá til þess að hún rynni á hausinn með miklum hvelli. Þegar komið var fram á sumarmánuði síðasta árs var staðan orðin það slæm að fall Lehman bankans var nóg til þess að bankakerfið hrundi á skömmum tíma.

Ef ríkið hefði ekki tekið yfir bankana hefði farið enn verr en ella. Greiðslukerfi bankanna var hægt að halda til haga en menn geta rétt ímyndað sér hvernig hefði farið ef það hefði hrunið. Samfélagið hefði því sem næst lamast og stutt í almenna upplausn og jafnvel þaðan af verra. Lögin sem heimiluðu þessa yfirtöku voru því sannarlega neyðarlög. Þrátt fyrir mikla örðugleika í milliríkjaviðskiptum, að ekki sé nú talað um lögleysuna sem Bretar beyttu okkur, tókst að viðhalda eðlilegum bankaviðskiptum innanlands og seðlabankinn gerði hvað hann gat til þess að halda uppi fjárstreymi inn og útúr landinu. Þessar aðgerðir afstýrðu því að allt færi hér í kalda kol.

Hvað sem segja má um aðgerðaleysi yfirvalda og þeirra stofnana sem áttu að sinna eftirliti og hafa umsjón með peningamálastefnunni, þá má ljóst vera að viðskiptabankarnir fóru fram með algerlega óábyrgum hætti, allt fram að hruninu. Enn í dag eru stjórnendur bankanna að bera af sér blak og vilja ekkert kannast við sitt framferði, sitt vonda siðferði, hvað þá að biðjast velvirðingar á því að hafa svikið viðskiptavini sína, eigendur suma, yfirvöld og reyndar þjóðina alla. Svo kann að fara að þeir verði ekki sóttir til saka fyrir það hvernig fór en víst er að fall þessara manna og bankanna má ekki verða til þess að þjóðin missi móðinn og trúi ekki á að hægt verði að byggja upp glæsilega framtíð á ný.


mbl.is Stefndu fjármálalífinu í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég styð minn gamla briddsfélaga

Ég styð minn gamla briddsfélaga að norðan heils hugar - svo fremi hann geri ekki hosur sínar grænar fyrir ESB-aðild. Reyndar tilheyrði Kristján Dalvíkursveit góðra drengja (einn þeirra leiðir Samfylkinguna á Akureyri í sveitarstjórninni), sem náðu því að verða framhaldsskólameistarar í bridds á meðan sveitin sem ég tilheyrði tapaði fyrir Dalvíkurdrengjunum, með litlum mun þó, í úrslitaleiknum það árið. Sveitir okkar voru báðar frá MA. Kristján hefur alla tíð verið heill drengur og góður en jafnframt fylginn sér. Hvort honum takist að vinna Bjarna veit ég ekki en það yrði mikið happaskref fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fá jafn ágætan mann og Kristján í formannssætið.


mbl.is Kristján Þór í formannskjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kveður vorboðinn ljúfi burt leiðindin?

Birtan bítur myrkrið og Íslands gleðigjafi minnir á sig. Þó eru hugir margra myrkir þessa dagana og ekki víst að Lóusöngurinn nái að bregða birtu í hugarheim þeirra. Söngur Lóunnar gefur von um betri tíð. Hennar fagnandi dirrindí er til marks um að á Íslandi hefur í hennar huga ekkert breyst. Landið blasir við henni með öllum sínum gjafmildu eiginleikum og örþreytt sest hún niður á strönd og hugleiðir komandi tíð. Vonbrigði þjóðarinnar eru Lóunni ókunn en ef gleðisöngur hennar blæs ekki von í brjóstum manna er illa komið fyrir okkur öllum.

 


mbl.is Lóan er komin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmaðurinn sem bjargaði íslensku atvinnulífi

Ef þetta minnir ekki á farsa af bestu gerð er eins gott að einhver stuggi við manni og vekji mann. Minnihlutastjórnin núverandi eyddi fyrstu 3 vikum starfstíma síns í að koma fráfarandi yfirstjórn Seðlabankans frá og koma til bráðabirgða norskum gæja að innan ramma nýrra laga. Svo mikið lá á að hrinda þessu í framkvæmd að bráðavandi heimila og fyrirtækja var látinn sitja á hakanum á meðan. Og hluti þjóðarinnar fagnar!

Ríkisstjórnin vissi að síðasta Seðlabankastjórn reyndi að ná niður stýrivöxtum en fékk ekki til þess leyfi frá AGS. Þess vegna lá svona mikið á að fá inn nýtt fólk við stjórnvölinn, sem var svona miklu betra að lesa í vilja hins alþjóðlega yfirvalds. Rökstuðningurinn fyrir þessari sýndarlækkun verður með hefðundnum hætti ... fara varlega í sakirnar, óvissa enn ríkjandi, krónan veikst að undanförnu. Skýringar ríkisstjórnarinnar verður sérdeilis forvitnilegt að heyra.


mbl.is Stýrivextir lækkaðir í 17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttagreiningadeild Íslandsbanka

Enn eru greiningardeildir bankanna að störfum fyrir fjölmiðla. Metnaðarlausir fréttamenn meðtaka fréttatilkynningar frá bönkunum og vinna úr þeim "fréttir". Að þessu sinni eru spádómskúlur Íslandsbanka notaðar til þess að spá fyrir um þróun vaxta og verðlags. Ef, fyrir eitthvert kraftaverk, greiningardeildin hefði rétt fyrir sér er ljóst að niðurfærsla vaxta er allt of hæg. Sé þróun verðlags skoðuð ætti vaxtastigið að vera komið niður fyrir 6% í lok ársins - að því gefnu að ekkert óvænt komi upp á næstu misserum.

Lækkunarferlið hófst reyndar hjá fráfarandi stjórn Seðlabankans og það verður forvitnilegt að sjá hvort ný yfirstjórn, til bráðabirgða, muni leggja eitthvað að mörkum í átt til lækkunar vaxta. Þegar hefur verið gefið út að axlarbönd krónunnar - gjaldeyrishöftin - muni standa fram á haustið og á meðan vinnst tími til þess að ráða fram úr krónubréfunum. En fyrirtæki landsins og heimilin bíða þess að vextir lækki og það væri til lítils ef tækist að koma á lífvænlegum gjaldeyrismarkaði ef allar aðrar stoðir efnahagsins væru fallnar.


mbl.is Spá stýrivaxtalækkun á fimmtudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúarbragðasamkomur sem boða ótta

Ráðstefnur um loftslagsbreytingar líkjast um margt trúarbragðasamkomum. Fjöldi vísindamanna hefur af því lifibrauð að setja saman váfréttir og í framhaldi af því viðhalda ótta hjá stórum hópi fólks á vesturlöndum og fylla það samviskubiti yfir iðnvæðingu undir merkjum markaðsbúskaparins. Gagnstætt þessu er vaxandi hópur vísindamanna, auk stórs hóps áhugasamra einstaklinga, sem hafnar heimsendaspám sökum hlýnun jarðar. Sá hópur hefði að ósekju mátt láta fyrr í sér heyra, því æðsu prestar heimsendaspámannanna hafa náð eyrum stjórnmálamanna víða um heim.

Undir fána þessara nýju trúarbragða eru víða um lönd fótgönguliðir reiðubúnir til þess að beita lygaáróðri og hótunum til þess að fá sitt fram. Þeir allra hörðustu láta sig ekki muna um að boða lögleysu og jafnvel ofbeldi. Upp á slíkar aðgerðir eru all margir á Íslandi reiðubúnir að skrifa, þó svo að þeir sjálfir myndu ekki láta sér detta í hug að fara út í þess lags aðgerðir. Þeir láta sér nægja að láta aðra vinna sín myrku verk. Með þeim hætti geta þeir friðað samvisku sína jafnframt því að stunda sitt trúboð - með óttann að vopni eins og góðum trúarbrögðum sæmir.


mbl.is Jörðin hlýnar hratt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband